Færsluflokkur: Bloggar
Moren.
Jæja nú snýst allt á fullu í Eyjum. Makríllinn flæðir í vinnslurnar. Humar og botnfiskur flæðir líka. Vídalín er í landi með fullfermi af karfa, um 120 tonn. Brynjólfur er að landa humri og fiski. Drangavík væntanleg í dag með fullt skip um 80 tonn. Og vaktir í makrílnum hjá VSV, Ísfélagi og Godthaab. Sighvatur er undir með 300 tonn, Kap í gær með 300 tonn. Þorsteinn var undir í gær hjá Ísfélaginu og Álsey líka. Júpiter er kominn og er í löndun. Þórunn Sveins tók sinn makrílkvóta á tveimur dögum 150 tonn.
Guðmundur er væntanlegur í dag með 800 tonn af frosnu og eitthvað í bræðslu. Huginn verður væntanlega á miðvikudag með fullfermi 550 tonn. Svo er Gandí mættur eftir vélarskipti og verið að gera hann kláran á makríl. Nú vantar fólk í vinnu í Eyjum en vandamálið er húsnæði fyrir fólkið, það liggur ekki á lausu.
Bloggar | 20.6.2011 | 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kvöldið.
Jæja nú er makríllinn að gefa sig til. Fréttir eru af góðri veiði í grindavíkurdýpi. Þórunn fór til veiða í gær og er að landa 50 tonnum af makríl. Þeir eru með 1440 troll í láni frá Huginn og það virðist vera að virka hjá Viðari og félögum. Trollararnir fengu ýsuskot í vikunni fyrir austan og lönduðu allir fullfermi á miðvikudag og fimmtudag.
Að öðru, kvótaskelfarnir virðast vera að draga í land með stóra frumvarpið. Eftir að sérfræðinganefnd Jóns bónda skilaði af sér um fjárhagsleg áhrif á breytingum sem bóndinn og fleiri vilja koma á eru menn farnir að sjá að ekki verður gert út á rómantík og smábátar geta ekki haldið vinnslunni á Íslandi gangandi. Það nefnilega hvessir stundum við Íslandsstrendur og það dögum saman. Þá er gott að hafa stærri skipin til að sjá fólkinu í landi fyrir vinnu. Og geta staðið við gerða samninga erlendis um afurðir.
Bloggar | 17.6.2011 | 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú liggur Stóridómur fyrir hjá Hafró. Auka skal þorskkvótann um heil 17.000 tonn, maður lifandi. Jói forstjóri skýrði út af hverju í hádeginu. Fiskurinn er að stækka og stofnvísitalan eykst. Nú erum við í uppsveiflu og eigum að halda því áfram. Árið 2016 verður kvótinn kominn í 250.000 tonn. Takið nú eftir; stofnvísitalan er líklega í hámarki og að öllum líkindum fer hún að dala næstu árin. Ég spái því að árið 2016 verði veiðin innan við 200.000 tonn. Gömlu skipstjórnarnir hér í Eyjum hafa lengi bent á að Hafró sé alltaf tveimur til þremur árum á eftir með ráðgjöfina. Held það sé rétt hjá þeim. Miðað við magnið af þorskinum sem er á ferðinni undanfarin 2-3 ár ættum við að veiða 200- 220.000 tonn árlega. Svo þetta með að geyma fiskinn í sjónum. Einhverntíma drepst stóri fiskurinn og ef ekki má veiða hann hvað þá? Svo étur hann undan sér ef æti vantar. Smærri fiskinum fer fækkandi, samkvæmt línuritum Jóa Hafró bónda, en þeim stærri fjölgar. Svo kunna helvítis kvikindin að synda!
Sighvatur kom með 180 tonn af makríl í morgun og nú er Kap að toga á móti Ísleifi. Togskipaflotinn er að mestu farinn á sjó að draga björg í bú.
Bloggar | 8.6.2011 | 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Aðalfundur Jötuns var haldinn s.l. föstudag. 38 manns mættu til fundar. Fundurinn var nokkuð líflegur og var nokkur umræða um veiðistjórnunar frumvörp Jóns bónda. Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun um þau mál.
Vestmannaeyjum 3. júní 2011
Ályktun
Aðalfundur Sjómannafélagsins Jötuns, haldinn þann 3. júní 2011, mótmælir harðlega framkomnum frumvörpum sjávarútvegsráðherra um fiskveiðistjórnunina og skorar á sjávarútvegsráðherra að draga þau til baka að hluta til.
Aðalfundur Sjómannafélagsins Jötuns 2011 telur mjög alvarlegt ef ráðherra eða framkvæmdavaldinu almennt sé gefið víðtækt vald með setningu reglugerða um ýmis mikilvæg atriði. Það er mjög óeðlilegt, að mati aðalfundarins, að löggjafarvaldið framselji vald sitt í svo ríkum mæli til framkvæmdavaldsins, sem gert er í frumvörpum sjávarútvegsráðherra um fiskveiðistjórnunina.
Ef þessi tvö frumvörp verða samþykkt óbreytt á Alþingi Íslendinga er verið að taka miklar aflaheimildir frá sjómönnum í Vestmannaeyjum og færa öðrum, s.s. tómstundasjómönnum og smábátum. Sjómenn í Vestmannaeyjum hafa á undanförnum árum tekið þátt í niðurskurði aflaheimilda í þeirri fullvissu að verið væri að byggja upp fiskistofnana. Núna þegar betur árar á að taka aukninguna frá okkur og aðrir munu njóta góðs af, sem ekki hafa til þess unnið.
Aðafundur Sjómannafélagsins Jötuns minnir á að stóra sáttanefndin um fiskveiðistjórnunina komst að niðurstöðu sem nær alger sátt var um. Nú skal þeirri sátt kollvarpað með pólitískum æfingum ríkisstjórnarinnar í þágu réttlætis til handa landsmönnum.
Aðalfundur Sjómannafélagsins Jötuns lítur svo á að með frumvörpum sjávarútvegsráðherra um breytingar á fiskveiðistjórninni, sé verið að taka stóran spón úr aski sjómanna í Vestmannaeyjum sem er algerlega óásættanlegt að mati aðalfundarins. Það er ljóst, að mati aðalfundarins, að réttlæti Ríkisstjórnar Íslands nær ekki til sjómanna í Vestmannaeyjum.
Aðalfundur Sjómannafélagsins Jötuns mótmælir þeirri hækkun sem boðuð er á auðlindagjaldi í sjávarútvegi. Það er ljóst að svona hækkanir lenda þar sem síst skildi, þ.e. á sjómönnum sjálfum. Fundrinn minnir á að kjarasamningar sjómanna og útvegsmanna eru lausir og hækkanir á gjöldum útgerðarinnar liðka ekki til fyrir kjarasamningum.
Aðalfundur Sjómannafélagsins Jötuns fagnar að í frumvörpum sjávarútvegsráðherra eru ákvæði sem banna nánast framsal aflaheimilda. Einnig tekur aðalfundurinn undir þau sjónarmið í frumvörpum sjávarútvegsráðherra, sem gera útgerðum óhægara um vik að flytja aflaheimildir úr einu plássi í annað, án nokkurs samráðs við heimamenn og stéttarfélög sjómanna.
Að lokum minnir aðalfundur Sjómannafélagsins Jötuns á helstu kröfu sjómannasamtakanna til margra ára um frjálsa verðmyndun á fiski. T.d. með fjárhagslegum aðskilnaði veiða og vinnslu.
Bloggar | 6.6.2011 | 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er Sjómannadagurinn liðinn. Þetta var alveg frábær helgi og viljum við peyjarnir í Sjómannadagsráði þakka fyrir okkur. Bryggjan á laugardeginum klikkaði ekki þrátt fyrir frekar kalt veður. Hátíðarsamkoman í Höllinni á laugardagskvöldið var hreint út sagt geggjuð. Dagskráin keyrð á fullu og ball til að verða fimm um morguninn. Krakkarnir í leikfélaginu sungu fyrir okkur nokkur lög úr mamma mia. Síðan tóku Guðrún Gunnars og Stebbi Hilmars við og tóku nokkur Eyjalög. Obbósí fóru á kostum fram undir miðnætti með stuðningi Árna Johnsen og Júlla kokks. Tríkot tryllti svo lýðinn fram undir morgun. Tríkot verða alltaf betri og betri. Maturinn hjá Einsa Kalda var sér kapítuli. Forréttaborð og steikarborð sem tóku öllu fram sem áður hefur komið frá Einsa. Takk Einar fyrir frábæra veislu.
Sunnudagurinn var með hefðbundnu sniði. Sjómannadagsráð byrjaði í skötuveislu hjá Adda Johnsen og þaðan í sjómannamessu. Snorri Óskarsson hélt magnaða ræðu við minnisvarðann og sagði okkur frá því að 60 ár eru liðin síðan minnisvarðinn var reistur. Heiðranir á Stakkó og verðlaunafhendingar fyrir keppni helgarinnar.
Bloggar | 6.6.2011 | 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú eru skipin að tínast inn og skrýðast fánum fyrir helgina. Þórunn landaði í gær 110 tonnum, Vídalín er að landa um 100 tonnum. Smáey landaði sínum síðasta túr í fyrradag 40 tonnum. Kap og Ísleifur fóru á makríl í fyrradag og komu með 70 tonn í gærnótt. Til að prufa nýju makríllínuna í VSV. Huginn er kominn með fullfermi af makríl eftir viku veiði. Bergey og Vestmannaey verða á morgun. Sem og Drangavík en þeir lönduðu í Reykjavík á mánudag held ég.
Undirbúningur fyrir helgina gengur vel og allt að verða klárt. Smá vesen með hoppukastalana fyrir yngstu krakkana. Fengum ekki pöntun okkar frá Reykjavík en vinir vorir á Hornafirði björguðu okkur með fjóra höppukastala og rennibrautir. Þar er fyrirtæki sem heitir Hopp.is og þeir eru með allt milli himins og jarðar í leiktækjum. Svo er bara að mæta með góða skapið á bryggjuna og á Stakkó. Fótbolti á morgun á Þórsvellinum kl. 1400 eða í nýju höllinni ef það rignir mikið. Liðin hafa verið í stífum æfingabúðum og afleysingamenn eru ráðnir eftir getu í fótbolta en ekki eftir leikni í netabætingu.
Bloggar | 2.6.2011 | 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja sjómenn nú er Sjómannadagurinn á næsta leiti. Suðurey landaði í morgun fullfermi 80 tonnum. Þorsteinn landaði á þriðjudag 110 tonnum ufsi þorskur. Þórunn landaði í gær fullfermi 110 tonnum. Drangavík er komin úr slipp og farin á sjó. Frár landaði í gær 40 tonnum þorsk + bland af Víkinni.
En hér kemur grind af dagskrá Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja.
Föstudagur 3 júní
Kl. 1400: Knattspyrnumót áhafna á Þórsvellinum skráning í síma 869-8687
Kl. 1600: Golf, opna sjóaramótið. Mætið á völlinn, vegleg verðlaun.
Kl. 2200: Söngkvöld Adda Johnsen í Akóges, úrval af tónlistarfólki ásamt Árna Johnsen.
Kl: 2230: Tónleikar í Höllinni. Todmobile með stórtónleika.
Laugardagur 4 júní
Kl. 1230: Á horni Strandvegs við Flatir. Stutt athöfn við gamla gufuketilinn og afhjúpað upplýsingaskilti um starfssemi Lifrarsamlags Vestmannaeyja 1932-2009.
Kl. 1300: Sjómannafjör í Friðarhöfn
Sr. Guðmundur Örn Jónsson blessar daginn.
Kappróður, koddaslagur, spretthlaup á sjónum, hoppukastalar, rólan, björgunarbáturinn,
Mummi Fúsa sýnir heljarstökk á reiðhjóli, Leikfélagið verður á staðnum, popp og flos, fluglínutækin sýnd,keppni bestu netamanna flotans.
Ribsafari kynnir nýja bátinn og býður upp á ódýrar ferðir á 50 mílna ferð.
Kynnir verður hinn valinkunni mublusjómaður, Leó Snær Sveinsson.
Kl. 1530 Málverkasýning í Toppnum. Tobbi Villa sýnir brælumyndir. Sölusýning, allur ágóði rennur til Björgunarfélags Vestmannaeyja
Höllin.
Kl. 2000: Hátíðarsamkoma í Höllinni.
Húsið opnar kl 1930. Matur fram borinn kl 2000. Lúðrasveitin startar kvöldinu. Lifandi músik undir borðhaldi.
Nýjasti kvikmyndaleikstjóri Eyjanna, Elvar Böddason sýnir nýja heimildarmynd um grálúðuveiðar.
Leikfélag Vestmannaeyja heiðrað í tilefni 100 ára afmælisins.
Tónleikar; Guðrún Gunnars og Stebbi Hilmars taka Eyjalögin og sitthvað fleira.
Mamma Mia
Tríkot og Obbósí (Tríkósí ) stíga á stokk, sýna spilagaldra, spá í bolla, taka lagið og sprella með mannskapinn.
Addi Johnsen tekur gamla Jón í Gvendarhúsi og Sæsavalsinn.
Tríkósí tryllir lýðinn fram eftir nóttu.
Veislustjóri Jarl Sigurgeirsson.
Matur skemmtun og ball kr 8000. Ball kr 2600. Borðapantanir í síma 698-2572
Koma svo sjómenn Sjómannadagsráð er til fyrir ykkur og þið verðið að koma til okkar svo hægt verði að halda þessari starfsemi úti.
Svo verður sunnudagurinn með hefðbundnu sniði og tónleikar með Magnúsi og Jóhanni um kvöldið, þúsund kall inn.
Bloggar | 26.5.2011 | 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Moren.
Stal þessu af vef SVG, gott mál.
Hæstiréttur staðfesti nýverið dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli þar sem deilt var um rétt skipverja á frystitogara til veikindalauna, vegna meiðsla er hann hlaut um borð í skipinu.
Fyrir hönd skipverjans var gerð krafa um full óskert laun í þeim tveimur veiðiferðum sem farnar voru meðan á óvinnufærni hans stóð, sem var í rúma tvo mánuði. Útgerðin vildi hins vegar ekki greiða skipverjanum forfallalaun fyrir fyrri veiðiferðina sem farin var á tímabilinu, einvörðungu þá síðari, þar sem skipverjinn hefði átt að vera í fríi fyrri veiðiferðina, hefði hann ekki veikst. Taldi útgerðin að við uppgjör veikinda- og slysalauna ætti að miða við róðrafyrirkomulag sem almennt gilti um borð í skipinu, sem var tvær veiðiferðar á sjó og ein í frí. Hafði útgerðin um árabil haft þennan háttinn á við uppgjör slysa- og veikindalauna við skipverja sinna.
Í dómi Hæstaréttar sagði að skýra bæri 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, sem fjallar um veikinda- og slysalaun skipverja, á þann veg að skipverji sem forfallaðist við vinnu sína héldi fullum launum þótt hann hefði átt að fara í launalaust frí á veikindatímabilinu. Var meðal annars til skýringa vísað til frumvarps til eldri sjómannalaga sem og dómafordæma um beitingu þeirrar reglu. Var því fallist á kröfur skipverjans og útgerðinni gert að greiða honum umkrafinn laun, auk dráttarvaxta og málskostnaðar.
Með dómnum er bundinn endir á langvinnan ágreining samtaka sjómanna og útgerðarmanna varðandi uppgjör á slysa- og veikindalaunum skipverja sem starfa samkvæmt skiptimannakerfi. Vitað er til þes að margar útgerðir hafa gert upp forfallakaup til samræmis við það skiptimannakerfi sem gilti um borð í skipum sínum. Eru skipverjar sem forfallast hafa frá vinnuog hafa ekki fengið greidd full og óskert laun, í allt að tvo mánuði, meðan á óvinnufærni þeirra stóð, hvattir til að kanna sína réttarstöðu.
Jónas Þór Jónasson, hæstaréttarlögmaður, Lögmenn Jónas & Jónas Þór sf., lögmaður SVG, flutti málið fyrir hönd skipverjans
Bloggar | 26.5.2011 | 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja þá er maður kominn heim úr ,,sumarfríinu". Var á Benidorm með minni spúsu í góðu yfirlæti í hálfan mánuð. Konan bauð í tilefni fimmtugs afmælis míns og við höfðum það mjög gott.
En að öðru, nú er dimmt um að litast á Fróni. Hér í Eyjum er öskufjúk og sólin nær varla að gægjast í gegn. Allir á sjó nema Brynjólfur og Gullberg sem lönduðu í morgun. Varla hægt að landa fyrir öskunni sem smýgur allsstaðar og m.a. í fiskikörin. En almennt er ágætis fiskirí að sögn kunnugra.
Bloggar | 23.5.2011 | 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú er hið árlega páskahret yfirstaðið. Höfuðborgarbúar fengu aðeins um helgina en það er nú bara til að minna þá á að við búum á Íslandi. Ísbjörn gengur laus á Hornströndum og nú eru sumir ábyggilega að pússa hólkana.
Þórunn Sveins kom í morgun með fullfermi og Smáey landaði eftir sólarhring fullfermi um 70 tonnum. Smáey var á bankanum og þar er allt vaðandi í fiski eftir fæðingarorlofið. Humarpungarnir eru að fá ágætt.
Skandia hefur fengið aðstoð frá Perlunni við að opna Landeyjahöfn. Sér nú fyrir endann á þessu ,,risavaxna" verkefni. Landeyjahöfn verður opnuð í vikunni segja mér fróðir menn. Nýr stýrimaður er kominn á Skandia. Það er Siglfirðingurinn Ólafur Ragnarsson sonur Ragga Óla sem var skipstjóri og útgerðarmaður á Siglfirðingi Si 150. Óli reddar þessu ef ég þekki kauða rétt.
Bloggar | 2.5.2011 | 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar