Færsluflokkur: Bloggar

Hjólin farin að snúast.

Moren.

Jæja þá eru hjólin farin að snúast aftur eftir páskaátið og sukkið. Flestir farnir á sjó. Lítið frést af fiskiríi en Þórunn og Þorsteinn verða í fyrramálið. Báðir nýfarnir út, þannig að eitthvað er komið í lestarnar hjá þeim. Vídalín landaði í gær góðum túr. Glófaxi er að gera klárt á humarinn. Þeir fiska fyrir VSV. Brynjólfur og Krissan eru farnir á humarinn.

Tíðin hefur verið heldur hryssingsleg undanfarið, eiginlega undanfarna mánuði. Skandia getur ekki athafnað sig í hafnarkjaftinum á Landeyjahöfn þannig að við verðum að sætta okkur við Þorlákshöfn. Meira fok............ klúðrið þetta alltsaman. Svo er þjónustustigið um borð fyrir neðan allar hellur. Lofað hefur verið bót og betran og við skulum vona að það gangi eftir. Það er ekki við áhöfnina að sakast í þessum málum heldur rekstraraðilann. Og líklega eru einhverjar sparnaðarkröfur frá Vegagerðinni. Skipinu seinkar mjög oft, ekki bara vegna veðurs heldur vegna undirmönnunar.

Svo er áhöfnin hengd uppá þráð og vinnur undir því álagi að ef hún ekki samþykkir auknar kröfur frá útgerðinni þá bíði uppsagnarbréfið handan við hornið. Þernunum þremur sem sagt var upp í janúar síðastliðnum, höfðu fengið vilyrði fyrir því að bera nýja vinnutilhögun undir mig áður en þær skrifuðu undir hana. En viti menn áður en til þess kom afhenti einn skipstjóra skipsins þeim uppsagnarbréf og gerði þeim að fara frá borði tafarlaust, þær þyrftu ekki að vinna uppsagnafrestinn. Takk fyrir og laggó.

Svona vinnubrögð eru vitanlega forkastanleg og Jötunn hefur fordæmt þau og krafið útgerðina svara. Ekki hefur verið orðið við því. Svörin eru þögnin ein. Einhversstaðar er maðkur í mysu.


Páskablogg

Moren.

Nálgast nú páskar og óska ég öllum bloggurum og blogglesendum gleðilegra páska. Verð í Ölfusborgum um páskana ásamt góðum vinum.

Flest öll skip í höfn en Þórunn landaði í morgun tæpum 75 tonnum af blandi. Vídalín landaði í gær fullfermi af karfa 105 tonnum. Bátarnir fara út í nótt en kl 10 í fyrramálið lýkur fæðingarorlofi þorsksins hér fyrir suðurlandinu. Það verður stutt gaman því flestir verða að koma inn fyrir miðnótt. Föstudagurinn langi og páskadagur eru heilagir og sjómenn verða að vera í landi þá daga. Einhverjir ætla út á laugardaginn. Brynjólfur og Kristbjörg eru klár á humarinn og halda á miðin eftir helgi. Ekki bólar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um kvótann. Á því heimili er hver höndin upp á móti annari og nú er mesti ágreiningurinn hjá Samfó. Þar á bæ er bullandi vilji til að rífa af okkur aflaheimildir til að færa öðrum. Kakan er alltaf jafnstór sama hve menn taka af henni handa öðrum. Sumir virðast halda að ef heimildir verði teknar af okkur í Eyjum þá aukist kvótinn sjálfkrafa og meira verði handa öllum. Tek fram að ég fordæmi SA/LÍÚ fyrir að halda kjaramálum landsmanna í gíslingu. Það er ólíðandi og SA stóð ekki við orð sín frá í febrúar. En Villi karlinn á Akranesi er búinn að semja við Elkem á Grundartanga svo kannski liðkar það fyrir. Það verður að klára þetta dæmi sem kallast kjarasamningar.


Haukur á Reykjum.

Moren.

Í gær, föstudag 15 apríl lönduðu nokkuð margir. Nú er fæðingarorlof hjá þorskinum hér fyrir suðurlandinu. Því líkur kl. 1000 á skírdag. Rauði herinn kom allur til löndunar, með þokkalegan afla. Svona 20-50 tonn. Suðurey landaði líka í gær sem og Dala Rafn. Þeir voru með fínan afla. Vídalín líka.

En að fyrirsögninni. Hauk á Reykjum þekkja allir Eyjamenn. Og reyndar margir í London líka. Haukur er upphafsmaður að ferð til Grimsby og Hull um miðjan maí. 20 manna hópur fer með Hauki. Tilefnið er að árið 1954 fórst báturinn Glaður Ve rétt austur af Eyjum. Áhöfnin komst í gúmbát og var bjargað af áhöfn togarans Hull City frá Grimsby, eftir mikið volk. Leifur bróðir Hauks var einn skipbrotsmanna af Glað. Í minningu hans og annara í áhöfn Glaðs, hefur Haukur látið útbúa minningar skjöld um þessa björgun og einnig verður á skyldinum þakkir til breskra og skoskra sjómanna, frá sjómönnum og útgerðarmönnum  í Eyjum og frá Björgunarfélaginu. Þessir félagar okkar björguðu fjölmörgum íslenskum sjómönnum frá bráðum dauða meðan þeir fiskuðu hér við Ísland. Einnig er einn áhafnarmeðlima Hull City á lífi og verður honum afhentur heiðursskjöldur Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja fyrir björgunarafrek af þessu tilefni í sjómannamessu í Grimsby þann 14 maí.

Fulltrúar allra þessara félaga fara með Hauki í ferðina og hefur Haukur m.a. boðið séra Kristjáni Björnssyni með í för.


Utankvóta tegundir.

Moren.

Þórunn Sveins landaði í morgun fullfermi um 100 tonnum. Þar af voru 45 tonn af blálöngu sem er utan kvóta. Einnig voru Gummi Lalla og félagar með aðrar utankvótategundir, lýsu, trjónufisk, langhala, gjölni og eitthvað fleira. Þeir eru búnir að fiska fyrir 30 milljónir frá í janúar, fisk sem er utan kvóta. En nú hlýtur að birta til í hugum fiskivísindamannanna. Nú eru tonnin 700.000 sem þeir tíndu um árið komin fram og gott betur. Stór og sílspikaður þorskur er allt um kring. Nýjustu fréttir að norðan eru þær að togarar fiska ýsu við Kolbeinsey, af öllum stöðum. Þorskur er inná öllum fjörðum og grásleppukallarnir gráta mikið yfir meðaflanum.

En ,,stofnvísitala nýliðunar" er ekki góð og kannski dregur það kjark úr okkar mönnum.


ÆSEIF

Moren.

Fyrirsögnin er ekki skemmtileg en nú hefur pupullinn talað og það eru hreinar línur. Við borgum ekki. Gott og vel nú er að bretta upp ermar og berjast til síðasta manns.

En nánast allur flotinn kom í land á sunnudaginn í brælunni sem enginn átti von á nema þeir sem fylgjast með veðurspánni. Drangavík landaði fullfermi 90 tonnum í gær. Þorsteinn með 55 tonn. Suðurey 80 tonn. Gullberg 85 tonn. Netabátarnir eru hættir og verða klárir á humarinn eftir páska. Nú er þorskurinn kominn í fæðingarorlof til 23 apríl hér fyrir suðurlandinu. Þorskgengdin er orðin grafalvarlegt mál. Hann á eftir að éta okkur útá gaddinn blessaður ef fram fer sem horfir.

 


Fiskur og Hressó.

Moren á miðvikudegi 6. apríl.

Þorsteinn landaði í morgun 100 tonnum af blönduðum afla. Í gær lönduðu Smáey góðum 50 tonnum, Dala Rafn 60 tonnum og Vídalín 100 tonnum. Svo voru Bergey og Vestmannaey að koma til löndunar. Þórunn verður á morgun, var komin með góð 90 tonn í morgun. Nú er lækkandi fiskverð vegna aukins framboðs og vinnslurnar hafa ekki undan þannig að menn eru farnir að róast í sókninni margir hverjir. Þorskarnir eru að þvælast fyrir öllum. Ætla að finna upp þorskafælu fyrir öll veiðarfæri og verða milli. Verður örugglega ekki snúið að fá viðurkenningu frá Hafró.

Nú er að hefjast Heilsuefling sjómanna í Hressó. Áskorunin gengur útá að minnka fituna á sjómönnum og kenna þeim að éta réttan mat. Einnig eiga menn að hafa meira úthald eftir keppnina. Kætist þá kvenpeningurinn. Lokarimman verður á Sjómannadaginn og þá verður keppt í sjómanni, og þrekhringur Önnu Dóru verður tekinn í nefið. Keppendur verða vegnir og metnir á alla kanta. Svo verður kannski líka keppt í hamborgaraáti, allt eftir stemmingunni. Keppt verður milli áhafna og einnig milli einstaklinga. Sjómannafélagið tekur þátt í kostnaði sinna félagsmanna við keppnina. Svo hefur heyrst að nokkrir útgerðarmenn ætli að borga brúsann fyrir sínar áhafnir, sem er mjög gott mál og sparnaður fyrir Jötunn!!! Endilega að kíkja við í Hressó eða hringja og skrá sig og sína áhöfn.

Heilsuefling smanna.

Bæði til skemmtunar og heilsueflingar

Hefst vikuna 10. - 17. apríl og líkur föstudaginn 3. júní

Innifalið er:

vigtun og mælingar i upphafi og lok tímabilsins. Stöð

umat i upphafi og endi

(þar sem menn geta séð framfarir sínar á tímabilinu)

Ótakmarkaður aðgangur í stöðina.

Aðgangur að þjálfara í stöðinni.(panta tíma, einn eða fleiri saman.) 
Æfingaáætlun (bæði lyftinga og brennslu;) -
Fræðsluefni.Mataruppskriftir og ráðleggingar.
E-mail samband við þjálfara.

Keppt verdur milli áhafnarmeðlima hver missir flest kíló-
hver mesta fitupró
sentu og hver flesta cm. Og vinnur sá

sem kemur best út miðað við öll þessi atriði,

Keppni verður milli báta: þar sem tveir á hverjum bát sem misst hafa fIest kg. telja. 3. j

úní höldum við þrekmeistarakeppni þar sem tveir af hverjum bát

keppa í greinum sem við gefum upp seinna. - 3. júní

 verður að sjálfsögðu keppt i sjómanni!!

Verð á mann fyrir allan pakkann: 15.000 kr.

 

HRESSÓ


Bræluskítur.

Moren.

Það er komin bræluskítur eina ferðina enn í Verstöðinni. En stendur nú stutt yfir. Suðurey landaði í morgun 75 tonnum af blönduðum afla. Drangavík kom í hádeginu eftir 22 tíma á veiðum við Surtinn með tæp 80 tonn mest þorsk og ýsu, þeir eru öflugir drengirnir á Drangavíkinni. Svo eru netabátarnir með gott dag eftir dag.

Engin Landeyjahöfn þessa vikuna, never ending story. Skandia virðist ekki henta til dýpkunar hafnarinnar og fyrir utan hana. Siglingastofnun og Vegagerðin verða nú í alvöru að verka upp skítinn eftir sig og þrífa skóna sína. Þá verða þeir allavega hreinir þegar þeir traðka á okkur. Eins og svo oft áður geri ég þá kröfu að Landeyjahöfn verði opnuð fyrir siglingar annara skipa en Herjólfs. Annað er ósvinna og ekki boðlegt.


Gullskipið.

Moren.

Gullskipið er fundið. það liggur í Landeyjahöfn. Og fyrsti apríl er í dag. En að öllu gamni slepptu er gullskipið ekki í Landeyjahöfn allavega ekki ennþá. Herjólfur er í Vestmannaeyjum eða Þorlákshöfn. Gullskip Vegagerðarinnar. Hækkun um 100 kall er skítur á priki en þegar saman kemur er um miklar fjárhæðir að ræða fyrir Vegagerðina. Svo passar Vegagerðin uppá að aðrir fái ekki notið Landeyjahafnar. Skýringin er sú að ekkert af þeim farþegaskipum í Eyjum nema Herjólfur hafi leyfi til farþegaflutninga. Hvaða farþega eru Viking og Ribsafari þá að flytja? Drauga og vofur sem enginn sér?

Við verðum að pressa á Siglingastofnun að rjúfa nú skarð í múrinn og leyfa þeim sem eru í atvinnurekstri og hafa leyfi til farþegaflutninga að nota höfnina dýru sem er hér handan við Heimaklett. Aðstöðu fyrir skipin tvö sem rætt er um, er mjög auðvelt að koma upp. Flotbryggja er til, stigi yfir varnargarðinn er fljótsmíðaður og afgreiðsluhús er til. Þegar og ef Herjólfur siglir í Landeyjahöfn verður hún lokuð öðrum skipum, þegar hann athafnar sig þar. Að viðlögðum sektum. Í annan tíma verður höfnin opin. Ölduhæðin setur nægar skorður með siglingar smábáta í Bakkafjöru. Ef hún er meiri en einn metri er höfnin einfaldlega lokuð til siglinga nema fyrir títtnefndan Herjólf. Einfalt og gott.

Svo er brjálað fiskirí á flestum miðum. Þórunn landaði í gær einhverjum afla af miklu dýpi. Gjölni, búra, stinglax, tussunef, langhala, slétthala og tussubarða, ekki sást mjaldur í þessari veiðiferð Þórunnar Sveinsdóttur. Drangavík landaði líka í gær fullfermi og með í stíunum líka, nema hvað. Stígandi er kominn heim úr útlegðinni fyrir vestan og landaði líka í gær sem og Bergur.


Ökuhraði verkstjóra.

Moren.

Verkstjóri einn hér í bæ þykir aka heldur hægt á sínum slyddujeppa. Hafði einn á orði sem lenti á eftir honum í hádeginu á Strandveginum að hann hefði misst af hádegismatnum! Og eiginkona verkstjórans er fyrir löngu hætt að biðja hann að skutla sér í Krónuna, hún er fljótari að ganga.

En fiskiríið heldur áfram. Gleymdi Suðurey í gær en Siggi Konn og hinir jaxlarnir þar um borð lönduðu fullfermi, um 90 tonnum. Þorsteinn landaði í morgun 110 tonnum. Dala Rafn með 30 tonn í gær eftir nokkrar sköfur. Netabátarnir róta honum í sig. Nú liggur Grámann fyrir Eiðinu og reynir að nappa menn í landhelgi. Nei bara grín.


Saga af gulu handklæði

Moren 

Einu sinni var rauður bátur sem réri frá Vestmannaeyjum á trolli. Áhöfnin var merkileg blanda af íslenskum sjómönnum. Flestir höfðu þeir viðurnefni. Svo sem Beikon, Massinn, Dúllan, Kallinn, Tóinn, Kvikindið, Polli róni og fleiri góð nöfn. Þannig háttaði til að lokinni aðgerð að einn og einn komst að við vaskinn á baðinu til að þvo sér í framan og um hendurnar eftir aðgerðina. Þar hékk gult handklæði sem menn auðvitað notuðu til að þurrka sér í framan og um hendurnar eftir þvottinn.

Eitt sinn á landstími eftir vel heppnaðan en nokkuð langan túr sátu áhafnarmeðlimir í borðsalnum á kjaftatörn og í góðu spjalli. Berst í tal að Massinn hefði ekkert farið í bað í túrnum og væri orðinn nokkuð súr kallinn. Mótmælti Massi hástöfum og skýrði frá að hann vaskaði slátrið á hverjum morgni í vaskinum á baðinu. Fölnuðu nú hinir af áhöfninni mjög og að lokum spurði einn þeirra. ,, Með hvaða handklæði þurrkarðu slátrið Massi,"  ,,Nú auðvitað með GULA handklæðinu" svaraði Massinn að bragði.

En fréttir dagsins. Vídalín landaði í gær fullfermi 120 tonnum mest karfa. Gullberg landaði í morgun fullfermi held ég. Vestmannaey kom í dag með 75 tonn. Mörg skip eru á Selvogsbankanum og fiska vel.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband