Færsluflokkur: Bloggar

Selvogsbanki 2011

Moren.

Fiskurinn er kominn á Bankann. Fiskur gengur nú mjög á Selvogsbankann og moka menn upp fiski sem aldrei fyrr. Einn er þó galli á gjöf Njarðar, ýsuna vantar næstum alveg. Ufsi og þorskur í bunkum.

Þórunn landaði í gær fullfermi 115 tonnum. Þorsteinn var einnig fullur með eitthvað svipað. Frár landaði í gærkvöld tæpum 60 tonnum. Netabátarnir eru að salla honum í sig, hendurnar á mannskapnum dragast eftir dekkinu. Skandia landar engu ekki einu sinni sandi. Mælingin á Bakkafjöru er í lagi og líklega verður siglt þangað bráðlega. Hvenær, veit ekki málaður maður eins og maðurinn sagði um árið.

Læk á Fiskistofu fyrir að vera fljótir að leiðrétta tölur um útflutning á ferskum fiski frá Eyjum sl. tvö ár og biðjast velvirðingar á mistökunum. RÚV verður að gera það sama.

Loksins komið vor í dal og viðrar til útivinnu.


Fiskiríið undanfarið.

Moren.

Flotinn sem landaði í síðustu viku var með ágætan afla. Rauði herinn með ca. 65 tonn hver. Frár með góð 50 tonn. Dala Rafn 60 tonn, Gullberg 52 tonn, Drangavík 80 tonn, Þórunn Sveins tæp 90 tonn, Bergur 65 tonn. Suðurey kom á laugardagskvöld biluð með tæp 50 tonn. (Og bilaðan mannskap!!)

Fiskur á Bankanum ufsi, þorskur og lýsa en ýsupíkan lætur bíða eftir sér. Bara sýnishorn sem meðafli. Rallið hjá togurunum kom ágætlega út hefur heyrst á götubylgjunni. Vonandi að fiskiríið hafi ekki verið það mikið að Hafró þurfi að reikna vísitöluna upp á nýtt nokkur ár aftur í tímann.

Senn kemur að frumvarp Jóns bónda líti dagsins ljós um fiskveiðistjórnunina. Líklega verða þar einhverjir pottar sem pólitíkusarnir geta spreytt sig á að misnota.

Samgöngumálin eru ofarlega í huga Eyjamanna nú um stundir. Skandia er að moka þegar gefur og lítið virðist vanta uppá að opna Landeyjahöfn. Ljótt með helvítis rifið sem braut ölduna áður en hún kom að höfninni, það er horfið. Verðum við ekki að sökkva þar einhverjum afgömlum döllum fullum af steypu til að verja Landeyjahöfn fyrir óbrotinni úthafsöldunni? 


Fiskirí í Eyjum.

Moren.

Nú er loðnuvertíð lokið og gekk bara nokkuð vel þrátt fyrir rysjótt tíðarfar. Bræðslukallar ætluðu í stræk en hættu við vegna deilna smákónga. Loðnan hefur skilað þjóðarbúinu miklum tekjum. Fyrirtækin sem eiga skipin og vinnslurnar gera það gott, sjómennirnir hafa það gott og allir sem koma nálægt þessu dæmi.

Iðnaðarmaðurinn (Tóti rafvirki), mjólkursalinn (Olli heildsali),leppasalinn (Sigurjón í Flamingó, Gísli í Smart og fleiri naríusalar), brennivínssalinn (Skattmann), veiðarfærasalinn(Grímur Júlla og Birkir hefingameistarar), Eiríkur í olíunni að ógleymdum smokkasalanum Magga á Kletti og margir, margir fleiri njóta góðs af góðri vertíð. Margir sjá ofsjónum yfir launum sjómannanna á loðnuflotanum. Gleymum því ekki að nú er búið að binda flotann og ekki víst að tekjur komi í kassann fyrr en í júní. Þannig að við verðum að deila þessum tekjum á marga mánuði til að sjá heildarmyndina.

Togbátaflotinn er í landi vegna brælu, já brælu aldrei þessu vant eða hitt þó heldur. Allir með ágætis afla. Það er kominn fiskur á Bankann. Ufsabellirnir eru mættir og sá guli. Vantar meira af ýsunni en hún kemur þó í bland. Held hún komi núna þegar fer að hægjast um í veðrinu og í stækkandi straum.


Gámafiskur.

Moren.

Undanfarið hefur lítið verið flutt út í gámum af óunnum fiski frá Eyjum. Gera má því skóna að verðið á innlenda markaðnum hefur hækkað verulega á flestum tegundum. Verðið úti hefur líka hækkað en flutningurinn er orðinn dýrari og svo er 5% kvótaálag. Í janúar sl. var landað 388 tonnum af þorski í Eyjum. Útflutningur í gámum á landsvísu var 133 tonn. Ýsuaflinn í jan. í Eyjum var 103 tonn, útflutningur í gámum var 65 tonn á landsvísu. Karfaaflinn var 237 tonn og gámaútflutningur 70 tonn. ( Heimild: Hagstofa Íslands.)

Þetta sýnir okkur að menn reyna að gera sem mest verðmæti úr fiskinum. Ef flutningskostnaðurinn væri lægri og kvótaálagið ekki við lýði, væri ugglaust meira flutt út af gámafiski. Sveigjanleiki verður að vera í ráðstöfun aflans, ekki ríkisrekið batterí sem ráðstafar aflanum. Sem þýðir hvað? Spilling.....  Nú eru stjórnvöld að reyna með handafli að útrýma gámunum. Með nýjum vigtarreglum. Mjög þarft mál að allir sitji við sama borð með vigtunina. En, ef menn vilja fyrirmyndar vigtun á öllum afla ættu þeir að kynna sér hvernig málum er háttað á markaðnum í Hull. Þar fer hver einasti fiskur á vigt og er flokkaður eftir þyngd. Þangað eigum við langt í land.

Grein hjá Jóni Kristjánssyni um loðnuna, helvíti góð. http://fiski.blog.is/blog/fiski/


Brælubellir liggja í landi.

Moren.

Nánast allur flotinn er í höfn vegna þrálátrar brælu en nú um hádegi eru skipin að tínast út og kíkja á veðrið. Ég man þegar legið var undir hótel Grænuhlíð, þegar einn hætti sér út fyrir komu allir á eftir og oft var það nú þannig menn hundskuðust til baka með skottið á mili lappanna. En nóg um það. Smá viðbót við loðnukvótann svo menn geta haldið eitthvað áfram. Innansleikjurnar eru nokkuð drjúgar eins og alltaf. Men eru alltaf í síðasta túr en svo bætist eitthvað við. Eins gott því ekki veitir af.


Krónur og aurar.

Moren á laugardagsmorgni.

Vikan er búin að vera lífleg hér í Verstöðinni. Tökum verðmætin til gamans.

Togbátaflotinn: aflaverðmæti vikunnar 20-26 feb. 2011------------163.5 milljónir

Loðnuflotinn:  aflaverðmæti vikunnar 20-26 feb. 2011--------------764 milljónir

Aflahlutur til sjómanna, togbátar -------------40 milljónir

Aflahlutur til sjómanna, loðna:----------------184 milljónir.

Samtals aflahlutur sjómanna í Eyjum í vikunni. 224 milljónir.

Útsvar til Vestmannaeyjabæjar 32,2 milljónir

Tekjuskattur til Ríkisins----------71,2 milljónir.

Þessar tölur eru ekki heilagar heldur er slumpað á þetta svona cirka. En samt eru allar forsendur varlega áætlaðar. Svo er allt hitt eftir. Aflagjöld til hafnarinar, tryggingagjald,mengunargjald, olíugjald, auðlindagjald, og sv.frv.

Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og mér rest heyrist oft núna og því haldið fram að sjávarútvegurinn skili litlu sem engu til þjóðarbúsins.

Er það svo?


Fiskiríið og pólitíkin.

Moren.

Jamm, Vídalín kom í morgun með fullfermi tæp 100 tonn. Bergey var með 40 tonn og svo kom kóngurinn sjálfur Sigurður, Ve smekkfullur af loðnu í morgun. Tilkomumikil sjón að sjá þann gamla skríða á milli garða með fullfermi. Sigurjón Ingvars og félagar fylltu í 7 köstum en fengu smá gefins. Nú er verið að korka nótina upp en gamla korkið var ónýtt og nótin á bólakafi þegar byrjað var að snurpa. Sighvatur og Kap eru að landa VSV megin. Litla Kap er farin til móts við Huginn og hirðir hratið hjá þeim. Huginn er að kreista hrogn. Eins og í báðum stöðvum, ennþá bara iðnaðarhrogn en japaninn fer að koma inn næstu daga ef ekki brælir á miðunum og veiðin kilkkar.

Forseti vor vill kjósa einu sinni enn og er kominn í kosingaham. Hann ætlar fram aftur blessaður kallinn. ,,Fjögur ár í viðbót með Ólafi." Gott nafn á metsölubók. Nú er framtíð margra pólitíkusa undir hvernig kosningin um Icesave IV fer. Hagsmunirnir eru komnir í kross og taka menn saman við gamla fjandmenn hægri vinstri í þessu máli. Einn er eins og unglingarnir, reynir að brjótast undan oki ráðríks foreldris. Annar undan fargi gamallar grýlu sem einu sinni var kölluð kommi. Svo má lengi telja, en forstýra vor heldur sjó og hótar áfram allskonar fyrir Íslendinga. Bændaflokkurinn er á flötu brautinni og ber fótastokkinn en verður ekki ágengt. Litlumannaflokkurinn reynir að ná andanum í djúpu lauginni, með kút og kork, sem dugir þó ekki til. Forsetinn ætlar að heimsækja páfann bráðlega og kristna hann.

 Svona er Ísland í dag.


Myljast inn aurarnir.

Moren.

Nú myljast inn auranir í Verstöðinni. Ekki veitir af. Dómararnir voru að fá kauphækkun. Loðnan flæðir um vinnslustöðvarnar og bræðslurnar. Trollararnir allir að landa. Misjafnt hjá þeim eins og gengur. Þórunn Sveins gerir það ekki endasleppt frekar en fyrri daginn. Með tæp 110 tonn á rúmum fimm sólarhringum.

Þess má geta að Þórunn fór á sjó á föstudaginn s.l. þegar Herjólfur hætti við seinni ferðina. Er Herjólfur þó mun stærra skip en Þórunn. Rauði herinn með 40-50 tonn hver. Bergur er byrjaður aftur og landaði í morgun. Svo er ágætt í netin hjá þeim þremur sem það stunda. Sá guli farinn að sjást í bland. Portlandið er á snurvoð og sæmilegt ýsukropp í fjörunni.

Uppgripaafli er nú víða um land og er þorskurinn áberandi víðast hvar.

,,Harmar hlutinn sinn, hásetinn." og fleiri.


Enginn strækur.

Moren.

Ekkert verður úr stræk bræðslukalla. Samstaða var ekki fyrir hendi þegar til kom. Sjómenn eru vanir því frá fornu fari að einhverjir svíki lit. Hver man ekki eftir þegar allur flotinn var bundinn í stræk, nema Vestfirðingarnir. Svo þegar höggvið var á hnútinn með samningi eða öllu heldur lögum sem bönnuðu verkfallið, fengu Vestfirðingarnir það sama og aðrir og smá aukasporslu svona í rabbat. En svona var þetta í denn. Mín skoðun er sú að ef menn ná ekki breiðri samstöðu um svona aðgerðir er best að sleppa þeim.

Eitt sem verður að nást fram í samningum við útgerðarmenn er verðlagningin á uppsjávarfiskinum. Það gengur ekki að íslenskir sjómenn fái 50 kall fyrir loðnuna í Færeyjum en 30 kall hér heima. Við verðum að hafa fyrirkomulagið þannig að fyrirtækin semji við heildarsamtök sjómanna um verð ekki við áhafnir skipanna. Við förum svo í kallana með verðið til samþykktar eða synjunar. Eða að úrskurðarnefndin úrskurði um verð eins og í bolfiskinum. Verðlagsstofa skiptaverðs heldur ágætlega utanum þessi mál en það vanar fleiri starfsmenn þar á bæ til að batteríið virki eins og það á að virka. Það snýr að stjórnvöldum að bæta þar úr.

Annars er allt á fullum sving hér í bæ. Bætt við loðnukvótann 65 þús. tonnum.  Sighvatur og Þorsteinn að landa loðnu og verið að frysta í VSV og Ísfélaginu á vöktum. Drangavík var í landi í morgun með 40 tonn mest þorskur. Nú kemur sá guli í búnkum á eftir loðnunni og fyllr allar bleyður. Assgoti að gefa ekki út meiri þorskkvóta. Flotinn fer að tínast inn á morgun og hinn.

Dæluskipið Skandia fór yfir í Landeyjahöfn í morgun en gat ekki athafnað sig vegna sjógangs, fór þó aftur núna um fjögurleitið út aftur. Nú kemur þetta vonandi hjá okkur að komast í Bakkafjöru. Skipstjórinn á Skandia er færeyskur og heitir Sigmar Jakobsen. Gárungarnir kalla hann sandlóðs.


Hafa skal það sem sannara reynist.

Moren.

Fyrst vil ég leiðrétta að það er ekki Eimskip sem ákveður gjaldskrá Herjólfs heldur er það Vegagerðin sem ákveður gjaldskrána. Fyrirgefið mistökin, þau eru alfarið mín og beðist er velvirðingar á þeim.

Að öðru leiti stendur síðasta bloggfærsla með þessari leiðréttingu en skoðun mín stendur óhögguð. Þetta er ekki réttlátt gjald sem við greiðum fyrir að komast til Íslands.

Annars er ekki mikið að frétta. Loðnuskipin eru að veiða síðustu skammtana fyrir verkfall bræðslukallanna. ,,Það jombrar á því" sagði einn góður einu sinni þegar vel tók í það. Þannig er fiskiríið hjá togaraflotanum tekur vel í og þarf að hafa fyrir því, endalausar frátökur vegna veðurs en nú er aftur komið vor í dal. Í bili.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband