Færsluflokkur: Bloggar
Moren.
Mér er eiginlega orða vant, aldrei þessu vant. Gjaldskrá Herjólfs til Þorlákshafnar liggur nú fyrir.
Samgöngubót okkar Vestmannaeyinga er að engu orðin og betur heima setið en af stað farið ef þetta á að vera svona.
Verð fram og til baka með Herjólfi til Þorlákshafnar fyrir tvo fullorðna með fólksbíl er kr. 13.782. Þetta verð er miðað við að tekinn sé klefi, bensín til Reykjavíkur og til baka.
Verð fyrir tvo með bíl í Landeyjahöfn með bensínkostnaði til Reykjavíkur og til baka er kr. 9.480.
Mismunurinn er kr. 4.302
Þetta er hin mikla samgöngubót okkar. Þegar ekki er fært í Landeyjahöfn er okrað á okkur til Þorlákshafnar og við getum auðvitað ekki annað en borgað. Skil ekkert í Eimskip að hækka ekki verðið í Landeyjahöfn til samræmis við verðið í Þorlákshöfn. Eða er kannski ekki ætlunin að hefja siglingar þangað á næstunni? Sá grunur læðist að manni. Hvatinn til siglinga á Þorlákshöfn er orðinn fullmikill finnst mér, á kostnað okkar sem nýtum þessa þjónustu, ef þjónustu skyldi kalla.
Tillaga mín er að hafnaraðstaða Herjólfs í Þorlákshöfn verði rifin og skipinu beitt í Landeyjahöfn. Nú er dæluskipið Skandia rétt ókomið og ætti að geta séð til þess að siglingar þangað verði mögulegar, þótt ölduhæðin fari yfir meterinn.
Bloggar | 10.2.2011 | 13:58 (breytt kl. 14:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Moren.
Jæja nú er komin blíða eftir bræluskotið í gær sem stóð í nokkra tíma. Mikið rok og allt fór á flot því snjór var á og þíðan mikil.
Nokkrir nýttu bræluna í gær og lönduðu. Fóru síðan út aftur í morgun. Loðnan flæðir í þrærnar hér og bræðslurnar eru keyrðar á 110% afköstum. Ísfélagið frystir kall á vöktum. Ekki veitir af því bræðslukallarnir ætla í stræk í næstu viku til að leggja áherslu á launakröfur sínar. Við sjóararnir stöndum með þeim í þeirra baráttu. Herjólfur siglir í dag á Þorlákshöfn.
Bloggar | 9.2.2011 | 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gú dag.
Maður lifandi er gott oðtak. Sýnir að maður er lifandi, sem telst nú alveg ágætt á þessum tímum þrenginga og niðurskurðar. Heyrst hefur að í nýju frumvarpi Jóns Bjarna um fiskveiðistjórnunarlögin, verði skorið 20% af úthlutuðum aflaheimildum og þessi 20% fari í sérstakan pott handa Jóni til að leika sér með .
Þetta þýðir að verstöðin Vestmannaeyjar missir 20% af sínum botnfiskafla til annara.
Sem þýðir að minnsta kosti að ársafli tveggja togskipa hverfur héðan.
Það þýðir a.m.k. 30 ársverk tapast héðan beint. Fyrir utan óbeinu áhrifin.
Þetta þýðir að vinnslurnar senda fólk oftar heim og loka lengur yfir sumarið.
Sem þýðir meiri útgöld ríkissjóðs vegna atvinnuleysisbóta.
Þetta þýðir að bæjarkassinn missir stóran spón úr aski í formi útsvars og annara gjalda.
Sem þýðir að framkvæmdir og geta bæjarins til að gera bæinn okkar fallegri og betri skerðast mjög.
Þetta þýðir að hafnarsjóður þarf að endurskoða allar áætlanir vegna uppbyggingar hafnarinnar.
Þetta þýðir einnig að þjónustufyrirtækin draga saman í rekstri og fólk missir atvinnuna í þeim geira.
Þetta þýðir að lífskjör okkar versna til muna.
Á ég að halda áfram....
Allt þetta og miklu meira er í boði ríkistjórnar hinna vinnandi stétta
Alveg bullandi blúss á þessu öllu saman. Maður lifandi. Og þó.
En Þórunn landaði í morgun 35 tonnum síðan á sunnudag. Vestmannaey landaði einnig og Gullberg. Þorsteinn er undir hjá FES með 1000 tonn af loðnu, hélt hann væri tómur þegar hann kom.
Bræla er orð dagsins. Herjólfur hreyfði sig hvergi í morgun og var eins og skotin önd fram til þrjú en þá skreiddist hann til Þorlákshafnar.
Var að fá þær fréttir að verkfall bræðslukallanna hefði verið dæmt ólöglegt í félagsdómi. Meira um það seinna.
Bloggar | 3.2.2011 | 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Moren.
Nú er mánudagur og heldur hrollkalt um að litast á Eyjunni. Búin að vera suðvestan bræla alla helgina og komin suðaustan bræla og rigning núna. Herjólfur fór ekki seinni ferðina í gær og eiginlega veit ég ekki af hverju. Þó duflið við Surtinn sýndi 9 metra þá voru ekki nema 4 metrar á Bakkafjörudufli og kominn hægur vindur við Þorlákshöfn. En skipstjórinn ræður.
Nánast allur flotinn var í höfn þangað til snemma í morgun. Kap kom í gærkvöld með 600 tonn af loðnu og nótina í henglum. Nú stendur yfir viðgerð á nótinni hjá Grími Júlla og félögum í Net.
Þernumálið á Herjólfi er ekki til lykta leitt. Lögfræðingur Jötuns er með málið í skoðun. Hann skilar greinargerð um málið einhvern næstu daga. Á grundvelli hennar verður tekin ákvörðun um næstu skref. Miklil er skömm þeirra sem að þessu máli stóðu að meina félagsmönnum Jötuns að bera málið undir sitt félag. Svei bara. Maður hélt að þessir gæjar væru búnir að klúðra málum nóg í bili en þetta ríður ekki við einteyming, vandræðagangurinn og vesenið.
Svo það valdi engum misskilningi þá á ég við alla aðila máls; Siglingastofnun, Vegagerðina og Eimskip.
Bloggar | 31.1.2011 | 14:38 (breytt kl. 14:44) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gú dag.
Nú er gaman á bryggjunni. Loðnan streymir í þrærnar og brætt er á fullu. Reyndar er líka að koma depla en Huginn landaði 1200 tonnum af deplu í gær. Kap var að renna að bryggju með fullfermi af loðnu. Sighvatur landaði fullfermi í gær. álsey á mánudag 1820 tonnum af loðnu og nóg er að sjá segja sjómennirnir. Þykkar lóðningar niður á 100 faðma. Allir komnir með djúpnæturnar en það vill brenna við að þær gefi sig undan átökunum enda ekki verið notaðar í mörg ár blessaðar.
Þórunn Sveins fer vel af stað. Landaði 330 körum í gær, mest karfi. Það eru tæp 100 tonn. Þeir verða búnir með kvótann fyrir sjómannadag með þessu áframhaldi. Rauði herinn kom allur inn í gær og þeir voru með ca. 35 tonn hver. Vídalín landaði í gær ágætis túr og Dala Rafn í morgun 40 tonnum. Brynjólfur og Kristbjörg eru á netum, þokkalegt kropp segja þeir þar. Frár er í vélarupptekt í borginni.
Bloggar | 27.1.2011 | 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 25.1.2011 | 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gú dag.
Lítið að frétta héðan af Eynni. Herjólfur siglir á Þorlákshöfn vegna óhagstæðrar ölduspár. En smá sandhryggur er vestantil í innsiglingunni í Landeyjahöfn og má lítið hreyfa sjó til að Herjólfur rekist ekki niður á þessum hrygg.
Gullberg landaði í morgun 50 tonnum af karfa síðan á föstudag. Þorsteinn er væntanlegur í fyrramálið með tæp 60 tonn sem fer allt til vinnslu hjá Ísfélaginu. Grenjandi gangur er í loðnuveiðum NA- af landinu í trollið, sem margir eru á móti. Telja það hafa slæm áhrif á loðnugöngurnar. Hef ekki mikið vit á þessum veiðum en, ef einhverjir með viti halda þessu fram er nauðsynlegt að taka mark á þeim, held ég.
Þingmenn stjórnarflokkanna á Suðurlandi heimsóttu okkur í síðustu viku. Á þriðjudag komu Robbi Marshall og Björgvin G. Þeir fóru túr um bæinn með Elliða bæjarstjóra og meðal annars hittu þeir okkur forystumenn sjómanna í Eyjum. Mig sjálfan, Berg Kristins og Friðrik Björgvins vélstjóra. Við fórum yfir málin með þeim frá okkar sjónarhóli. Sjónarhóll okkar er einhvernveginn þannig að við viljum bætur fyrir sjómannaafsláttinn, engan hrærigraut með fiskveiðistjórnunina, (nóg er nú samt) óvissan er algjör núna og við það er ekki búandi. Svo hafa hvorki ráðherra sjávarútvegs eða fjármála ljáð máls á að hitta sjómenn að máli þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.
Strandveiðikerfi höfum við ekkert að gera með. Eiga smábátar að halda uppi veiðum og vinnslu í stærstu verstöð landsins? Í grenjandi brælu dag eftir dag?
Á miðvikudeginum kom Atli Gíslason óþekktarormur í heimsókn. Ég var ekki á þeim fundi en farið var yfir sömu málin með honum. Svo á eftir að koma í ljós hvort nokkuð mark verður tekið á okkur frerkar en endranær.
Bloggar | 17.1.2011 | 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gú dag.
Er í endurmenntun hjá Hilmari snorra og félögum um borð í Sæbjörginni. Þar er vel staðið að málum og allt til mikillar fyrirmyndar. Skipið sjálft, kennsluefnið og hvernig tekið er á móti okkur aulunum sem lofuðum öllu fögru á síðasta námskeiði. Æfa meira og betur, nota allan hlífðarbúnað betur og rétt, henda kalli í sjóinn með reglulegu milibili og bjarga honum aftur að sjálfsögðu, Kennslan er alltaf að vrða fullkomnari og betri eftir því sem rannsóknum og greiningu slysa fer fram. Dauðaslysum á sjó hefur fækkað mjög undanfarin ár en því miður lést einn félagi okkar á síðasta ári. Slysum fjölgaði aðeins og voru skráð 279 slys á sjó við Íslandstrendur árið 2010 á móti 248 árið 2009. Þetta eru alltof mörg slys. Við verðum að bæta okkur í þessum efnum. Það tekst með sameiginlegu átaki okkar sjálfra. Einn liður í því er að skrá öll slys og næstum því slys um borð í flotanum og nota þá skráningu til að fyrirbyggja að slys gerist aftur. Þetta heitir að skrá reynsluna til að gleyma henni ekki strax. Nota svo skráninguna til að fyrirbyggja.
Eins og ég sagði er starf Sæbjargarfólks til fyrirmyndar og ekki annað hægt en að hrósa því ágæta fólki sem þar kemur að málum. Eitt hefur mér þó þótt vanta undanfarið. Þ.e. að Sæbjörgin komi til okkar en ekki við til þeirra. Ég veit að það reyndist ekki nógu vel á sínum tíma og þótti dýr kostur. En mætti ekki færa hluta námsins í heimabyggð? Flestir stærri útgerðarstaðir hafa á að skipa góðum slökkviliðum og björgunarfélögum. Þessir aðilar gætu tekið að sér t.d. endurmenntunina. Það er ekki sjálfgefið að menn eigi heimangengt til höfuðborgarinnar þegar mæta á til skóla.
Þessari hugmynd er hér varpað fram ril umræðu og skoðanaskipta.
Bloggar | 12.1.2011 | 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hér eru Þorbjörn og spúsa hans á Sjómannadagsballi 2009. Tekið skal fram að myndin er tekin fyrir kl. átta um kvöldið.....
Bloggar | 11.1.2011 | 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Sumir myndu segja að það væri að bera í bakkafullann lækinn að blogga um blessaðan sjómannaafsláttinn. Ég ætla nú samt að gera það og bera saman hvernig frændur vorir á hinum norðurlöndunum koma fram við sína sjómenn. Á hátíðarstundum stæra stjórnmálamenn sig gjarnan af því hve við höfum það gott og velferðarkerfið sé sniðið eftir norrænni fyrirmynd. Síðustu breytingar á skattalögunum voru sagðar aðlögun að hinum kerfunum á norðurlöndunum. Breytingarnar eru m.a. að taka skattaafslátt sjómanna af í fjórum þrepum. En skoðum nú hvernig skattheimtu hin norðurlöndin eru með þegar kemur að sjómönnum.
Færeyjar.
Fiskimannafrádráttur er í Færeyjum og er um 15% af tekjum fyrir skatta. Hámark 75.000 dkr. um árið. Tekjur sjómanna skattfrjálsar að 75.000 dkr. Það jafngildir 1.537.500 isk.
Danmörk.
Lögskráðir sjómenn í Danaveldi hafa 190 dkr. fyrir hvern dag á sjó sem er lengri en 12 klst. Hámarksafsláttur er 41.800 dkr. sem reiknast af tekjuskattsstofni ársins, eða 856.900 ísk.
Svíþjóð.
Afsláttur af tekjuskatti er 35.000 sek í strandsiglingum. 36.000 sek í millilandasiglingum sem er um 610.000 ísk. Auk þess geta sænskir sjómenn fengið sérstaka skattalækkun sem nemur 9000-14.000 sek til viðbótar.
Noregur.
Norðmenn voru að hækka sinn skattaafslátt til sjómanna. Nú er mega norskir sjómenn hafa 150.000 nkr. áður en þeir borga tekjuskatt. Tekjuskattur af því sem er umfram 150.000 nkr er 30%. Sem sagt norskir sjómenn hafa 2.985.000 ísk. í tekjur skattfrjálst og eftir það borga þeir 30% tekjuskatt.
Ísland.
Sjómannaafsláttur á Íslandi árið 2009 var kr. 987 á dag eða að hámarki 360.255 kr. miðað við 245 daga á sjó eða fleiri. Afslátturinn er dreginn af reiknuðum tekjuskatti áður en persónuafslátturinn er dreginn frá.
Þessar staðreyndir tala sínu máli og allt tal um að verið sé að aðlaga okkar skattkerfi að öðrum skattkerfum á norðurlöndunum er húmbúkk og hrein og klár lygi.
Auðvitað á valdaelítan á Ísland að skammast sín fyrir að rífa af íslenskum sjómönnum þennan skít úr hnefa sem þeim er skammtað. Hækka bara dagpeningana hjá hinu opinbera sem eru skattfrjálsir og voru á síðasta ári rúmir 8 milljarðar króna. Svei.
Rökin hjá frændum vorum á norðurlöndunum fyrir skattaafslætti til handa sjómönnum eru einföld og skýr:
Sjómenn vinna hættuleg störf fjarri heimilum sínum og fjölskyldum. Þeir nota samfélagsþjónustu minnst hinna vinnandi stétta. Fyrir það ber að þakka og samfélagið gerir það með þessum beina hætti. Svo má bæta við að þar sem ég þekki til á hinum norðurlöndunum eru allir sem maður hittir stoltir af sinni sjómannastétt. Aðeins finnst mér vanta uppá að svo sé, hér á landi.
Bloggar | 10.1.2011 | 13:58 (breytt 12.3.2012 kl. 13:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar