Færsluflokkur: Bloggar
Um leið og ég óska ykkur farsældar á nýju ári þakka ég innilega fyrir það sem er að líða. Þetta hefur verið viðburðarríkt ár að mörgu leiti. Persónulega hjá mér og mínum hefur árið verið gott. Þó svo við hjónakornin séum orðin tvö í kotinu. Örverpið Valur Már er fluttur í borgina til Lindu sinnar sem er í krefjandi námi í háskólanum. Anna og Davíð eru flutt í Hofteiginn og una sér vel þar með Unu sína. Hún fær oft að koma í heimsókn til okkar í Eyjum og við höfum voa gaman saman.
Almennt má segja að ástandið í sjávarútveginum sé þokkalegt og sjórinn er að halda þessu þjóðfélagi á floti nú um stundir. En óvissan um auðlindina er óþolandi. henni verður að linna. Stefnan liggur fyrir frá sáttanefndinni en pólitíkusar þvælast fyrir sem fyrr og eru að verja einhverja einkahagsmuni eða eru í þrotlausu kjördæmapoti. Skamm á þá og snúa nú við blaðinu og klára dæmið.
Gangið hægt um gleðinnar dyr og munið hið fornkveðna; Öl er böl. ( lengi má böl bæta ) o.s.frv.
Bloggar | 31.12.2010 | 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Moren og Gleðileg jól allir bloggarar.
ÁRÍÐANDI SKILABOÐ.
SJÓMENN Í VESTMANNAEYJUM. ALMENNUR FÉLAGSFUNDUR JÖTUNS VERÐUR Í ALÞÝÐUHÚSINU MIÐVIKUDAGINN 29 DES. KL. 1600. ---KALDUR AF KRANA Á EFTIR MEÐ LÚKARSSPJALLINU.----
Ný þórunn Sveinsdóttir kom til heimahafnar á tólfta tímanum á aðfangadag. Til hamingju Sigurjón og Co með glæsilegt fley.
Bloggar | 26.12.2010 | 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú eru jólin á næsta leiti. Fátt um fína drætti í fiskiríinu enda flestir hættir og búnir að binda og jólaskreyta. En Gandí kom að landi í morgun með eitthvað bland í poka. Grálúðu, karfa og gulllax. Drangavík sömuleiðis með 40 tonn og eru komnir í frí fram á annan í jólum. Þá er bara Jón Vídó eftir en hann kemur á þorláksmessu. Flestir ætla á sjó milli hátíða að ná í gullgáminn.
Menn eru í óða önn að skreyta skipin og eru þær skreytingar flottar og margvíslegar. Frár Ve 78 er þar engin undantekning. Falleg jólastjarna í einum brúarglugganum og í skipstjóraglugganum er jólasveinn með ljósi. Held að Sigmar Þröstur hafi sett sveinka þarna. En hann verður að svara fyrir afhverju það er jólasveinn er í skipstjóraglugganum!!
Bloggar | 20.12.2010 | 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Moren.
Nú er loksins komin suð- vestan átt hér á skerinu. Siglingastofnun hefur beðið eftir henni lengi. En Smáey landaði 47 tonnum í morgun mest karfa og ufsa. Vestmannaey kom einnig í morgun með gulllax og nóg af honum sýndist mér þegar hún kom inn alveg á nösunum. Gulllaxinn fer í vinnslu hjá Goodthaab í Nöf. Vestmannaey fer aftur til gulllaxveiða. Bergur landaði í gær góðum túr og er kominn í jólafrí. Huginsmenn fara í menningarferð í höfuðborgina um helgina og taka það óklárt á Grand Hótel. Nánar á www.huginn.is
Lóðsinn er ennþá í Njarðvík og er væntanlegur heim á morgun. Höfnin fékk lánaðan dráttarbát hjá Björgun sem er staddur hér í Eyjum. Þokkalega gekk að koma Fellinu upp að bryggju í morgun en enginn afgangur var þó af því.
Góða helgi allir og munið að öl er böl. Það segir í Hávamálum. ( það á sérstaklega við um áhöfnina á Huginn. )
Bloggar | 10.12.2010 | 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú nálgast jólin óðfluga. Vegna kvótaleysis eru skip að stoppa umvörpum og það er bara 9. des. Allir eru komnir of langt í þorskinum og það verður að bæta við og það ekki seinna en strax. Nonni bóndi er að vísu búinn að skipa nefnd til að endurskoða aflaregluna. Þar er sonur hans og fleira valmenni. Í fyrstu átti ekki að vera fulltrúi sjómanna í nefndinni og mótmæltu samtök sjómanna því harðlega. Fór svo að lokum að Árni Bjarnason frá FFSÍ var skipaður í nefndina eftir mikinn þrýsting. Þessi nefnd verður að haska sér og færa aflaregluna í 23-25%. Og ekkert leigubrask hjá ríkinu með aukninguna. Hvar halda menn að sá kostnaður lendi? Þeir sem sannarlega veiða sínar heimildir eiga að sitja fyrir væntanlegri aukningu og ekkert me he með það.
Frár landaði í gærkvöld 40 tonnum og er kominn í langt jólafrí því eftir áramót fer hann í vélarskveringu í borginni. Bergey landaði líka í gær um 40 tonnum held ég og allur rauði herinn stoppar í þessari viku fyrir jól. Kannski fara þeir milli hátíða, hver veit? Glófaxi er stopp fram að netavertíð. Ufsaveiðin er treg í netin hjá Krissunni. En þó fór Brynjólfur til ufsaveiða í morgun. Lóðsinn er í skveringu í Njarðvík og er væntanlegur á morgun til Eyja. Á meðan notast hafnsögumenn við Létti sem er orðinn nokkuð lúinn eins og menn þekkja og betra að reka hann ekki harkalega utaní.
Bloggar | 9.12.2010 | 13:55 (breytt kl. 13:57) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Moren.
Var á 27. þingi Sjómannasambandsins fimmtudag og föstudag s.l. Við Jötunsmenn mættum til leiks með okkar sex fulltrúa sem við fengum úthlutað. Starfsamt þing og góðar ályktanir. Jón ráðherra hélt okkur ræðu en sagði ekki mikið. Jóhannes eftirherma var eiginlega betri, náði ráðherranum betur en ráðherrann sjálfur. En 40 fulltrúar sjómanna mættu til þings. Fyrri daginn fórum við í ,,þjóðfund'' sjómanna. Skipt í fjóra hópa og svo róterað svo allir kæmu að hverju borði. Ég var einn hópstjóra og fór með öryggis- og tryggingamál sjómanna. Uppúr hópavinnunni voru gerð drög að ályktunum fyrir þingið sem það afgreiddi svo í nefnd á föstudagsmorgni. Miklu meira kom fram í vinnunni en segir í ályktunum sem þingið sendi frá sér. Það er vel geymt og kemur sér vel í vinnunni við samningagerðina sem framundan er. Drangavík kom biluð í gær með 25 tonn en kemst á sjó í kvöld. Vídalín er að landa góðum 80 tonnum mest ufsa og karfa. Svo er Guðmundur að landa síðasta túrnum úr norsku landhelginni og er með fullfermi. Jólafrí hjá þeim. Brynjólfur er að gera klárt á net. Þannig að þeir fara ekki á fiskitroll, bara humar og net. Já allt er breytingum háð í henni veröld.
En hér koma ályktanir 27. þings SSÍ
Ályktanir frá 27. þingi SSÍhaldið 2. og 3. desember 2010.
27. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega aðför stjórnvalda að sjómönnum með fyrirhuguðu afnámi sjómannaafsláttarins og skorar á stjórnvöld að hætta við þau áform eins og þau liggja nú fyrir. Samkvæmt núgildandi lögum á sjómannaafsláttur að skerðast í áföngum og falli alveg brott árið 2014. 27. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld ræði við samtök útgerðarmanna um fyrirkomulag sjómannaafsláttarins og kostnaðarskiptinguna milli ríkis og útgerðar. Þingið hafnar þeirri aðferðafræði stjórnvalda að afnema sjómannaafsláttinn einhliða og ætla þannig sjómönnum að sækja á útgerðirnar um bætur. Þingið lítur svo á að það sé á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að kjör sjómanna skerðist ekki þó sú ákvörðun sé tekin að kostaður af sjómannaafslættinum sé færður frá ríki til útgerðanna.
27. þing Sjómannasambands Íslands minnir stjórnvöld á skýrslu nefndarinnar sem sett var á fót til að ná meiri sátt um stjórnkerfi fiskveiðanna. Meiri hluti nefndarinnar lagði til ákveðnar breytingar á lögunum til að meiri sátt ríkti í þjóðfélaginu um kerfið. Ekki verður séð á athöfnum stjórnvalda að mark eigi að taka á ábendingum nefndarinnar. Þvert á móti virðist sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggja sig fram um að hunsa meirihlutaálit nefndarinnar. Þingið gagnrýnir einnig að ekkert samráð virðist eiga að hafa við samtök sjómanna um fiskveiðistjórnunarkerfi framtíðarinnar. Varla getur það flokkast undir víðtæka sátt ef þeir sem hafa atvinnu af fiskveiðum eru ekki spurðir um álit á hvernig málum atvinnugreinarinnar verður háttað í framtíðinni.
27. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að frjálst framsal aflamarks verði afnumið og samhliða verði sett lög um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu. Eins og staðan er í dag getur kaupandi og seljandi afla verið einn og sami aðilinn sem í krafti einokunaraðstöðu sinnar ákveður verðið. Slíkur viðskiptamáti hlýtur að brjóta í bága við lög um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Eðlilegt hlýtur að teljast að allir fiskkaupendur hafi sömu möguleika á að kaupa þann fisk sem leyfilegt er að veiða úr takmarkaðri auðlind. Fyrsta skrefið til að koma á eðlilegum viðskiptaháttum með fisk er að aðskilja veiðar og vinnslu fjárhagslega sem leiðir til þess að allur afli verði seldur á fiskmarkaði eða tengdur afurðarverði.
27. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir þeirri lítilsvirðingu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sýnir sjómönnum ítrekað með því að leita ekki eftir áliti samtaka þeirra þegar ráðuneytið fjallar um málefni sjávarútvegsins.
27. þing Sjómannasambands Íslands hafnar alfarið hugmyndum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að taka fyrirhugaða aukningu aflaheimilda í þorski, ýsu, gullkarfa, ufsa og síld af þeim sjómönnum sem starfa á skipum sem nú hafa aflahlutdeild í þessum tegundum og selja þær öðrum.
27. þing Sjómannasambands Íslands skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga til baka reglugerð nr. 678/2010 um bann við dragnótaveiðum.
27. þing Sjómannasambands Íslands er ósammála aðgerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka rækju úr kvóta og gefa veiðarnar frjálsar. Þingið telur að þessi aðgerð geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir rækjustofninn enda var ákvörðun ráðherra tekin í andstöðu við álit Hafrannsóknastofnunarinnar. Þingið bendir á að betra hefði verið að banna frjálst framsal rækjukvóta og krefja þá sem ekki nýttu kvóta sína um að skila þeim þannig að hægt yrði að endurúthluta kvótunum til þeirra sem veiðarnar stunda. Með því móti væru rækjuveiðar áfram stundaðar með ábyrgum og sjálfbærum hætti.
27. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Jafnframt hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að samþykkja að greiða gjald til Sjómenntar. Jafnframt verði sjómönnum gert kleyft að stunda fjarnám um borð í skipunum.
27. þing Sjómannasambands Íslands leggur áherslu á að inn í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins komi afdráttarlaust ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, þ.m.t. fiskistofnum í íslenskri lögsögu.
27. þing Sjómannasambands Íslands fagnar því að hvalveiðar skuli nú stundaðar hér við land.
27. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega niðurskurði á rekstrarfé til Landhelgisgæslu Íslands. Lífsspursmál er fyrir sjómenn og aðra landsmenn að þyrlur séu til staðar þegar slys eða veikindi bera að höndum eins og dæmin sanna.
27. þing Sjómannasambands Íslands beinir þeim tilmælum til Slysavarnarskóla sjómanna að taka upp samstarf við slysavarnardeildir og stéttarfélög um að koma upp endurmenntunarnámskeiðum í heimabyggð. Jafnframt þakkar þingið Slysavarnarskóla sjómanna fyrir frábært starf að slysavörnum sjómanna og hvetur jafnframt til áframhaldandi árvekni í þessum málaflokki.
27. þing Sjómannasambands Íslands hvetur skipstjórnarmenn, aðra sjómenn og útgerðir til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð í skipum sínum eins og lög og reglur mæla fyrir um.
27. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir þeirri tilhneigingu sumra útgerðarmanna að fækka í áhöfn á kostnað öryggis skipverja.
27. þing Sjómannasambands Íslands vekur athygli smábátasjómanna á að til er kjarasamningur fyrir sjómenn milli SSÍ og LÍÚ sem gildir sem lágmarkskjör fyrir alla sjómenn. Samningar milli smábátaeigenda og einstakra sjómanna á smábátum eru því ógildir séu þeir lakari en áðurnefndur kjarasamningur um lágmarkskjör.
Bloggar | 6.12.2010 | 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Ekkert blogg undanfarið en bætum úr því hið snarasta. Fiskiríið hefur verið heldur dapurt undanfarið. Bergey, Vestmannaey, Frár, Bergur, Dala Rafn lönduðu í gær og voru með 30 til 40 tonn eftir vikuna. Smáey landaði í morgun og var með 40 tonn. Brynjólfur með 45 kör af humri og eitthvað af fiski. Líklega síðasti túr næst hjá honum á krabbanum. Herjólfur gengur í Landeyjahöfn og allt í góðu þar, enda einmunablíða svo elstu menn eru farnir að efast um að það sé kominn vetur.
Þing Sjómannasambandsins verður í næstu viku. Þar verður tekin ákvörðun um hvernig kröfur okkar á hendur útgerðinni lýta út fyrir komandi samninga. Samningar okkar losna um áramót. Nú er búið að ganga frá viðræðuáætlun við LÍÚ og menn byrjaðir að þreifa lauslega hvor á öðrum, alls velsæmis er þó gætt. Engar alvöru viðræður byrja fyrr en að loknu þingi okkar í næstu viku.
Að hálfu Jötuns er lögð mest áhersla á sjómannaafsláttinn, nýsmíða ákvæðið og verðmyndunarmálin, bæði í botnfiskinum og uppsjávarfiskinum. Mönnunarmálin eru einnig ofarlega á blaði. Einnig eru orlofsmálin undir og við gerum kröfu um að kjarasamningur okkar verði einfaldaður á mörgum sviðum.
Bloggar | 26.11.2010 | 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jamm.
Nú er fimmtudagur og þá landa alltaf margir í Eyjum. Bergur, Frár, Bergey, Brynjólfur, Suðurey, Álsey, Guðrún Guðleifsdóttir og Glófaxi. Sæmilegt hjá flestum en þó ekkert mok enda komið haust á þessu nema á síldinni. Þar ganga menn nánast þurrum fótum í Breiðafirðinum. Ísfélagið vinnur síld á vöktum og sendir bolfiskinn til vinnslu á Þórshöfn. Vinnsló er í bolfiski nema um helgar, þá er unnin síld. Vongóðu gæjarnir í Goodhaab eru að gera það sæmilegt og aðrir kvarta ekki upphátt.
Þannig að ekki er ástæða til að vola yfir ástandinu. Nema þá helst höfninni hérna hinu megin við Álinn. Hún gerir okkur lífið leitt en ekki tjóar að gefast upp og grenja heldur safna liði og leysa málið. Heyrst hefur á götubylgjunni að Siglingastofnun sé búin að finna hentugt dýpkunarskip sem hún annað hvort leigi eða kaupi til dýpkunar Landeyjahafnar. Svo væri nú ekki úr vegi að reiknimeistararnir sem hönnuðu höfnina settust niður og hönnuðu varnargarð sem ver höfnina betur fyrir úthafsöldunni og öllum blessuðum sandinum og öskunni. Talandi um ösku, þá er eins og á sé þoka núna, þó heiðskýrt sé. Öskufjúkið í norð-austan áttinni er ennþá mikið.
Bloggar | 11.11.2010 | 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framtakssjóður
Starfsmenn lífeyrissjóða hafa það hlutverk að ávaxta fjármuni sjóðanna í samræmi við lög og fjárfestingastefnu hvers sjóðs. Lífeyrissjóðir hafa alla tíð fjárfest í hlutabréfum í atvinnulífinu og enginn hefur gert athugasemdir þar um. En nú er dreift af miklum krafti áróðri sem beinist allur að því að gera alla starfsemi Framtakssjóðs tortryggilegan.
Það er allmargt í þessum málflutning sem minnir mann á málflutning tiltekins hóps manna í hinum svokallaða valdahóp. Manna sem ástunduðu það af krafti að fjárfesta í fyrirtækjum, gengu að ótakmörkuðu lánsfjármagni í bönkunum, bútuðu þau niður, seldu öll verðmæti úr þeim og flúðu svo með peninganna til Sviss skömmu fyrir Hrun, eða á falda reikninga á Huldueyjum.
Fyrirtækin lágu eftir í rústum og bankarnir sátu upp með verðlausar eignir og lán í vanskilum. Margt af því sem þessir einstaklingar gerðu fellur mjög líklega undir það hugtak að vera fullkomlega siðlaust og í sumum tilfellum saknæmt. Upplýsingar um þessar athafnir liggja í bönkunum.
Alþekkt er að eftir Hrun komi uppgangur og þá gefa fjárfestingar í hlutabréfum mestan arð. Og þá kem ég að pælingu minni, og reyndar fjölmargra annarra.
Innkoma Framtakssjóðs fer greinilega ákaflega í taugarnar á þeim sem eiga peninga (þá sem ég talaði um hér framar) og vilja eftir sem áður getað athafnað sig á hlutabréfamarkaði nánast einir. Nú þvælist Framtakssjóður fyrir þeim og það er ljótt, eins og t.d. þingmenn sem hafa hampað þessum viðskiptaháttum og jafnvel verið þátttakendur, fara nú mikinn í sölum Alþingis og víðar. Það er ekki heil brú í málflutning þeirra í pontu Alþingis og ríkisjónvarpið hampar því í öllum fréttatímum sem betur fer segir maður, því þar afhjúpa þessir menn sig algjörlega fyrir alþjóð. Öllu er snúið á haus og búnar til grýlur í öllum hornum og arfaslakir fréttamenn spila mótþróalaust með.
Fyrirtæki sem umræddir menn fóru höndum um, eru nú sum hver að komast í hendur sjóðs í eigu almennings ásamt þeim upplýsingum sem eru geymdar í bakherbergjum bankanna. Við erum mörg sem viljum að það tækifæri verða nýtt til þess að framangreindir menn verða gerðir ábyrgir gjörða sinna og þeim haldið utan við uppbyggingu heilbrigðs atvinnulífs og hlutabréfamarkaðar.''
Bloggar | 10.11.2010 | 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja.
Loksins er Landeyjahöfn klár til að taka á móti Herjólfi. Farið verður í dag kl. fimm í fyrstu ferð í rúmar fimm vikur. Vonandi verða ekki frekari tafir með höfnina okkar fínu. Flestum finnst mikill munur að fara um Landeyjahöfn í stað Þorlákshafnar. Þótt fólk þurfi að aka klukkutímanaum lengur til Reykjavíkur en úr Þorlákshöfn. Margir segja að suðurlandsvegurinn geti orðið ófær yfir veturinn en ég minni á að Þrengslin og Hellisheiðin eru mun oftar ófærari og þar er oftar hálka en á suðurlandsveginum. Sjóveikin er slæm veiki, segja þeir sem af henni þjást og vilja allt til vinna til að losna við hana. Þar kemur Landeyjahöfn sterk inn og líka er nánast bein tenging við þjóðveg eitt. Sem hlýtur að vera mjög jákvætt er það ekki?
Hananú, Suðurey landaði á Þórshöfn í gær tæpum 70 tonnum í vinnsluna þar. Álsey og Júpiter lönduðu síld úr Breiðafirðinum í vikunni 600 tonnum hvor og Álsey er farin aftur á stjá. Hólabiskup er búinn að gefa út 40.000 tonna kvóta af Íslandssíld og eru menn þokkalega sáttir við það. Sumumfinnst Hafró menn vera ákaflega varfærnir í ráðgjöf sinni því síkingin virðist vera lítil og hafa menn á orði að til að finna 30% sýkingu hafi þurft öflugri smásjár en í fyrra. Bergur var í landi í morgun og Brynjólfur líka með 20 kör af humri og eitthvað svipað af fiski. Krissan kom líka en rólegt á krabbanum núna.
tilvitnun í Óla Tynes um síðastliðið sumar, sem var mjög erfitt að hans mati:
,, og hvað gerist þegar það er sól og hiti alla daga? Stelpurnar fara í þrengstu og flegnustu boli og blússur sem þær eiga, og þær eru nú svoleiðis þessar elskur að það er hægt að leggja á borð fyrir tvo á brjóstunum á þeim. Svo eru þær í stuttpilsum sem ná upp í nára og eru sveiflandi löngu leggjunum í allar áttir-og svo verða þær móðgaðar ef maður horfir ekki í augun á þeim[...] þetta var strembið sumar''
Já erfitt var það sumarið.
Bloggar | 5.11.2010 | 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar