Færsluflokkur: Bloggar
Moren.
Nú er kalt á Fróni og í Vestmannaeyjum líka. Tveggja stiga frost var í morgun og NV rok. Vestmannaey og Bergey komu í morgun og lönduðu um 25 tonnum hvor. Dala Rafn var með svipað í gær. Perlan er í Þorlákshöfn og fer aftur á stjá þegar ölduhæð í Landeyjahöfn verður skapleg. Þeir eiga eftir tæpan sólarhring í dýpkun, þá verður höfnin klár. Spái því að siglt verði í Landeyjahöfn eftir helgi.
Annars er allt í góðu þó hrollur sé í sumum.
Bloggar | 3.11.2010 | 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er dælurörið af Perlunni komið á land í Landeyjahöfn. Á föstudaginn kl 1600 fórum við á Lóðsinn í Bakka með tuðru með okkur og reyndum að slæða og festa í rörið. Það gekk ekki eftir. Nú voru kafarar sendir niður, Smári súpermann og félagi hans frá Grindavík. Sett voru tvö ból og tóg á milli þeirra á botninum og þeir þræddu sig eftir því og leituðu. Ekkert skyggni er þarna niðri, sjórinn mjög gruggugur. Þannig var leitað með því að færa baujurnar til og frá en ekkert fannst. Um kl átta um kvöldið gáfumst við upp og héldum heim á leið. Perlan fékk það verkefni að dæla meira úr botninum þar sem rörið átti að vera og við ætluðum að mæta í bítið í gær og halda leit áfram.
Í gærmorgun var ekki vinnandi á tuðru við höfnina vegna sogs, en Perlan var búin að finna rörið og náði að dæla frá því og lyfti því meira að segja upp en missti það aftur niður. Um hádegi var komið fínasta veður og héldum við á Lóðsinum í Bakkafjöru. Og mikið lá við. Smári súpermann sagði við brottför frá Eyjum að hann skyldi hundur heita ef við næðum ekki rörinu í dag og skyldi hann því til vottunar ganga allber frá borði þegar við kæmum til baka. Þegar við komum að Landeyjahöfn var Perla akkúrat yfir staðnum þar sem hann missti rörið um morguninn og við létum ból falla og náðum í kafarann grindvíska á bryggjuna. Gerðum tuðruna klára, tókum kafarana um borð og héldum að bólinu. Þeir hentu sér útí og nokkrum mínútum seinna komu þeir upp og sögðu okkur að rörið væri fundið. Belgur var bundinn við það og þá fóru þeir niður með 16 mm keðju og settu utanum rörið og komu um borð í tuðruna. Síðan kom Lóðsinn og við fengum vírinn frá honum og tengdum í keðjuna, komum okkur frá og Lóðsinn hífði varlega og þegar´fór að taka vel í slitnaði 16 mm keðjan eins og spotti,
Jæja, nú fengum við 18 mm keðju og kafarnir fóru með hana niður og settu utanum rörið og svo tengdum aftur í Lóðsinn. Dýpið þarna er um 9 metrar. Svenni Valgeirs skipstjóri slakaði aðeins út og hífði svo Lóðsinn á niðurstöðu með samankúplað og allt sat fast. Aftur reynt að slaka og hífa til baka og þá kom endinn á rörinu uppúr og við sáum við að rörið var laust, það dinglaði aftan í okkur. Nú var gefið í og við héldum að allt væri laust, en því var nú ekki að heilsa. Þegar fór að taka í sat allt fast og gátum við okkur til að rörið væri brotið og hinn endinn sæti fastur í botninum. 16 mm keðja er eftir rörinu endilöngu og hún hélt greinilega. Var nú togað og teygt á dótinu en ekkert haggaðist. Sett á hálfa ferð og þá er togkrafturinn um 15 tonn. Þorðum ekki að nota meiri kraft útaf keðjunni sem tengdi bútana tvo. Togað í allar áttir en enginn árangur. Nú fengum við Perluna til að koma og dæla frá endanum eins og hún gat. Þetta tók tímann sinn. Í annari tilraun Perlunnar að sjúga frá rörinu, og Lóðsinn alltaf undir átaki losnaði draslið. Þá var klukkan orðin sjö og Lóðsinn hafði hangið í dótinu í fimm tíma. Nú var rörið dregið inn að bryggju þar sem öflugur kranabíll beið og hífði það á land. Aðgerðum var nú lokið og allir héldu ánægðir heim og ekki síst Súpermann sjálfur. Hann gekk alklæddur frá borði þegar við komum heim. Lýkur nú sögu af rörinu dýra.
Bloggar | 31.10.2010 | 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stal grein frá Guðmundi Gunnarssyni.
Andrés Önd næsti forstjóri DR
Hér í Danmörk ganga hlutirnir fyrir öðru vísi en heima á Fróni, umræðan hér er um það bil 39 þrepum ofar en heima og málefnaleg. Forstjóri DR verður uppvís að því að vilja ritstýra bók um sjálfan sig. Höfundur og útgefandi láta ekki bjóða sér það og halda sínu striki. Útvarpsstjórinn er tekinn í gegn í fjölmiðlum og hjá almenning og það er ekki liðinn sólarhringurinn þar til hann hefur sagt af sér. Hér er rætt um að Andrés Önd hefði staðið sig betur og hann hvattur til þess að taka við starfinu.
Heima liggur fyrir að stjórn Seðlabanka og þáverandi ríkisstjórn létu hjá líða að gera almenning grein fyrir að það stefndi óhjákvæmilega í þrot bankakerfis og hrun gjaldmiðils. Stjórnvöld hvöttu almenning til dáða um að dansinn væri stiginn enn hraðar og heimilinn skuldsettu sig upp fyrir rjáfur á gengi krónu sem fyrir lá í gögnum stjórnvalda að myndi láta undan síga. Hér voru stjórnmálamenn blindaðir í kosningabaráttu. Hagsmunir almennings skiptu engu, sætin og völdin voru þar í forsæti. Fyrrv. forsætisráðherra í opnuviðtali í norrænum fjölðmiðlum sem gert er stólpagrín að og talið vera enn ein staðfesting hversu fjarstæðukennd íslensk stjórnmál eru, og var nú fjarri því á það bætandi í umræðunni um stöðuna á Íslandi hér á hinum norðurlandanna.
Á Íslandi komast menn upp með að snúa málum á haus og því stillt upp sem persónulegri aðför að fyrrverandi ráðherrum, sé farið fram á þeir beri ábyrgð á gjörðum sínum. Það skipti engu þó Seðlabankastjóri og stjórnarmenn hans haf keyrt bankann í þrot og það hafi valdið gjaldþroti 24 þús. heimila og þúsunda fyrirtækja. Fullkomnu kerfis- og gjaldmiðilshruni. Gerendum tekst leikandi létt að snúa umræðunni upp í farsa átakastjórnmála með aðdróttunum út og suður og enginn fjölmiðlamaður standur í fæturna.Helst er að skilja á fjölmiðlamönnum og spjallþáttastjórnenda heima á Íslandi, að Hrunið hafi verið í sérstöku boði starfsfólks stéttarfélaganna.
Bloggar | 28.10.2010 | 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Moren.
Nú er suð-austan 25 á Höfðanum og ekkert ferðaveður til lands og sjávar. Var á ársfundi ASÍ fyrir helgi og tók þar þátt í fjörugu þingi. Villi Birgis frá Akranesi var við sitt heygarðshorn. Ef blessaður kallinn verður undir í einhverju máli verður hann alveg galinn og þá verður hann naut í flagi. Brigslaði Guðmundi Gunnarssyni um að kalla sig lýðskrumara. Ég heyrði ræðu Guðmundar og ekki gat ég heyrt að minnst væri á Villa í þeirri tölu. Guðmundur varaði við lýðskrumurum sem alltaf bjóða best hverfa svo á þegar standa á við stóru orðin. Lagði út af viðtali á RUV við Pál Skúlason, einn virtasta siðfræðing landsins. Villi tók þetta til sín og reyndar fleiri. Oft kannast menn við eigin bresti þegar minnst er á. Mikill meirihluti fundarmanna vildi ekki að almennu lífeyrissjóðirnir yrðu notaðir til að niðurgreiða skuldir annara.
Smá dæmi: Ef lífeyrissjóðirnir, þá þeir almennu, ekki ríkisstyrktu sjóðirnir enda eru þeir aldrei í umræðunni, tækju þátt í niðurgreiðslu skulda heimilanna, þyrfti að skerða beint þá sem nú fá greitt úr sjóðunum og væntanlega þá sem fá úr þeim næstu 15-20 árin. Segjum 10% skerðing.
Það þýðir að sá sem fær núna kr. 200.000 á mánuði úr sínum lífeyrissjóð fengi eftir skerðingu kr. 180.000. Það þýðir á mannamáli að á tíu árum fengi viðkomandi einstaklingur 2,4 milljónum minna en ella ef engin skerðing hefði komið til. Þetta er óásættanlegt, að skerða þá sem nú fá greitt úr sjóðunum og um alla framtíð til að greiða niður skuldir tiltölulegra fárra. Þeir sem nú fá greitt úr sjóðunum og hafa byggt upp sín réttindi um árabil, eru klárlega ekki þeir sem myndu njóta niðurgreiddra lána. Samt skal þeim gert að borga með skerðingu á sínum lífeyri. Svei og aftur svei.
Fréttir. Vídalín landaði í morgun 70 tonnum og Brynjólfur með 65 kör af humri. Drangavík með fullfermi, 70 tonn, mest karfa. Vestmannaey með 75 tonn, mest litla karfa sem fór í heilfrystingu hjá Goodthab. Svo komu Smáey og Bergey undir hádegi í löndun. Ekki náðist dælurörið góða af Perlunni upp í gær, enda komin of mikil hreyfing til að hægt væri að athafna sig með góðu móti. Gera á aðra tilraun á miðvikudag.
Bloggar | 25.10.2010 | 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Góð samantekt hjá Jónasi Ragnarssyni á siglfirdingur.is
http://siglfirdingur.is/v.asp?page=251&Article_ID=282
Bloggar | 19.10.2010 | 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú ríkir grafarþögn í Vestmannaeyjum, enda Perlan farin til greftrar í Bakkafjöruna. Vel gengur að sjúga upp úr innsiglingunni en mikið af sandi tefur dælinguna. Vestmannaeyingar eru afar hamingjusamir að fá að borga dælinguna. Enda menn loðnir um lófana þar í bæ.
Svona gæti pistill í einhverjum fjölmiðlanna hljómað nú um stundir. Sumir nærast á því að hræra í skítnum og þá helst í sínum eigin. En það verða menn að eiga við sig sjálfir.
Nú verða sagðar fréttir. Gullberg með 200 kör eða rúm 60 tonn og Suðurey með svipað. Drangavík landaði í gær rúmum 50 tonnum en eins og allir vita eru peyjarnir á Drangavíkinni komnir á fiskitroll. Gandí er væntanlegur á morgun með fullfermi, held ég. Svo er Green Bodö að lesta frosið, 1700 tonn, síld, makríl og loðnuhrogn. Frár kom bilaður í gær, en fer út þegar Tryggvi beikon og Viggi gúmm eru búnir að gera við. Ekki vandamálið, maður lifandi.
Bloggar | 19.10.2010 | 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góða kvöldið.
Var að koma af fundi framkvæmdastjórnar Sjómannasambandsins. Þar stilltum við saman strengi fyrir komandi kjarasamningsviðræður við LÍÚ. Margt kom til tals við undirbúning kröfugerðar en við eigum eftir að slípa þetta til eða massa þetta bara eins og þeir segja í Spaugstofunni. Þegar það er klárt verða kröfurnar birtar.
Jón bóndi kastaði einni sprengjunni enn í gær, þegar hann spjallaði við smábátakallana á ársfundi þeirra. Lofar að beita sér fyrir aukningu í nær öllum botnfisktegundum og í síldinni líka. Undir þeim formerkjum að bjarga sjúkrahúsunum á landsbyggðinni. Hann ætlar að leigja þessa viðbót til þeirra sem hafa veiðileyfi og við þær fréttir kættust sumir mjög sem hafa selt frá sér lífsbjörgina, þ.e. kvótann. Nú er hægt að byrja upp á nýtt á nýrri kennitölu. Ef bætt verður við í þorskinum þá verð ég ánægður en framkvæmdina við úthlutunina er ég óánægður með. Svo er kallinn að fara fram úr Hafró og verður að láta þá hækka veiðistuðulinn frá því sem nú er. Þá þarf nú að snúa vel uppá hendurnar á Jóa Sig.
Ætlaði að fljúga heim til Eyja í dag og fórum í loftið en þegar fimm mínútur voru eftir þá var snúið til baka vegna þoku í Eyjum. Þannig að það er Herjólfur í fyrramálið.
Bloggar | 15.10.2010 | 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú er ekki mikið líf við höfnina en þó er verið að lesta frosnar afurðir og Gullberg og Suðurey í löndun. Suðurey með rúm 60 tonn af blandi í poka og Gullberg með eitthvað svipað.Drangavík er farin á fiskitroll og hýrnar þá yfir sumum. Svo er Perlan alltaf með fullfermi af sandi en hún byrjaði að dæla í Landeyjahöfn í morgun. Vonandi getum við farið að njóta okkar samgöngubóta von bráðar. Svo ætlar ríkið að rukka okkur fyrir dælinguna á sandinum. Réttlæti okkur til handa er það eina sem við biðjum um herra samgönguráðherra og borðaklippari, segi ekki meira. Og þó, ef þarf að moka snjó í Ártúnsbrekkunni í vetur, krefjumst við þess að borgarbörnin borgi það beint. Með heimsendum reikningi, stimpluðum í bak og fyrir frá borðaklippi sjálfum. En svona er okkur att saman, Íslendingum, í stað þess að vinna saman og gleðjast saman yfir góðum árangri.
Veðrið er þokkalegt en dimmt yfir og 12 stiga hiti. Á sama tíma í fyrra var Hellisheiðin ófær vegna hvassviðris og skafrennings. Ja svona er lífið, fullt af óvæntum uppákomum.
Bloggar | 12.10.2010 | 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Moren.
Nú dynja á okkur niðurskurðartillögur ríkisstjórnar sem kennir sig við norræna velferð. Norræn velferð ,my ass.þessar tillögur bera með sér algeran skort á innsæi og eru í raun móðgun við harðduglegt fólk sem gerir allt sem í þess valdi er, til að hífa landið okkar uppúr öldudalnum. Hér í Vestmannaeyjum myljum við inn gjaldeyri í varasjóðinn hans Steingríms sem aldrei fyrr. Samt sem áður skal refsa oss með öllum ráðum. En mig grunar að þessar tillögur eigi eftir að breytast og það nokkuð mikið. Þetta segi ég vegna þess að ríkisstjórnin hefur áður sett fram rosalegar tölur um niðurskurð og dregið svo í land. Sem sagt, þetta er taktík sem leikin er til þess að sætta okkur við þann niðurskurð sem síðan verður að veruleika.
Væri nú ekki farsælla fyrir hina ,,norrænu velferðarstjórn'' að byrja á réttum enda í niðurskurðinum. Eigum við að nefna utanríkisþjónustuna, listamannalaun, ofurlaun fjármálasnillinganna í skilanefndunum og bönkunum og áfram má lengi telja áður en farið er að krukka í heilbrigðis- og skólakerfið. Kommon gera þetta rétt.
Annars er það að frétta að Bergeylandaði í gær 45 tonnum. Vestmannaey landaði í morgun einnig 45 tonnum, Vídalín og Brynjólfur voru líka í morgun. Brynki var með 40 kör af heilum humri og rúm 30 tonn af fiski, veit ekki með Vídóinn.
Bloggar | 7.10.2010 | 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Moren.
Jæja nú er stund milli stríða í veðrinu. Sól og blíða þar til í kvöld þá æsir hann sig upp aftur. Smáey er biluð, eitthvað vélardæmi en kemst líklega á veiðar í kvöld. Gandí og Huginn lönduðu báðir fullfermi fyrir helgi. Krissan og Drangavík eru að landa á krabbanum, veit ekki hve miklu. En undanfarið hefur verið mikill fiskur hjá þeim. Brynjólfur landaði t.d. á föstudag 150 körum og af því voru 100 kör fiskur eða rúm 30 tonn. Svo 50 kör af heilum humri.
Stjórnarfundur var hjá okkur á föstudaginn. Þar var farið vítt yfir völlinn og áhersluatriði okkar í komandi kjarasamningum sett fram. Þau verða sett á síðuna von bráðar. En þó má segja að menn hafi verið hvað heitastir út í afnám sjómannaafsláttarins. Það er komin vinna í gang með það dæmi allt saman. Einnig eru menn óhressir með nýsmíðaálagið, sem og fiskverðið í uppsjávarfiskinum. Voða fínt að vera með frelsi til að selja afurðirnar hvert sem er og hvernig sem er, en þegar kemur að ákvörðun um verð uppúr skipi er komið annað hljóð í strokkinn.
Sjómenn, sendið mér póst á netfangið jotunn@simnet.is með ykkar áherslum.
En enga svartsýni, okkur samningsaðilum ber skylda til að semja og vonandi ber okkur gæfa til þess án mikilla átaka. En eins og skátarnir segja, ávallt viðbúnir.
Bloggar | 4.10.2010 | 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 36228
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar