Færsluflokkur: Bloggar
Moren.
Nú líður að vikulokum og vikan hefur verið samfelld bræla og verður svo áfram. Frár landaði í morgun 35 tonnum og Dala Rafn líka með 65 tonn. Svo komu Smáey og Bergey um hádegi. Smáey með 40 tonn og Bergey með 65 tonn. Vídalín var einnig í landi og Drangavík sem er ennþá á krabbanum. Vestmannaey er kominn á veiðar aftur eftir hremmingar. Það tærðist olíurör undir lestargólfinu og kom olíufnykur í lestina. Leiðinda vandræði. Glófaxi er að fiska vel á skötuselnum, er kominn með 70 tonn í mánuðinum.
Helvítis vesen með Landeyjahöfn og Herjólf. En verum þolinmóð og það vinnur allar þrautir.
Eins og ég sagði í gær eru góðar fréttir af aflaverðmæti flotans fyrstu 8 mánuði ársins. Það gefur vonir um að komandi samningaviðræður verði ekki stál í stál heldur beri mönnum gæfa til að setjast yfir vandamálin og leysa þau og það hlýtur að verða auðveldara fyrir báða aðila að ná saman í ,,góðærinu''.
Bloggar | 30.9.2010 | 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Moren.
Ánægjulegar fréttir af útveginum. Aflaverðmæti fyrstu sex mánuði ársins jókst um 24,7%. Verður varla nokkurt mál að semja við LÍÚ um kjarabætur til handa sjómönnum!!!
Bloggar | 29.9.2010 | 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú skal bloggleti lokið. Kominn endurnærður úr krataríkinu Svíþjóð. Maður jafnast einhvern veginn allur til eftir dvöl hjá krötunum. Ekki skemmdi fyrir að alþingiskosningar voru þar. Ekki sér maður stóran mun á hægri og vinstri þar í landi. Jafnaðarmennskan allsráðandi og gemgur bara vel hjá þeim. Þess má geta að stýrivextir í Svíjaríki eru nú 0,5%. En nóg um það.
Fiskiríið er búið að vera sæmilegt. Risjótt tíð hefur hamlað veiðum að nokkru leiti. Í síðustu Fiskifréttum fer Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS mikinn. Í grein sinni kallar hann afstöðu SSÍ til kjara smábátasjómanna undarlega. Hann fulyrðir að þeir meðreiðarsveinar, hann og Túri Boga hafi riðið um héruð og mælt með samningi sem kominn var á og borinn undir félagsmenn LS. Mínar heimildir segja annað. Þeir félagar hafi rakkað samninginn í skítinn þrátt fyrir að hafa sett stafina sína á hann og hvatt sína menn til að fella hann. Svo lýsir Örn furðu sinni á að SSÍ svari honum ekki.
SSÍ svaraði Erni og félögum og í svarinu kemur allt fram sem koma þarf fram. SSÍ lítur svo á að samningurinn við LÍÚ sé jafngildi lágmarkskjara hjá smábátasjómönnum. Punktur og basta Örn. Og á þeim forsendum vinnur SSÍ úr umkvörtunum smábátasjómanna ef þær berast þar inn á borð.
Meðan menn rakka niður eigin gerðir og hvetja til þess að þær séu ómerkar gerðar er ósköp lítið að marka þá sömu menn.
Það skildi þó ekki vera að LS vilji ekki gera kjarasamning fyrir félagsmenn sína? Af hverju svo er verða þeir félagar Örn og Túri Boga að svara.
Bloggar | 27.9.2010 | 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú ætlar kallinn og spúsa hans í skreppitúr til Svíaríkis. Kannski maður kíki á dýpkunarpramma þar og komi með einn heim. Annars er það að frétta að nú vantar dýpkunarskip í Landeyjahöfn til að moka skít úr hafnarmynninu. Það kemur allt saman með tíð og tíma. Á meðan siglum við til vina vorra í Þorlákshöfn og enga svartsýni og svartagallsraus.
Vídalín landaði í morgun 60 tonnum af blönduðum afla og Suðurey landaði einnig góðum 60 tonnum helmingurinn þorskur úr Hallinu. Prince Albert II kom inn í morgun með 115 farþega og þetta skip er af dýrari gerðinni. Siglir um norðurhöf á sumrin og fer síðan í suðurhöf og þá til Suðurskautslandsins þegar sumarið er þar.
Kannski kemur blogg frá mér í Svíþjóð ef eitthvað verður að frétta þar.
Bloggar | 8.9.2010 | 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Það er búið að vera bræla síðan á föstudag og ekkert lát á veðrinu. Austan og S- austan þræsingur alltaf hreint. Herjólfur kemst ekki í Bakkafjöru sökum þess að ekki er nægt dýpi í og við Landeyjahöfn. Lóðsinn er að kanna aðstæður og hvort hægt verður yfir höfuð að sigla. Ösku ógeðið úr Markarfljótinu virðist vera að stífla Landeyjahöfn.
Annars er það að frétta að Vestmannaey og Bergey lönduðu í morgun tæpum 85 tonnum hvor af ufsa. Svo er stöðugt rennirí af skipum að lesta afurðir úr Verstöðinni.
Þrándur í Götu og Fagraberg lönduðu um helgina í Ísfélagið um 2600 tonnum af makríl og þeir fá um 80 kr/kg, sem er helvíti gott verð. Íslensku skipin fá um helmingi minna. Sumir verða nú að girða sig í brók og bretta upp ermar. Þetta er alltof mikill munur og krefst skýringar af hálfu útgerðarmanna. Frændur vorir Færeyingar eru ekkert að liggja á upplýsingum um verðið sem þeir fá hér og birta það á heimasíðum skipa sinna.
Bloggar | 6.9.2010 | 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er fyrsta brælan skollin á. Herjólfur komst fyrstu ferðina í morgun en svo er bið eftir að veðrið gangi niður. Fellið liggur við Eiðið og bíður færis að komast inn. Engin löndun í dag nema Brynjólfur á krabbanum og hann verður í helgarfríi. Svo er Þrándur í Götu að koma með 1600 tonn af makríl til Ísfélagsins. Eitthvað fer í frystingu.
Gaman að lesa Fréttir í gær. Mikill uppgangur í Eyjum, í fiskvinnslunni og jaðargreinum hennar og í túristabransanum. Þó er skarð fyrir skildi að kvótinn hefur minnkað milli ára en við spilum úr því með okkar ráðum eins og alltaf er gert. Með tilkomu Landeyjahafnar hefur ferðamönnum fjölgað til mikilla muna.
Sáttanefnd í sjávarútvegi skilaði af sér í gær og virðist mér að samkomulag sé í höfn um að fara svokallaða samningsleið. Við getum allt eins kallað hana veiðiskylduleið með nýtingarrétti til 15-20 ára. En meira um það síðar.
Bloggar | 3.9.2010 | 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú er komin lykt af haustinu. Austan gola, þoka og rigning. Hitinn er þokkalegur um 12 gráður. Skemmtiferðaskip með 250 farþega kom í morgun og liggur við akkeri fyrir Eiðinu. Fagraberg frá Færeyjum er að landa 1800 tonnum hjá Ísfélaginu og fer megnið til vinnslu og þar eru staðnar vaktir. Júpiter landaði í gær.
Bergey kom með Smáey í togi í morgun. Eitthvað brotið í vélinni hjá Smáey. Bergey landaði 50 tonnum og Smáey 40 tonnum. Suðurey landaði 50 tonnum af blandi í poka. Brynjólfur var líka í löndun í morgun. Dala Rafn með 50 tonn af makríl og Bergey og Vestmannaey, líklega, að gera sig klár á makrílinn. Deadline er 10 sept til að ná úthlutun Jóns bónda í makrílnum. Heyrst hefur að þeir fái grunnslóðar leyfi til að athuga með makríl.
Það er aldeilis búið að vera mikið af fólki í Eyjum í ágúst. Maður hélt að þetta yrði bara rólegt eftir þjóðhátíð, en ekki er þverfótað fyrir allra þjóða kvikindum í bænum. Herjólfur hefur flutt um 70 þúsund manns frá opnun Landeyjahafnar. Allt árið í fyrra flutti hann 127 þúsund manns. Ánægjuleg þróun sem vonandi verður framhald á.
Bloggar | 31.8.2010 | 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Sól og blíða í Verstöðinni. Smáey landaði í gær 45 tonnum af blandi og Vestmannaey með 70 tonn mest ufsi. Svo kom Brynjólfur í land í morgun með krabbadýr.
Jón Steinsson hagfræðingur hefur sett saman athygliverðar tillögur um auðlindina. Svokallaða (leigu) tilboðsleið. Sjá hér. http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Jon_Steinsson/af-hverju-er-liu-a-moti-tilbodsleidinni
Mjög vel sett fram og skiljanlegt miðað við að maðurinn er sprenglærður hagfræðingur.
Fór í starfsþjálfun í nótt hjá Adda Steina yfirhafnsögumanni. Tókum Selfoss inn í spegilsléttum sjó. Verð í afleysingum hjá Höfninni sem hafnsögumaður í framtíðinni ef maður stenst prófið.
Bloggar | 26.8.2010 | 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Lítið að frétta í Verstöðinni, enginn að landa nema að Færeyingur er að landa makríl um 1600 tonnum í FES. Eitthvað fer í frystingu.
Svo verður fróðlegt að sjá hvað frændur vorir fá fyrir makrílinn hjá Ísfélaginu. Færeyingarnir hafa fengið rúman fimmtíu kall fyrir makrílinn í bræðslu fyrir austan. Meðan við fáum 35 kall. Þetta er of mikill munur að mínu mati. Í lagi þó verðið sé 5-7 kr. hærra en ekki 15-20 krónum. Auðvitað kemur útgerðarkostnaðurinn inn í dæmið en ekki svona mikið. Það verður að breyta þessum verðlagsmálum í uppsjávarfiskinum til betri vegar. Allt upp á borðið er mín tillaga. Þ.e. að trúnaðarmenn félaganna fái allar upplýsingar um afurðaverð og semji um verð eftir því eða að það verði úrskurðað út frá því.
Nú eða aðskilja veiðar og vinnslu og fara í alvöru samkeppni um hráefnið. Það getur verið tvíbent en eru ekki allir að biðja um meira frelsi og samkeppni í viðskiptum. Því má ekki vera frelsi þegar kemur að því að selja fisk frá skipi til vinnslu???
Bloggar | 24.8.2010 | 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Ekki var nú hátt risið á ÍBV liðinu í gær eftir tap gegn Grindavík. Vantaði alla grimmd og spil í liðið og því fór sem fór. En öll lið lenda í svona lægð og nú er bara að hífa sig upp á rassgatinu og gera betur næst.
Gullberg og Vídalín eru að landa með fullfermi báðir mest ufsa. Drangavík og Krissan landa humri, eitthvað glæðast veiðin. Annars er lítið um fréttir en Gandí liggur bilaður á Reyðarfirði með tvær brotnar stimpilstangir. Jón bóndi jók við geymsluréttinn í ýsunni og humrinum í 15% og ekki veitir af. Margir eiga mikið af ýsu eftir og nokkuð er eftir af humarkvótanum.
Bloggar | 23.8.2010 | 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 36228
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar