Færsluflokkur: Bloggar
Moren.
Föstudagur í Verstöðinni. Bergey og Vestmannaey lönduðu í morgun rúmum 50 tonnum hvor. Annars er allt rólegt. Vaðandi makríll um allan sjó og kemur stundum inn í höfnina. Þórunn er enn í vesturvíking og landar á Grundó. Sem og Stígandi sem landar í borginni. Smáey er að fara á fiskitroll. Dala Rafn fer á makríl aftur á sunnudag. Og takið eftir, það vantar mannskap á flotann núna. Veit til þess að vanti á rauða herinn núna og í næsta túr. Áhugasamir geta haft samband við Berg-Huginn með upplýsingar. Veðrið er eins og best verur á kosið, sól með köflum og vel heitt.
Bloggar | 12.8.2011 | 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú er rólegt í Verstöðinni. Kap landaði í gær 300 tonnum af makríl og Sighvatur með eitthvað svipað í dag. Humarpungarnir eru á sjó í sæmilegu kroppi. Annars er allt rólegt. Frystiskip að lesta er eiginlega eina hreyfingin í höfninni núna. Skemmtiferðaskipið Athena sem eitt sinn hét Stockholm var hér í gær. Settum það á akkeri fyrir utan og fólkið ferjað í land. Veðrið var sérdeilis gott, sól og 17 stiga hiti. Síðasta ferð Athenu þetta árið. Nú fer hún í verkefni í Ástralíu í vetur. Ribsafari hefur nóg að gera, 4-5 ferðir á dag með túrista.
Bloggar | 11.8.2011 | 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er lífið farið í gang eftir Þjóðhátíð. Menn eru farnir að sjást útivið, sæmilega brattir. En sjómennirnir liggja ekki í eymd og volæði eins og sumir. Uppsjávarflotinn fór á sjó á mánudaginn. Ísfélagsskipin eru á makríl fyrir austan og Kap og Sighvatur eru á síld fyrir austan land. Rauði herinn fór líka á mánudag eins og Þórunn Sveins. þeir eru fyrir vestan í sæmilegu ýsukroppi. Lönduðu á miðvikudag á Grundó. Bergey og Vestmannaey með sín hvor 45 tonnin og Þórunn með 70 tonn. Smáey er á makríl og landaði hér í gær rúmum 20 tonnum í Nöfina. Humarbátarnir fara á sjó í dag. Held að Kap og Sighvatur séu að koma með síld í bræðslu á morgun, fara svo á makríl. Makríllinn er víða. Togararnir eru í Kolluálnum og uppsjávarskipin fyrir austan.
En að lokum eins og góður maður sagði eitt sinn, þegar farið var á sjó snemma á mánudegi eftir Þjóðhátíð; ,,ekkert er betra en að fá 10 tonna smáýsu hal á mánudegi eftir Þjóðhátíð." Þetta hefur eitthvað með svita að gera held ég.
Bloggar | 5.8.2011 | 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er að skella á Þjóðhátíð. Tvö skemmtiferðaskip á morgun, eitt á sunnudag og tvö á þriðjudag. Bærinn er að fyllast af þjóðhátíðargestum og Herjólfur gubbar úr sér fólkinu. Flug gengur vel og allt á fullum svíng. Þórunn landaði í morgun 105 tonnum, landaði síðasta sunnudag á Grundarfirði 110 tonnum. Rífandi gangur hjá Gumma Lalla og félögum. Stígandi var líka í morgun, með 50 tonn. Huginn verður í kvöld með allt fullt. Handboltapeyjarnir vippa úr honum í fyrramálið, aðeins að taka úr þeim hrollinn fyrir helgina. Svo fer Huginn á sjó á sunnudaginn!!!!
Gleðilega og slysalausa Þjóðhátíð.
Bloggar | 28.7.2011 | 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Verstöðin ber þess merki að nú styttist í þjóðhátíð. Nánast allur flotinn í höfn og þröngt á þingi. Huginn er að frysta síðustu pöddurnar útaf Eiðinu. Júppinn kom í gær með 450 tonn af makríl. Þorsteinn er farinn á síld sem og Álsey og Gvendur. Þórunn kemur í fyrramálið og þá eru nú flestir mættir og ætla eflaust margir að skreppa í dalinn.
Stöðvarnar stoppa yfir Þjóðhátíðina og liðið fær smá frí.
Skemmtiferðaskipið Athena sem er 157 m langt kom hér í morgun en sökum þess hve hvasst er þá var ekki hægt að taka það inn. Nú vantar aðstöðu við Eiðið fyrir svona stór skip. Þess má geta að Athena er gamla Stockholm byggt 1948 og er allt hið glæsilegasta.
Bloggar | 27.7.2011 | 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Erum í Húsafelli í góðu yfirlæti með krökkunum okkar, tengdabörnum og afastelpunni Unu Björgu. Hér er gott að vera. Sagan við hvert fótmál. Snillingurinn Páll á Húsafelli er flottur. Listaverkin hans eru hér allsstaðar. Margir hafa heimsótt okkur, Mamma og Gutti, sem Guttavísur eru ortar um, Sigga systir og ömmubörnin hennar. Í kvöld verður humarveisla þó við séum nú ekki alveg við sjóinn líklega 60 km niður að sjó. En maður á góða að þegar að fiskinum kemur. Hér er þó nokkuð um fisk því hérna er seiðaeldi sem Jónsi Gutta veitir forstöðu. Óttar Gull er í bústað hérna líka svo það er nægt sjóaraspjall hjá okkur á morgnana þegar kíkt er í kaffisopa og spjall.
Bloggar | 19.7.2011 | 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Þórunn kom í morgun með bilað spil og 75 tonn af fiski. Frár landaði í gær 55 tonnum mest ýsu af Höfðanum og Víkinni. Smáey var í morgun með um 60 tonn af bolfiski. Álsey og Júppi eru undir hjá FES. Sighvatur undir í Gúanóinu með 300 tonn af makríl. Vídalín landaði í gær fullfermi 100 tonnum. Huginn var í gær með fullfermi af frosnu og eitthvað í bræðslu. Guðmundur verður í kvöld með 550 tonn af frosnum makríl. Svo eru hér þrjú flutningaskip. Tvö taka frosið og eitt lýsisskip.
Bloggar | 14.7.2011 | 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú er sumarstemming í Vestmannaeyjum. Sól og 16 stiga hiti. Túristar allsstaðar og sæmilegt fiskirí hjá Eyjaflotanum. Þórunn kom inn með bilað spil í gær með 45 tonn mest ýsu. Norskir spsialistar komu og gerðu við spilið og Þórunn fór á sjó undir miðnótt. Suðurey landaði 40 tonnum af makríl í gær. Gullberg kom í gærkvöld með góðan afla. Kap var í gær með á fjórða hundrað tonn af síldarblönduðum makríl. Svo er Sighvatur undir núna með 300 tonn. Júpiter kom frá Grindavík í gær. Búið að gera við vélina en þá bilaði kælikerfið. Komast á sjó á morgun líklega.
Makrílverðið er mjög furðulegt núna. frá 50 kallinum uppí 120 kall. Litlu sérhæfðu vinnslurnar greiða hærra verð sem er eðlilegt en þeir stóru eru að vinnaá mjög mismunandi verðum. Mismunurinn er allt of mikill og það verður að koma skikki á þessi verðmyndunarmál. Færa þennan bitra kaleik frá sjómönnunum til stéttarfélaga sjómanna og leyfa okkur að pönkast í þessum málum. Nú er það svo að útgerðarmenn og sjómenn eiga að semja sín á milli um verð á uppsjávarfiskinum. Staðreyndin er sú að yfirleitt kemur tilkynning frá útgerðinni um verð og ef sjómennirnir eru ekki sáttir geta þeir farið eitthvað annað. Tek fram að þetta er ekki svona hjá öllum útgerðum. Sumir útgerðarmenn hafa gert samninga við sína sjómenn um prósentu af afurðaverði, sem er til fyrirmyndar.
En heildarlausn verður að finna í þessum málum svo við getum hætt þessum hanaslag.
Bloggar | 11.7.2011 | 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Moren.
Jæja nú er komið nóg af leti. Við hjónin vorum á Sigló um síðustu helgi, á árgangsmóti hjá eðalárgangi 1961. Og veðrið maður sól og blíða og 20 stiga hiti. Mikið gaman að hitta gömlu skólafélagana. Vorum á Hóli á laugardagskvöldið í mat og svo var diskó á eftir eins og í þá gömlu góðu. Og hvílíkt stuð maður. Lognið var svo mikið að maður þurfti að hlaupa um til að ná andanum. Takk fyrir frábæran tíma bekkjarfélagar.
En að fiskiríinu. Þórunn og Vídalín lönduðu í fyrradag fullfermi. Frár landaði í gær 60 tonnum mest ufsa sem fékkst á Péturseynni. Þar veltir ufsinn sér í síldinni sem er aðeins farin að verpa. Þá kemur kannski ýsupíkan. Vestmannaey og Stígandi eru að landa og báðir með fullfermi. Sighvatur með 300 tonn makríl í gær og Kap með eitthvað svipað í dag. Þorsteinn er undir í Fesinu. Júpiter var bilaður í Grindavík en er farinn að stað aftur. Tobbi stýrimaður gekk á nafna sinn og sagðist hafa farið á Þorbjörn. Agnes konan hans sagðist oft hafa farið á Þorbjörn. Smáey er að fara á makríl þar sem Bergey er að fara í slipp. Beddi og Hrafn fóru á sjó í gær á litla Glófaxa og fara þá ekki í dag!!
Bloggar | 8.7.2011 | 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Allt gengur vel. Drangavík og Vídalín að landa hjá VSV. Auðvitað með fullfermi báðir. Sighvatur er undir með 300 tonn af makríl. Þórunn Sveins er að landa 110 tonnum. Rauði herinn landaði í fyrrinótt 60 tonnum af makríl. Svo er bærinn nánast fullur af túrhestum sem skilja auðvitað eitthvað eftir sig líka. Ísfélagsskipin eru eins og jó jó inn og út með makríl og unnið á vöktum í öllum húsum. Guðmundur og Huginn eru nýbúnir að landa frosnum makríl og eru báðir úti.
Bloggar | 29.6.2011 | 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar