Færsluflokkur: Bloggar
Moren.
Jæja mánudagur til mæðu segir einhversstaðar. En flotinn var í landi á föstudaginn. Bergey með 70 tonn, þórunn með 80 tonn, mest karfa. Drangavík og Krissan með humar og fisk og helgarfrí. Svo fóru allir á sjávarútvegssýninguna. Ég líka. Flott sýning og mikið að sjá. Fór nú aðallega til að kíkja á veiðarfæradótið og þar er margt spennandi að ske. Hleraframleiðendur eru margir og ekki auðvelt að velja hverjir eru bestir. Trollin eru alltaf í þróun en minnst þó botntrollin.
En eitt tæki vakti þó mesta athygli mína. Það er hitamyndavélin. Nokkur fyrirtæki framleiða svona tæki og ég held að eftir nokkur ár verði þetta tæki skylda í flotanum. Við leit og björgun er svona myndavél ómetanleg. Einnig við erfiðar aðstæður á veiðum, t.d. á loðnunni með vetrarnótina í kolniðamyrkri. Frábært öryggistæki fyrir sjómenn.
Bloggar | 26.9.2011 | 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Suðurey kom í morgun með 75 tonn. Kap er að landa síld um 400 tonn held ég. Annars er rólegt á bryggjunni. Vídalín er mættur úr skveringu og fer á sjó í dag.
Ólína Þorvarðardóttir mætti hingað í gær til skrafs og ráðagerða. Byrjað var á að skoða Þórunni Sveins en hún kom inn til að skipta um hlera. Var búin að reyna við ufsa í flottrollið með misjöfnum árangri. Síðan heimsókn í Goodhaab í Nöf. Farið yfir útgerðarsögu Sigurjóns Óskarsonar og tölulegar upplýsingar frá honum. Í máli Sigurjóns kom fram að af upphaflegri aflahlutdeild, þeirri prósentu sem hann fékk úthlutað í þorski, sem úthlutað var 1984 eru 34 tonn eftir. Af um 500 tonnum.
Mest allur kvóti sem er á skipinu í dag er keyptur og skuldir vegna þessa um 1,2 milljarðar. Þetta er vegna stjórnvaldsaðgerða sem yfir okkur afa dunið á undanförnum 25 árum. Og enn skal höggvið í sama knérunn.
Ólína var með eitt á tæru, það er að stefna stjórnvalda er að breyta kerfinu hvað sem tautar og raular. Farið var víða í heimsóknir, í Pétursey, Dala-Rafn, stéttarfélögin og til bæjarstjórnar. Útvegsbændur buðu í hádegismat. Heimsókn í VSV og sýn Binna á tilvonandi skattheimtu á útgerðina og breytingar á kerfinu. Í hans máli kom fram að útgerðin þolir ekki meiri skattlagningu. Fjárfestingagetan færi í nánast ekki neitt og flotinn eltist enn meira en nú er. Meðalaldur flotans er nú rúm 20 ár.
Í gærkvöld var svo opinn fundur með Ólínu og Róberti Marshall. Þar kom greinilega fram að það er stefnt að breytingum á kerfinu en sýn þingmannanna okkar var aðeins önnur en t.d. VG. Það segir manni bara eitt, að ekki sé búið að ná samkomulagi um hvernig frumvarpið eigi að líta út. Stefnt er að því að leggja það fram fyrstu daga nýs þings í október. Ólína vill frjálsar handfæraveiðar utan kvótakerfisins. Göfug hugsjón en kallar það ekki á málaferli þeirra sem vinna í kvótabundnu kerfi?
Auðlindin er takmörkuð, það eru allir sammála um. Það verður tekið af einhverjum til að rétta öðrum. Fyrir mér er verið að færa vandamálið til en ekki leysa það. Atvinnusjómenn bera minna úr bítum, frístundasjómenn græða, kjarasamningslausir í þokkabót.
Ef t.d. þorskkvótinn er aukinn þá á aukningin að fara til annara en núverandi handhafa kvótans. En hvað skeður ef kvótinn er skorinn niður? Á þá að taka meira af þeim sem aukninguna fengu eða jafnt af öllum? Fullt af ósvöruðum spurningum.
Eitt var ég mjög ánægður með. Báðir þingmennirnir tóku undir það sjónarmið að hækka aflaregluna heilögu sem Hafró agiterar fyrir eins og enginn sé morgundagurinn. Úr 20% í jafnvel 25%. Ef það hefði verið gert fyrir tveimur árum væri Ísland betur á vegi statt en í dag. Fundurinn var ágætur og málefnalegur og ég er ekki í vafa um að þingmennirnir fóru héðan nokkurs vísari en áður.
Bloggar | 21.9.2011 | 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Vestmannaey landaði á miðvikudag 60 tonnum. Smáey var í gærkvöld með 50 tonn og Bergey landaði á Grundó í gær 70 tonnum. Gullberg var með góðan túr á þriðjudag um 90 tonn mest þorsk að vestan. Álsey er undir í FES með síld og Kap undir hjá VSV með síld. Frár fór á sjó í gær eftir slipp. Brynjólfur er að landa humri en hann hefur verið tregur undanfarið.
Ólína Þorvarðardóttir ætlar að heimsækja okkur Eyjamenn á þriðjudaginn. Þar munum við kynna henni hvað við erum að gera hér í sjávarútveginum og sýna henni hve miklu máli skiptir fyrir okkur að vel sé á málum haldið. Ekki bara breyta breytinganna vegna. Ég verð að hrósa Sigurjóni Aðalsteinssyni fyrir framtak sitt að fá þingmenn okkar til Eyja og þá sem eru í sjávarútvegsnefnd Alþingis. Frábært framtak. Einnig má Ólína fá hrós fyrir að þiggja boðið.
Bloggar | 16.9.2011 | 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú eru komnar staðfestar tölur um aflaverðmæti íslenskra skipa árið 2010. Vestmannaeyjar geta vel unað við sinn þátt í aflaverðmætinu. Lætur nærri að aflaverðmæti Eyjaflotans sé um 17 milljarðar króna í fyrra. Af þessari upphæð greiða sjómenn í Eyjum um einn og hálfan milljarð í tekjuskatt og útsvar. Glæsilegt og vel af sér vikið. Við erum stoltir af því að leggja vel til samfélagsins.
Þó má halda fram að aflaverðmætið væri meira ef verðlagsmálin á aflanum væru í betra lagi. Það er nefnilega þannig með fiskverðið að okkur finnst það ekki sambærilegt miðað við nágrannalönd okkar. Ef við værum að vinna á sambærilegum verðum og t.d. frændur vorir færeyingar yrði aflaverðmætið mun hærra. Enda landa þeir ekki hér fyrir það sem við fáum fyrir aflann. Þeir eru "yfirboðnir" svo þeir komi og landi.
En niðurlagið er þetta; ef íslenskir sjómenn fengju sambærilegt verð fyrir aflann og greitt er fyrir hann í nágrannalöndum okkar, myndum við greiða töluvert meira til samfélagsins en nú er.
Bloggar | 12.9.2011 | 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er fyrsti vísirinn að haustinu kominn. Norðan fýla og hitinn kominn í eins stafs tölu. Fallegt gluggaveður. Suðurey var að landa fullfermi 90 tonnum. Þorsteinn er undir í FES með makríl og síld. Smáey landaði í morgun um 60 tonnum. Eins Drangavík með humar. Ró færist yfirleitt yfir með haustinu en vonandi heldur áfram gott fiskirí á Eyjaflotanum.
Sumarið hefur verið okkur mjög gjöfult og sumir segja að við eigum ekki rétt á ölu þessu góðæri. Maður lifandi. Ég veit að allir vinna vel fyrir sínu, sjómenn, landverkafólk og aðrir sem að sjávarútveginum koma. Það má eiginlega segja að við eigum góða sérfræðinga í hverri stöðu, hvar sem á er litið. Og sú kunnátta er ekki sjálfsögð. Hún er til komin með mikilli vinnu og þrautseigju. Menn gáfust ekki upp á sínum tíma, þegar á móti blés, heldur migu í lófana og brettu upp ermar. Þá migu sumir í skóinn sinn. Það er ekki gott að búa við góðæri frekar en hallæri, sýnist manni.
Maður hefur heyrt að ef þið hafið það svona gott getið þið látið af ykkar sneið. Við þessu er eitt svar. Er ekki ráð að halda okkar sérfræðiþekkingu í útgerðinni og leyfa okkur að borga hærri skatta en flestir aðrir. Og leyfa okkur að gera það sem við gerum best. Heldur en að byggja upp frá grunni annars staðar. Með tilheyrandi kostnaði og samdrætti í samfélaginu hér. Það virðist vera að einhverskonar samyrkjubúskapur sé í pípunum hjá sumum. Sú leið er fullreynd með afleiðingum sem ekki þarf að kynna.
Bloggar | 8.9.2011 | 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú er hálfgerð bræla eða SA 15 m/s. Bergey og Vestmannaey eru að landa með góðan afla. Drangavík og Krissan landa humri. Þórunn landaði makríl í gær. Sighvatur og Kap líka. Þeir fara á síld næst ásamt hleranum sínum, Ísleifi. Bergey er biluð í Hafnarfirði. Glófaxi lagði fyrir skötusel í gær í Sláturhúsinu. Portlandið er byrjað á voðinni og landaði 25 tonnum í gær. Vídalín er að koma úr slipp og fer strax á veiðar. Frár er í skipalyftunni í skveringu. Stígandi landaði einnig í gær, sem og Suðurey.
Þannig að hjólin eru farin að snúast á full sving með nýju kvótaári. Óska öllum sjómönnum gleðilegs kvótaárs.
Bloggar | 1.9.2011 | 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Ágætis gæftir hafa verið undanfarið. Þórunn landaði 110 tonnum í gær. Vestmannaey með 70 tonn. Humarbátarnir hjá VSV voru allir með góðan afla í vikunni. Álsey landaði makríl hjá Ísfélaginu og voru vaktir þar í tvo daga. Vaktir hjá VSV í makrílnum og þar vantar fólk í vinnu. Dala Rafn er á makríl og landar í Þorlákshöfn. Þórunn er að fara á makríl.
Frumvarpið hjá Jóni bónda og co fær slæma útreið hjá nánast öllum umsagnaraðilum, eins og komið hefur fram í fréttum. Sjómannasambandið hefur skilað sinni umsögn og er hún mjög í anda þess sem aðrir hafa sent inn. Með þessu frumvarpi er verið að færa atvinnu frá atvinnusjómönnum til hobbýkarla. Sem leiðir aftur til þess að okkar menn mæla göturnar í lengri tíma en nú þó er. Sem þýðir að fleiri sjómenn fara á atvinnuleysisbætur, sem leiðir til enn frekari halla á ríkissjóði og koll af kolli.
Rök Ólínu og fleiri af hennar sauðahúsi eru þau að það eigi fleiri að koma að veiðunum og byggðirnar út um land eigi að fá meiri kvóta. En hvernig er staðan í raun? Potturinn stækkar ekki þó fleiri fái að veiða úr honum, algengur misskilningur sem maður heyrir hvað eftir annað.
Rómantík kemur oft við sögu hjá þeim sem styðja frumvarpið. Er það mikil rómantík ef 6000 tonn af bolfiski hverfa úr byggðarlagi eins og Vestmannaeyjum? Engin trygging að við fáum nokkuð til baka. Rómantíkin felst þá kannski í því að 40 - 50 fjölskyldur þurfa að flytja búferlum, tilneyddar af ríkisvaldinu. Tekjur sveitarfélagsins minnka að miklum mun. Afleidd störf tapast líka, og svo koll af kolli.
Með þessu frumvarpi er verið að búa til meiri vanda heldur en fyrir hendi er. Því vissulega er vandi í fiskveiðistjórnunarkerfinu, en hann verður ekki leystur með þessu frumvarpi, sem nota bene, var fullt af stafsetningarvillum þegar við fengum það í hendur. Það eitt sýnir kannski fljótaskriftina sem hefur einkennt þetta mál allt saman.
Bloggar | 25.8.2011 | 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er rólegt í Verstöðinni, og þó. Álsey kom í nótt með makríl og vaktir eru komnar á hjá Ísfélaginu. Sighvatur er að landa 550 tonnum af makríl og vaktir hjá VSV.
Verðið sem sjómennirnir fá fyrir makrílinn er mjög mismunandi. Frá kr. 40 og uppí 110 kr. Þessi mismunur er alltof mikill og einhvern veginn verður að ná utan um verðlagsmálin á uppsjávarfiskinum. Frændur vorir færeyingar eru búnir að leigja frá sér 20.000 tonna makrílkvóta og er meðalverðið á kílóið kr. 80. Einhverjir eru semsagt að græða á því að selja makríl afurðir. Ef hægt er að borga 80 kall í leigu og eiga eftir að veiða kvótann þá er einhversstaðar pottur brotinn hjá oss íslendingum. Það hefur verið fullyrt í mín eyru að sölukerfið á afurðum á Íslandi sé tvöfalt. Þ.e. að fyrirtækin eigi sjálf sölufyrirtæki sem kaupi af þeim afurðirnar á lágu verði og selji svo dýrara áfram. Þessi orðrómur verður sífellt háværari. Ef þetta er svona er það fullkomlega ólöglegt og til skammar að hlunnfara sjómenn með þessum hætti. Ég undirstrika að engar beinar sannanir eru fyrir hendi um að þetta sé svona, en menn grunar að svona sé í pottinn búið.
Það eru ekki einungis sjómenn sem blæða, ef þetta er með þessum hætti, heldur allt samfélagið. Minna útsvar, minni skattar, minni gjaldeyrir sem kemur inn í landið. Sjómannassamtökin eru að skoða þessi mál, en mjög erfitt er að nálgast upplýsingar um hvernig sölukerfið virkar í raun. Bera menn fyrir sig viðskiptahagsmunum og persónuvernd hefur verið dregin inn í málið.
Bloggar | 23.8.2011 | 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
VS afli, hvað er nú það? Hafró aflinn kalla sjómennirnir þennan afla. Útgerðin má ráðstafa ákveðinni prósentu af aflamarki viðkomandi skips í Vs afla. Þá koma einungis 20% aflaverðmætis til skipta til áhafnar og útgerðar.
Svona lítur dæmið þá út. Eitt togskipanna hér í Eyjum hefur landað rúmum 49 tonnum af þorskim sem VS afla. Aflaverðmæti á markaði er rúmar 18 milljónir kr.
Ef við reiknum fullan hlut þá verður hásetahluturinn kr. 270.000-.
VS hluturinn verður einungis kr. 54.000-.
Mismnurinn er því kr. 216.000-.
Þetta er bara EITT dæmi, takið eftir því, EITT skip.
Er það boðlegt, að sjómenn vinni atvinnubótavinnu einir stétta? Eru einhverjir sem eru tilbúnir að lækka kaupið sitt um 75%, þó vinnan sé sú sama?
Sjómannasamtökin hafa mótmælt þessu harðlega undanfarin ár og efast stórlega að Alþingi hafi mátt á sínum tíma setja lög sem taka yfir kjarasamninga sjómanna í þessu máli. Í undirbúningi er lögsókn um VS aflann snúi stjórnvöld ekki af villu síns vegar.
Bloggar | 17.8.2011 | 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Fyrirsögnin er nokkuð skrítin. En á mínum æskuárum á Sigló talaði gamla fólkið að fara yfirum þegar farið var austan megin við fjörðinn. Eða ef einhver spurði hvar eitthvað væri, og það var austanmegin í firðinum, var svarað; ,,fyrir handan". Svona var lífið á þeim árum á Sigló.
Lítið að frétta af bryggjunum. Suðurey landaði í gær 70 tonnum mest ufsa og karfa. Annars er allt rólegt nema í túrista bransanum. Hellingur af svoleiðis liði sem setur svip á bæinn. Makrílveiði er ágæt bæði fyrir austan og vestan.
Eins og allir vita eru sjómenn með lausa samninga og hafa verið síðan um áramót. Illa lýst mér á að samið verði í bráð. Sífellt berast fréttir sem setja okkur stólinn fyrir dyrnar í þessum málum. Síðast þær að auðlindagjaldið verði hækkað verulega. Grunur minn er sá að það verði reynt að velta einhverju af þeirri hækkun á okkur. En við spyrnum auðvitað við fótum, nóg er nú samt. Vonandi fást útvegsmenn til viðræðna með haustinu. Viðræðna af einhverju viti. Auðvitað hangir frumvarp Jóns bónda yfir okkur ein og fallöxi. Ekki fer það óbreytt í gegn trúi ég. Það margir stjórnarliðar hafa lýst sig andvíga þeim doðranti. Ef þessi andstaða er marktæk þá verður frumvarpið skorið verulega við trog og auðvitað á að henda því í nánast heilu lagi og smíða nýtt frá grunni.
Bloggar | 16.8.2011 | 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar