Færsluflokkur: Bloggar
Moren.
Nú eru nokkrir að landa. Þórunn er með 110 tonn og Vídalín með eitthvað svipað. Dala-Rafn og Smáey með sitthvor 30 tonnin. Álsey er rétt ókomin með 800 tonn af síld. Lítið eftir af síldinni og klárast líklega í næstu viku.
Nú hafa vélstjórar á Herjólfi boðað verkföll um helgar allan desember. Ekki er ábætandi með ástandið á samgöngum við Vestmannaeyjar. En þetta er eina vopn launamanna í baráttu fyrir bættum kjörum. Talandi um kjörin þá eru hér kröfur SSÍ til LÍÚ.
Skerðing sjómannasfsláttar verði bætt.
Allur afli verði seldur um fiskmarkaði eða verð tengd við afurðaverð.
Olíuviðmiðun verði afnumin.
Skiptimannakerfið verði endurskoðað með tilliti til veikindaréttar o.fl.
Heildarverðmæti VS afla komi til skipta sbr. kjarasamning.
Framlag frá útgerð í starfsmennta- og endurhæfningarsjóði.
Tryggð verði ein fríhelgi í mánuði á togveiðum.
Frí við löndun á öllum veiðum.
Þrengja eða afnema nýsmíðaákvæðið.
Orlof miðist við starfsaldur á sjó.
Fæðispeningar endurskoðaðir örar en nú er.
Og ýmislegt fleira sem of langt yrði að telja upp.
Minni svo á BJARTMAR í Alþýðuhúsinu á laugardaginn kl. 21:00
Bloggar | 17.11.2011 | 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Moren.
Nú er rólegt við höfnina. Aðeins tvö skip að landa. Sighvatur og Júpiter að landa síld. Eyjaskipin eru að verða búin með sína skammta. Klárast líklega um helgina. Nú er lag fyrir Jón bónda að bæta við. Allar víkur og sund í Breiðafirðinum fullar af síld. Þó sýkingin eigi að vera 34% er aðeins um 5% sýking sem kemur fram í flökunum. Magnið af síldinni er gríðarlegt segja þeir sem gerst þekkja til.
Lofaði því í síðustu færslu að segja frá kröfum sjómanna hinsvegar og útgerðarmanna annarsvegar.
Hér koma helstu áhersluatriði LÍÚ.
Frádráttur frá óskiptu vegna veiðigjalds, tryggingagjalds, raforkugjalds, kolefnisgjalds.
Fiskverð milli skyldra aðila eða til eigin vinnslu taki almennt mið af afurðaverði.
Olíuverðviðmiðun. Taka til endurskoðunar áhrif olíuverðs á hlutaskipti. ( Til lækkunar.)
Breyta slysa- og veikindarétti. ( Til lækkunar.)
Engin helgarfrí.
Hafnarfrí megi taka í frítúr.
Svona er það helsta en raunar miklu lengri listi með allskonar smáatriðum.
Meira seinna.
Bloggar | 16.11.2011 | 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Það sullar á pjásunni, eins og stundum er sagt í brælu. Austan skítabræla og rigning. Ekki er hægt að kvarta yfir hitanum 10 gráður í morgun.
Gullberg er að landa tæpum 100 tonnum af þorski og ufsa. Kap kom í morgun með 500 tonn af síld og Júpiter er kominn með 900 tonn. Óli og peyjarnir á Álseynni fengu 1400 tonna kast á föstudaginn uppí fjöru við Stykkishólm. Hirtu 1000 tonn sjálfir og gáfu rest.
Ekkert bólar á frumvarpi Jóns bónda um fiskveiðistjórnunarkerfið. Karlinn lét hafa eftir sér að fyrst allir væru á móti frumvarpinu, sem lagt var fram í sumar, þá væri best að leggja það fram aftur óbreytt....! Svona gerast kaupin á eyrinni í dag, fyrst allir eru á móti er best að vera líka á móti. Hver hendin upp á móti annari innan ríkisstjórnarinnar í þessu máli og engin niðurstaða í sjónmáli.
Meðan svo er er geta sjómenn ekki samið við útgerðina. Kjarasamningur okkar gilti til síðustu áramóta eins og kunnugt er. Útgerðin heldur því fram að ekkert sé um að semja fyrr en botn fæst í hvað ríkisstjórnin ætlar sér með kvótakerfið. Sem er að nokkru leiti skiljanlegt. Einnig heyrir maður frá útgerðinni að of mikið beri í milli aðila. Báðir aðilar hafa lagt fram sínar kröfur. En maður skildi ætla að ef of mikið ber í milli væri ráð að tala saman og nýta tímann. Eins og góður maður sagði einhvern tíma. ,,Það er góður siður að færa sér dauða tímann í nyt."
Birti svo kröfur sjómanna og útgerðarmann næstu daga.
Bloggar | 14.11.2011 | 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Í denn á Sigló stóð til að stofna old boys fótboltalið KS. Finni Hauks vildi finna gott nafn á liðið og lagði til nafnið, ,,Hjörtu og nýru". Ekki vildu menn samþykkja tillögu Finna. Hann bætti þá við ,,af nýslátruðu". Flott nafn á fótboltalið, Hjörtu og nýru af nýslátruðu. Þá gæti leiklýsing hljómað eitthvað á þennan veg:
,,Hjöru og nýru af nýslátruðu hreinlega slátruðu Magna Grenivík, 6-0 þar sem Friðfinnur Hauksson fór á kostum og skoraði þrennu og lagði upp tvö áður en hann fór af velli með nýrnakast".
Jæja nóg af þessari vitleysu. Þórunn kom í morgun með 75 tonn af allskonar gumsi. Litla karfa, ufsa, bláriddara, stinglax og tussunef, bara nefna það. Dala Rafn kom líka í morgun með eitthvað ekki stórt sýndist mér á hleðslumerkjunum. Kap er að landa síld um 500 tonnum og Júppi líka um 750 tonnum. Annars eins og fram kom í gær er flotinn að mestu fyrir austan og landar þar.
Bloggar | 10.11.2011 | 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Moren.
Það pusar á haustbellinum. Veðrið hefur verið að stríða okkur undanfarið. En Gullberg kom á mánudag með 70 tonn mest þorsk. Síldarvertíð á hausti er formlega hafin, eftir að Jón bóndi gaf loksins út kvóta. En hélt þó 2000 tonnum fyrir gæludýrin sín. Sighvatur kom í fyrradag með góða síld úr Breiðafyrðinum. Álsey kom í gærkvöld með síld af sama svæði. Þannig að stöðvarnar eru farnar að snúast á fullu. Júppi og Þorsteinn fara líka á heimasíld sem og Kap fyrir Vinnsló.
Togbátaflotinn er fyrir austan að mestu leiti og eru að landa þar. Nema Frár, sem er með heimakærari skipum og þar eru menn ekkert að eyða olíunni í einhverja brælutúra heldur liggja á kerlingunum, passa krakkana og elda matinn.
Svo er stýrimaðurinn Simmi að æfa fyrir bikarleikinn á laugardaginn. Aukaæfingar tvisvar á dag. Verður hörku viðureign. Meðalaldurinn er víst um 50 ár, þrátt fyrir tvo leikmenn sem eru um tvítugt. Eins og kunnugt er þurfti að fresta leiknum vegna þess að hann var settur á um kvöld. Þá eru leikmenn ÍBV 2 flestir farnir að sofa eða dottandi yfir fréttunum. En áfram ÍBV 2, þið rústið þessu ef úthaldið brestur ekki.
Og eitt mars í hálfleik....
Bloggar | 9.11.2011 | 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er komin blíða og Herjólfur fer í Landeyjahöfn. Miklar umræður eru nú um framtíð hafnarinnar og siglinga þangað. Við sáum 50% vandamálanna leysast þegar Baldur leysti hér af í september. Það er, djúprista ferju sem siglir í Landeyjahöfn má ekki vera yfir þremur metrum. En Baldur er ekki tækið sem við þurfum með fullri virðingu fyrir því góða skipi. Það er of lítið. En ef menn einhenda sér nú í að smíða nýja ferju sem hentar siglingum í Landeyjahöfn er það bara gott. Við megum samt sem áður ekki gleyma því að höfnin er ekki klár. Meðan á smíðatíma nýrrar ferju stendur verður að bæta hafnarskilyrði í Landeyjahöfn. Við verðum að treysta Siglingastofnun til þess. Uppá hana stendur að lagfæra það sem lagfæra þarf. Fyrst þingmenn okkar sunnlendinga eru fundnir og komnir til byggða ætti það að vera snöfurmannlegt og létt mál að fóðra Siglingastofnun á aurum. Þeir redda þessu með einari og hinni í rassvasanum.
En nokkrir að landa í dag. Frár, Smáey, Drangavík og Þórunn, sem var með 40 tonn af allskonar skrautfiskum. Einhver sagði mér í morgun að þeir hefðu fiskað fyrir 25 milljónir af utankvótafiski í vikunni. Drangavíkur menn eru að fara í helgarferð á Hótel Geysi þannig að sveitavargurinn verður að hafa varann á sér. Svo er færeyskur mjölari að taka mjöl hjá FES. Ekki mjög fréttnæmt nema að hann er með snarvenda vél og gaman að kynnast því. Tók hann inn í morgun og hafði gagn og gaman af.
Bloggar | 4.11.2011 | 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Noren.
Jæja nú skal hamrað á lyklaborðið. Var í smá heimsókn hjá germönum í höfuðborg þeirra, Berlín. Gaman að skoða hvernig austur- og vestur Berlín hafa splæst sig saman eftir hrun múrsins. Vorum í íbúð sem var austan megin múrsins. Eins og að fara 30 ár aftur í tímann. Ekki mikil útgerð í Berlín nema fljótaprammar. En nú er kallinn kominn heim heilu og höldnu.
Dala-Rafn kom í gær með lítið eða um 20 tonn. Þórunn var í fyrradag með 50 tonn af litla-karfa, stinglax og allskonar kvikindum. Bergey með 70 tonn í morgun af allskonar skrapi, litla-karfa, gullax og fleiri tegundum. Vídalín er að landa sem og Brynjólfur sem var með tonn af krabba og 15 tonn af fiski. Vestmannaey er líka að landa.
Jón bóndi er ekki enn búinn að gefa út kvóta í íslandssíldinni og nú verður karlinn að haska sér með það. Breiðafjörðurinn er fullur af síld sem bíður eftir Óla á Álseynni og öðrum köppum.
Bloggar | 3.11.2011 | 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Bræluskítur hefur einkennt þessa viku til lands og sjávar í Verstöðinni. En Vídalín landaði fullfermi á þriðjudag, 110 tonnum mest karfa. Þórunn var í gær með 95 tonn mest þorsk. Suðurey með 60 tonn í fyrradag. Dala-Rafn í gær , veit ekki hve mikið. Frár kom í nótt með 30 tonn af Péturseynni. Smáey 35 tonn að austan. Vestmannaey með ágætt mest litla karfa. Bergey kom einnig í morgun og er að landa. Drangavík er enn á krabba. Var með 60 kör af heilum og eitthvað meira af fiski í fyrradag. Bergur með 70 tonn í morgun. Þannig að ástandið er svona þokkalegt þrátt fyrir gæftaleysi.
En að öðru. Vs afli hvað er það? Í stuttu máli þýðir Vs, Verkefnasjóður sjávarútvegsins. Allt að 5% umfram aflamark fiskiskips má, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, landa sem svokölluðum VS-afla og dregst sá afli ekki frá aflamarki hlutaðeigandi skips. Andvirði þessa afla rennur að stærstum hluta (80%) til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins en það sem eftir stendur gengur til útgerðar og áhafnar skipsins.
Svona er þetta. 20% af af verðmæti kemur til skipta til útgerðar og sjómanna. Sjómenn líta svo á að þeir séu að vinna þegnskylduvinnu með því að taka þátt í þessu bulli.
Tökum dæmi. Skip má fiska 300 tonn af þorski yfir árið. 5% í Vs þýðir 15 tonn. Þessi 15 tonn seljast á markaði fyrir 400 kr/kg. Það gerir 6 milljónir í aflaverðmæti. Hásetahlutur, fullur, er kr. 115.000-. Ef þessum 15 tonnum er landað sem Vs afla er hásetahluturinn kr. 23.000-.
Sjómannasamtökin álíta að þetta gangi gegn sjómannalögunum og kjarasamningi og sé í raun ólöglegt. Er einhver önnur stétt í landinu sem sætir þessum kjörum?
Bloggar | 14.10.2011 | 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Moren.
Nú skartar náttúran sínu fegursta í Eyjum. Fór í morgun að taka inn frystiskip og þá kom sólin akkúrat upp úr hafinu í há austur, rétt fyrir kl. átta. Fallegur morgunn. Nú er Heimaklettur bleikur og reyndar ráðhúsið líka í tilefni bleiku slaufunnar. Gott mál.
En fiskiríið er þokkalegt, allur togbátaflotinn landaði á fimmtudag og föstudag. Svona upp og ofan hvað menn voru með, en þokkalegur reytingur hjá flestum eftir hálfgerða bræluviku. Vestmannaey er komin úr slipp og er að bíða af sér veiðileyfissviptingu. Góðar fréttir af Víkiningi Ak í loðnunni. Vonandi fáum við eitthvað af henni hingað.
Maður lifandi, nú vilja menn færa Landeyjahöfn 2-3 km. vestar en hún þó er. Það verður aldrei gert og nú þarf að snúa sér að því að leysa þau vandamál sem fyrir eru. 50% af vandanum sáum við leysast með Baldri. Þ.e. djúpristan og skrokklagið.
Nýtt skip þarf með nýrri hönnun.
Brjóta þarf úthafsölduna einhvern veginn áður en hún gengur í hafnarmynnið.
Viðunandi dýpkunarúrræði.
Punktur og basta.
Koma svo, bretta upp ermar og byrja, hraði snigilsins er ekki í boði lengur.
Bloggar | 10.10.2011 | 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Í tilefni dagsins er ekki úr vegi að koma með nokkrar bræluvísur. Einn kastaði þessari fram þegar túrinn var orðinn langur og brælu var spáð daginn eftir. Ætli helvítis kallinn fari í land?? Ekki kom svar frá kalli um það.
Brælan byggir upp í mér
bölvaðan greddu kláða.
Kallinn gapir í gaupnir sér
mig langar svo að fá'ða.
Svo er önnur eftir konu, nokkuð tvíræð.
Jón minn hefur litla lyst,
langtum betur aðrir sóttu.
Það var aðeins allra fyrst,
að hann réri á hverri nóttu.
Amma gamla kenndi mér einu sinni vísu. Bað hana um eina klúra og þetta var það klúrasta sem hún kunni. Ég man ekki í hvaða tilefni hún var samin en hún er nokkuð glúrin.
Farðu nú að fara í land,
því fallega syngur ritan.
Davíðs niðji drekktu hland
og drullaðu svo á bitann.
Jæja að öllu gamni slepptu þá er bræluskítur og flotinn í landi. Vestmannaey er í slipp, fínt að nýta veiðileyfissviptinguna í það. Eins og Kári Jóns sagði oft í löndun á Siglufirði, ,, færa sér dauða tímann í nyt, drengir". Bergey og Bergur komu í morgun sem og Þórunn og Brynjólfur. Suðurey var í gær sem og Frár og Smáey sem var með tvo gáma af grálúðu að austan ásamt einhverju fleiru. Annars er enginn landburður af fiski, alltaf einhver helvíts skælingur. Sighvatur var í gær með síld. Drangavík og Krissan lönduðu í borginni í vikunni. Humarinn kom svo með flóabátnum Baldri til VSV. Annars er Drangavík að hætta á humrinum og fara á fiskitroll.
.
Bloggar | 30.9.2011 | 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar