Færsluflokkur: Bloggar
Moren.
Langt síðan síðast var bloggað. En Jötunn er á Facebook undir Sjómannafélagið Jötunn, opin síða.
Tilefni þessar færslu er síldarverð til sjómanna í Eyjum. Enn einu sinni greiða fyrirtækin í Eyjum lægsta verð til sjómanna fyrir síldina. Munurinn er 16-19%. Ekki er við þetta unandi lengur.
Þetta gengur þannig fyrir sig að þeir sem gera út á síld senda inn verð til Verðlagsstofu vikulega. Ef áhöfn og útgerð eru með gildan samning þá getur Verðlagsstofa ekki gert neitt í málunum. Svo er tekist á um þessi mál í Úrskurðarnefnd. Verðin sem slík eru trúnaðarmál. En auðvitað fær maður upplýsingar hjá sjómönnum um verðin og getur þannig borið saman.
Samkvæmt kjarasamningi og lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs eiga áhafnir skipa og útgerðin að semja um verð sín á milli. Í flestum tilfellum er þetta þannig að áhöfnum er tilkynnt um verðið sem á að greiða. Það er EKKI kallað að semja.
Sum fyrirtæki eru með afurðaverðstengdan samning um verð. En það er nú bara þannig að þrátt fyrir það ná þeir alltaf að vera á botninum með verð til sjómanna. Annaðhvort er hlutfallið sem sjómenn fá af afurðaverðinu of lágt eða fyrirtækin með lélega sölumenn.
Það verður að breyta þessu verðmyndunarkerfi. Þetta gengur ekki lengur svona. Návígið sem sjómenn eru settir í er allt of mikið.
Bloggar | 20.11.2013 | 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Moren.
Jæja nú hafa landsmenn valið þá sem þeim þykja bestir. Framsókn og sjálfstæðisflokkur fara líklega saman í ríkisstjórn. Óska þeim alls hins besta við að uppfylla öll loforðin. En eins og við vitum voru þau allmörg í kosningabaráttunni.
Lækka beina skatta á almenning og fyrirtæki, lækkun tryggingagjalds, afnám stimpilsgjalds, lækka jaðarskatta, 20% lækkun húsnæðislána og svo mætti lengi telja. Sigmundi hinum digra hefur verið falið að mynda ríkisstjórn utan um öll þessi loforð. Vonandi tekst honum og þeim sem hann velur til verksins, vel til, landi og þjóð til hagsbóta.
En að fiskiríinu. Það er myljandi fiskirí. Rétt skroppið út í einn eða tvo daga og allt fullt. Vídalín er að landa fullfermi sem og Suðurey og þorsteinn. Dala-Rafn var líka í morgun. Drangavík landaði í gær. Brynjólfur er farinn á humar og Krissan er að gera klárt á voðina. Frár er stopp eitthvað áfram. Rauði herinn er á sjó, fóru á sunnudag svo þeir hljóta að koma fljótlega.
Og Sigurður er á leiðinni í pottinn!!
Bloggar | 30.4.2013 | 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er fæðingarorlof hjá blessuðum þorskinum. Lítið um að vera í Verstöðinni. Drangavík var að koma til löndunar með fullt skip eða um 70 tonn. Rauði herinn er á sjó við Reykjanesið. Netabátarnir Kristbjörg og Brynjólfur fara austur og leggja þar netin fyrir þann gula. Vídalín landaði á föstudag 110 tonnum. Huginn er á kolmunna og Kap einnig, annars er allt með rólegum blæ hér um slóðir.
Bloggar | 15.4.2013 | 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Moren.
Jæja nú er einni áthátíðinni enn lokið með verk- og vindeyðandi. Það er mokfiskirí í öll veiðarfæri. Drangavík fór út á laugardag fyrir páska og var 10 tíma á veiðum. Kom í land kl fimm um daginn með 65 tonn af þorski og ufsa. Frár fór út á annan í páskum og kom í gær með 55 tonn. Hafið er fullt af fiski sem enginn má veiða. Netabátarnir eru að mokfiska. Liggur við að nóg sé að leggja teinana.
Nú nálgast kosningar til Alþingis og allir bjóða allskonar fyrir alla. Níu framboð eru komin fram og von á fleirum. Samkvæmt könnunum munu 13% atkvæða falla niður dauð ef kosningarnar fara eftir niðurstöðu kannana. Þetta lýsir kannski hálfvitagangi okkar Íslendinga. Andskotast eins og enginn sé morgundagurinn og lýsa yfir að allir aðrir séu óalandi og óferjandi nema maður sjálfur. En að vinna saman að sameiginlegu markmiði sé hin mesta ósvinna og ekki á vetur setjandi. Er ekki markmiðið einungis eitt og bara eitt? Að allir hafi það gott í landi sem er að drukkna í auðlindum? Ég bara spyr...........
Bloggar | 3.4.2013 | 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú styttist í páskana og margir stoppa yfir það háheilagasta. Vídalín verður úti og Þorsteinn á trollinu. held að allir aðrir verði bundnir við bryggju og menn ryðji í sig páskaeggjunum sem aldrei fyrr. Svo kannski blotnar hárið á einhverjum um helgina.
Brynjólfur biskup og Krissan drógu upp í gær. Netavertíðin hefur gengið vel hjá þeim sem og Glófaxa. Vandamálið er að finna smærri fiskinn og vera með nógu fáar trossur. Vídalín er að landa 115 tonnum mest karfa. Drangavík er eins og jó jó út og inn. Var t.d 18 tíma höfn í höfn um daginn og trollið 30 mínútur í botni. Og auðvitað var í stíunum líka!!
Bloggar | 26.3.2013 | 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Vertíðarlok komin í loðnuna. Þetta slapp fyrir horn hjá okkur þetta árið eins og oft áður. Vestangangan bjargaði þessu. Nú eru menn að þrífa og snurfusa skipin fyrir næsta úthald. Kolmunninn bíður eftir nokkrum að láta veiða sig. Mér sýnist að vertíðin þetta árið sé betri verðmætalega séð en í fyrra. Samstarfið vegna verðlagsmálanna hefur gengið betur nú en oft áður með einni undantekningu þó. Það kemur í ljós seinna hver það er.
Ekki eins gott ástand í botnfiskinum eins og í loðnunni. 30-40% lækkun á þorskinum frá í fyrra. Fiskur um allan sjó en enginn vill veiða. Svo eru menn að treina kvótann með allskonar æfingum. Þórunn Sveins hefur verið að veiða alls konar furðufiska suður á Sneið og þar um kring. Tussunef, trjónufisk, gjölni, búra, syrtling, djöflamerg, gulllax og kvikindi sem ekki er einu sinni búið að gefa nafn. En þetta gefur ágætlega að sögn þeirra stráka á Þórunni. Það er til skrýtið fólk um allan heim sem étur allan andskotann eins og t.d. Torfi á vigtinni.
Bloggar | 25.3.2013 | 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er allt farið að snúast. Þórunn og Þorsteinn lönduðu í gær. Þórunn með 100 tonn mest ufsi og Þorsteinn með 120 tonn mest þorsk. Krissan landaði á mánudag eftir tvær lagnir í Faxaflóanum 30 tonnum. Bergur var með 50 tonn í gær. Drangavik með 80 tonn einnig í gær. Vídalín er að landa rúmum 60 tonnum. Sighvatur og Kap koma í fyrramálið báðir með fullfermi af loðnu og eru hættir í bili. Ísfélagsskipin eru enn að og fiska vel, landa sem fyrr á Þórshöfn. Gleymdi Suðurey áðan en þeir lönduðu á föstudag 55 tonnum mest karfa. Voru flestir hundveikir í túrnum kallagreiin.
Bloggar | 16.1.2013 | 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú er loðnan farin að flæða í þrærnar í Eyjum. Sighvatur og Kap komu í nótt með ca. 1200 tonn hvor. Bæði Heimaey og Álsey eru búin að landa á Þórshöfn og Heimaey er á leiðinni með sinn annan túr á Þórshöfn. Suðurey var að landa í morgun 50 tonnum af karfa. Þórunn landaði í gær 95 tonnum af blönduðum afla. Drangavík í fyrradag 80 tonnum sem og Vídalín með 90 tonn. Dala-Rafn er byrjaður eftir jólafrí og landaði 25 tonnum í fyrradag. Brynjólfur er farinn í Breiðafjörðinn á þorskanet. Svo allt er farið að snúast eftir hátíðarnar. Loðnan veiðist núna í flottrollið og ekki eru allir ánægðir með það. Ég ætla ekki að dæma um það hvort flottrollið gerir skaða í loðnunni en okkur vantar að rannsaka þetta betur.
Bloggar | 11.1.2013 | 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Gleðilegt og farsælt nýtt ár til sjávar og sveita.
Fyrsta löndun ársins var í morgun. Þórunn kom með 25 tonn af karfa síðan í fyrradag. Raunar hafði Gullberg landað á anna í nýári en það var aflinn milli hátíða, rúm 40 tonn mest þorskur. Loðnuflotinn er lagstur í víking að leita að gráu kvikindunum.
Hér er ályktun fundar sjómanna í Vestmannaeyjum frá 28 des sl.
Nú hafa kjarasamningar verið lausir í tæp tvö ár. Allan þann tíma hafa útvegsmenn neitað að ræða við sjómenn nema með því fororði að laun sjómanna lækki. Fundurinn telur ótækt að LÍÚ beiti þessari aðferð til að knýja á um kröfur sínar. Auðlindagjöld í sjávarútvegi greiða sjómenn ekki.
Ef laun sjómanna lækka um 15% eins og útvegsmenn vilja, mun auðlindagjaldið til ríkisins einungis hækka. Ef það er vilji útgerðarmanna væri gott að vita hvort svo er.
Fundurinn krefst þess að Alþingi sjái til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og séu í takt við heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti.
Bloggar | 4.1.2013 | 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Moren.
Jæja nálgast nú hátíð ljóss og friðar. Er þá ekki við hæfi að skamma útgerðarmennina ofurlítið. en fyrst að fiskiríinu. Það hefur verið ágætt undanfarið miðað við árstíma. Flestir eru fyrir austan og nokkrir fyrir vestan land. Vídalín landaði í fyrradag rúmum 80 tonnum af ufsa og karfa. Bergey er komin í jólafrí og útlit er fyrir að flestir fari í jólafrí í þessari viku eða í byrjun næstu.
En að máli málanna, kröfum útgerðarmanna á hendur sjómönnum. Þeir vilja að auðlindagjaldið verði dregið frá áður en til skipta kemur og reyndar fleiri liðir. Við þessa breytingu má gera ráð fyrir að laun sjómanna lækki um 20% frá því sem nú er. Sjómenn hafa deilt þeirri skoðun LÍÚ að auðlindagjaldið sé of hátt og hafa staðið við hlið þeirra í þeirri baráttu.
En við getum ekki staðið við hlið þeirra á sama tíma og forsvarsmenn LÍÚ beita allskona hótunum í okkar garð, þar með talið verkbanni til réttlætingar kröfum sínum. Hræðsluáróðurinn er sterkur og þarna eru menn að sýna vald sitt og segja að nú skulu menn vera undirgefnir og þiggja það sem að þeim er rétt.
Svona til að minna menn á, þá er fiskverð á Íslandi með ólíkindum lágt. Ef útgerðin væri að greiða rétt verð fyrir aflann þá værum við að tala um allt aðra hluti. Verð í viðskiptum með fisk milli skildra aðila er alltof lágt og svo er uppsjávarfiskurinn sér kapítuli. Það má færa rök fyrir því að á Íslandssíldinni í haust hafi sjómenn í Vestmannaeyjum verið hlunnfarnir um tæpa milljón krónur í hlut. Og það einungis með því að bera saman verð þeirra sem borga hæsta verðið hérlendis og svo í Eyjum. Hvað þá ef miðað væri við fiskverð erlendis, maður lifandi.
Ég minni á að veiðigjöldin eru skattur sem lagður er á útgerðina. Ef veiðigjöldin væru tekin frá skiptum þá myndi útgerðin einungis greiða hærra auðlindagjald til ríkisins. Ef það er þeirra vilji væri fínt að fá það fram í dagsljósið.
Eins og ástandið er núna fara 15% af heildarútgjöldum útgerðarinnar í ríkissjóð í formi veiðigjalda. Ef sjómenn samþykktu 15% launalækkun myndu 18,5% af heildarútgjöldum útgerðarinnar renna til ríkissjóðs.
Ef vilji LÍÚ stendur til að greiða lægra auðlindagjald þá á auðvitað að hækka laun sjómanna og fiskverkafólks töluvert.
En enn og aftur bendi ég á að sjómenn stóðu með útgerðarmönnum í baráttunni gegn svo háu auðlindagjaldi. Ef LÍÚ vill halda trausti við sjómenn þá er þetta auðvitað auðveldasta leiðin til að rústa því trausti. Sjómenn munu ekki gefa eftir sínar kröfur og hvað þá samþykkja 20% launalækkun.
En gleðileg jól öll til sjávar og sveita.
Bloggar | 12.12.2012 | 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar