Færsluflokkur: Bloggar
Moren.
Jæja eins og marga grunaði verður ekkert af verkbanni LÍÚ á sjómenn í bráð. Komum að því síðar. Nú eru nokkrir að landa. Báðar eyjurnar, Vestmannaey með 60 tonn þorsk ýsu, Bergey með 40 tonn held ég af ragúi. Frár er að landa sem og Bergur. Síldinni er ausið upp í Breiðafirðinum.
En aftur að kjaramálunum. Í nýjasta Útvegsblaðinu er auglýsing frá LÍÚ þar sem þeir halda því fram að sjómenn verði að greiða fyrir þá auðlindagjaldið. Því er ég ekki sammála. Fyrst og fremst vegna þess að auðlindagjaldið er skattur á þann hagnað sem eftir verður þegar allur kostnaður við reksturinn hefur verið greiddur og skuldir og kvótakaup þar með. Vissulega má deila á útfærslu auðlindagjaldsins og við höfum staðið með útgerðinni í þeim efnum. Það kemur litlum og meðalstórum útgerðum sem ekki hafa vinnslu á bakvið sig mjög illa.
En hvað er útgerðin að fá framhjá skiptum? 30% aflaverðmætis kemur ekki til skipta. Það má gróflega áætla að þessi 30% greiði fyrir rúmlega helminginn af olíunotkun flotans að meðaltali.
Svo notfæra sumir sér það að fækka á skipum sínum og svo er nýsmíðaálag á nýjum skipum.
Tökum dæmi af nýsmíðuðu uppsjávarskipi sem er á síldarnót. Kjarasamningur segir að 16 kallar skuli vera þessari stærð skips. Það er fækkað um fimm kalla og eru þá 11 um borð. Þá fer skiptaprósentan úr 28,2 í 21,7 og svo kemur 10% nýsmíðaálag til frádrattar frá því. Þá endum við í 19,53% til skipta.
Segjum að þetta skip fiski fyrir 900 milljónir árlega. Þá sparar útgerðin sér 51 milljón í launakostnað. Það má alveg nota það, er það ekki? Svona verður dæmið í sjö ár. 350 milljónir í minni launakostnað hjá viðkomandi útgerð.
Svo er talað um að sjómenn taki ekki þátt í neinu með útgerðinni. Menn verða að líta á allar hliðar málsins. T.d. ef rétt verð væri greitt fyrir síldina væri aflaverðmæti þessa ímyndaða skips um 1,5 milljarðar. Og reikniði svo!!
Bloggar | 21.11.2012 | 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Moren.
Jæja nú er blíða í Verstöðinni eftir stormasama viku. Bátarnir eru að fiska fínt. Og síldveiðarnar í Breiðafirði ganga vel. Heimaey fékk m.a. 2000 tonna kast í vikunni. Kvótinn á síldinni er hálfnaður í Eyjum. Guðmundur fer líklega til loðnuleitar í næstu viku. Vídalín, Þórunn, Bergey, Bergur, Dala-Rafn, Gullberg og fleiri voru með fínan afla í vikunni.
Í dag ræðst hvort LÍÚ forystan mælir með atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna, um boðun verkbanns á sjómenn. Arfavitlaus hugmynd að standa svona að hlutunum. Þetta er fyrst og fremst aðgerð gegn stjórnvöldum sem þriðji aðili blæðir fyrir. LÍÚ er að skjóta sig í báða fætur og pissa í skóinn sinn í leiðinni. Við höfum staðið með útgerðarmönnum í baráttunni gegn auðlindagjaldinu og nýjum frumvörpum um fiskveiðistjórnunina. Þetta eru þakkirnar. Hér eru nokkur brot úr viðtali við mig í síðustu Fréttum:
Þegar samið var við sjómenn um þátttöku í olíukostnaði var miðað við að hún væri á bilinu 70% til 80% þannig að með lægra olíuverði hækkaði prósentan og sjómenn fengju meira í sinn hlut. Fyrst var þetta í 80% en þegar olían hækkaði lækkaði okkar hlutur þannig að við erum alltaf á gólfinu með 70%. Þannig hefur það verið síðustu tíu árin, sagði Valmundur og taldi þetta meira en nóg framlag sjómanna til útgerðar í landinu. Við getum ekki séð að eigum að taka meiri þátt í útgerðarkostnaði en nú þegar er.
Um tryggingargjaldið, sem útgerðin vill að verði hluti af kostnaði áður en kemur til skipta, sagði Valmundur að öll fyrirtæki í landinu yrðu að greiða tryggingagjald. Það hefur ekki verið látið bitna á starfsfólki því mörg þeirra hafa verið að hækka laun. Aðilar á vinnumarkaðarins sömdu um hærra tryggingagjald við ríkisstjórnina til að mæta auknu atvinnuleysi eftir hrunið 2008. Þetta er því mál útgerðarinnar en ekki okkar, sagði Valmundur.
Hann segir að sjómenn hafi setið eftir í orlofsgreiðslum miðað við aðrar stéttir. Orlof hjá okkur er 10,7%, hækkar í 11,59% eftir tíu ár og eftir 15 ár er það 13,04%. Þetta er mun lakara en hjá öðrum stéttum en við náðum því í gegn 2004 að fá þó þessa hækkun. Stóra málið er svo að fari menn á milli útgerða fellur hækkunin niður. Skiptir þá ekki máli þó báðar útgerðirnar séu innan LÍÚ. Þessu þarf að breyta.
Þá er komið að baráttumáli sjómanna til margra ára sem eru verðlagsmálin. Valmundur segir að þokkaleg sátt sé um bolfiskinn en annað sé uppi á teningnum í uppsjávarafla þar sem útgerðin hafi tekið sér einhliða vald til að ákvarða verðið. Í bolfiskinum er kerfi sem gengur en krafa okkar hefur lengi verið að allt verði markaðstengt. Í uppsjávarveiðum er það þannig að útgerðin semur beint við sína menn. Reyndin er sú að verðákvörðun útgerðarinnar er send um borð í skipin og mönnum sagt að þeir sætti sig ekki við það verð sem boðið er geti þeir farið annað. Verðlagsstofa skiptaverðs á að fylgjast með þessu en það er bara eitt á hálft stöðugildi þannig að hún kemst aldrei yfir öll þau mál sem berast til hennar. Við viljum að Verlagsstofa fái að ráða fleira fólk því á meðan hún er ekki burðugri verðum við óánægðir með ástandið. Það væri miklu nær að semja við félögin en ekki vera í þessum slag við mannskapinn, sagði Valmundur og tók verð á síld í Noregi sem dæmi um stöðu sjómanna hér á landi. Á meðan Nojarinn borgar 145 krónur fyrir kílóið af síldinni fást 45 krónur fyrir kílóið í Vestmannaeyjum. Auðvitað er þetta ekki að öllu leyti sambærilegt út af ríkisstyrkjum og aðskilnaði veiða og vinnslu í Noregi en 100 kall er of mikill munur.
Bloggar | 16.11.2012 | 14:03 (breytt kl. 14:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú gustar um landið ísa. Hér í Verstöðinni er norðan rok og hviður uppundir 50 m/s. Allir í landi eða velflestir. Flestir með þokkalegan afla og flestir voru fyrir austan land.
LÍÚ krefur sjómenn um 15% launalækkun. Mikið ósköp eiga mennirnir bágt. Ef við samþykkjum ekki þá setja þeir á okkur verkbann!! Maður lifandi. Mér finnst LÍÚ gleyma einu: Sjómenn geta líka boðað vinnustöðvun ef það á að fara þessa leiðina. Mín tillaga er að farið verði strax í undirbúning vinnustöðvunar. En hér er ályktun Jötuns um þessi mál:
Vestmannaeyjum 2. nóvember 2012Ályktun stjórnar og trúnaðarráðs Sjómannafélagsins Jötuns vegna yfirlýsinga LÍÚ um að sjómenn eigi að taka á sig 15% launaskerðingu.
Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélagsins Jötuns mótmælir harðlega þeim málflutningi LÍÚ að sjómenn skuli taka á sig 15% launaskerðingu. Í fyrsta lagi þykir sjómönnum það koma úr hörðustu átt að útgerðarmenn krefjist launalækkunar hjá sjómönnum. Sjómenn hafa staðið eins og klettar við hlið útgerðarmanna og mótmælt harðlega auðlindagjaldslögunum sem og óútkomnu frumvarpi um stjórn fiskveiða. Rítingurinn er kominn á bólakaf í bak sjómanna. Þetta eru launin fyrir samstöðuna.Í annan stað þykir sjómönnum nóg komið. Í dag greiða sjómenn rúmlega helming af olíukostnaði útgerðarinnar. Í dag lækkar skiptaprósentan um 10% í sjö ár ef útgerðarmaður kaupir nýtt skip. Hvað verður það næst? Lækkun skiptaprósentu vegna kaupa útgerðar á hlutabréfum?Í þriðja lagi er það auðvitað fullkomin firra að sjómenn taki á sig 25 miljarða kostnað útgerðarinnar árlega vegna aðgerða stjórnvalda. Ef svo væri eiga útgerðarmenn að greiða sjómannaafsláttinn úr eigin vasa. Við því hafa útgerðarmenn sagt þvert nei og koma svo alveg af fjöllum þegar sjómenn neita frekari kostnaðarþáttöku.Í fjórða lagi ættu útgerðarmenn frekar að hækka laun sjómanna og fiskverkaverkafólks. Launa- rekstar- og fjármagnskostnaður er nefnilega frádáttarbær frá reiknuðu aulindagjaldi í sjávarútvegi.Að síðustu vill stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélagsins Jötuns brýna sjómenn um allt land til samstöðu gegn kröfum LÍÚ. Við þeim verður að bregðast að fullri hörku. Einnig minnir stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélagsins Jötuns á að það tekur aðeins nokkrar vikur að boða vinnustöðvun á flotanum ef í hart fer. F.h. stjórnar og trúnaðarráðs Sjómannafélagsins Jötuns. ______________________Valmundur Valmundssonformaður Jötuns
Bloggar | 2.11.2012 | 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Moren.
Jæja nú er gaman í Verstöðinni. Vikan er búin að vera fín til sjós og lands. Gott veður og sæmilegt fiskirí. Í gær lönduðu Vestmannaey og Bergey sitt hvorum 50 tonnunum. Bergur landaði 70 tonnum og Þorsteinn var með rúm 100 tonn. Þórunn með fullfermi 110 tonn. Gullberg var í vikunni með sín 90 tonn sem og Suðurey. Kap er farin til síldveiða í Breiðafjörðinn og Álsey og Heimaey eru að gera klárt fyrir heimasíldina. Dala-Rafn er með bilaðan gír. Frár landaði í morgun 50 tonnum. Veit ekki með humarpungana Drangavík og Brynjólf.
Það er að koma í ljós að þeir sem héldu því fram að auðlindagjaldið, eins og það er sett fram, er að rústa litlu útgerðunum og gera þá stóru ennþá stærri. Okkur vantar SVÖR frá stjórnmálamönnunum hvort þetta sé stefnan. Þetta þýðir meðal annars að sjómönnum mun fækka á Íslandi og tekjur þeirra sem eftir eru munu lækka.
Hvet alla til að lesa viðtal við Sigurjón Óskarsson í nýjasta blað útvegsblaðsins. www.utvegsbladid.is á bls. 16. Hægt er að sækja blaðið á pdf formi á heimasíðunni.
Bloggar | 26.10.2012 | 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja nú lýkur bloggleti formlega. Margir að landa í gær. Það er ekkert gámaskip í dag og allir lönduðu því í gær. Frár með 50 tonn eftir stuttan túr. Bergey með 45 tonn, Vestmannaey með 55 tonn, Bergur 70 tonn, þórunn 115 tonn, Maggý með 7 tonn eftir daginn á voðinni. Drangavík með 50 kör humar og 90 kör fisk. Krissan kom biluð og Kobbi Möller gleymdi að landa úr henni!! Vídalín með 120 tonn á miðvikudag.Svo komu fjögur flutningaskip í gær þannig að höfnin var þétt setin. Lýsisskip, Brúarfoss og tvo frystiskip að taka afurðir.
Góðar fréttir úr Barentshafinu, eða fyrir norðmenn og rússa. Kvótinn í þorski fyrir næsta ár verðu ein milljón tonna. Stofninn er víst 3,7 milljónir tonna!! Þessar fréttir hafa örugglega sín áhrif til afurðaverðslækkunar hjá þeim sem og okkur. En eitt vekur furðu mína, loðnukvótinn í Barentshafi verður aðeins 200 þúsund tonn í vetur þrátt fyrir að stofninn mælist um 3,7 milljónir tonna. Nojararnir og rússarnir vilja greinilega fóðra þorskinn á loðnunni. Ekki er því nú svoleiðis farið hjá okkur. Ætli við séum að gera vitleisu með því? Spyr sá sem ekki veit. Svo seljum við nojurunum fiskimjöl sem þeir fóðra eldisfiskinn á sem er í beinni semkeppni við okkar fisk!
En ég er á því að meiri þorskur sé á Íslandsmiðum en Hafró vill meina. Svo er ástandið á grunnslóðinni fyrir norðan og austan í ýsunni sérstakt rannsóknarefni fyrir Hafró. Nú flýja krókabátarnir ýsuna á þessum slóðum. Þau sjö tonn sem Maggý var með í gær var ýsa sem fékkst við Helliseyjarhraunið.
En Hafró ber hausnum við steininn og telur ýsustofninn hruninn. Fyrir utan að henda fiski í sjóinn á rannsóknarskipunum og landa ónýtum fiski sökum sleifarlags í frágangi!
Bloggar | 12.10.2012 | 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú hefur verið staðfest að Portland Ve er til sölu með aflaheimildum sem eru um 250 þorskígildi. Vonandi hreppa heimamenn hnossið og ég held reyndar að svo verði. Einnig gengur fjöllunum hærra að önnur útgerð sé til sölu með 1000 tonna kvóta. Það eru nú ekki margir eftir svo nú er bara að giska!!
Nú skellur landsbyggðarskatturinn á oss að fullum þunga. Hvað skyldi hann nú fara í? Nýtt fangelsi takk fyrir. Legg til að klefarnir í hinu nýja tugthúsi verði nefndir í höfuðið á hinum ýmsu bleyðum kringum landið. T.d. Skagagrunnið, Vodkakassinn, Utanfótar, Hallið, Ingibjargarskora, Landsuður, Víkin, Brókarbrúnin, Állinn o.sv.frv.
Gleymdi Vídalín í síðustu færslu, hann var með 110 tonn á mánudag, ufsa og karfa. Þórunn er að landa 100 tonnum og Dala-Rafn með 60 tonn. Frár landaði í gær 45 tonnum.
Bloggar | 4.10.2012 | 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Jæja loksins verður aðalfundur Jötuns. Hann verður á föstudaginn 5 okt. í Alþýðuhúsinu kl 16:00. Í boði verða venjuleg aðalfundarstörf, gott spjall og humarsúpa á eftir að hætti hússins. Eitthvað verður til að væta kverkarnar með súpunni eftir fund. Félagsmenn mætum vel og stöndum saman í komandi átökum. Veturinn verður harður í kjaramálunum.
Suðurey var í gær með 60 tonn mest ufsa.Gullberg var líka í gær með sín 90 tonn. Fór út í gærkvöld. Sverrir er að fara á Tenerife bráðum og ekki veitir af að róa!! Vinnslustöðvarskipin Kap, Ísleifur og Sighvatur eru hættir á norsk-íslensku. Fara í Breiðafjörðinn eftir 2-3 vikur. Júpiter er að landa 700 tonnum hjá Ísfélaginu.
Einu sinni enn greiða stöðvarnar í Eyjum lægsta verð á landinu á norsk-íslensku síldinni. Þetta kerfi er handónýtt og verður að breyta. Það gengur ekki upp að útgerðin sendi plagg um fiskverð um borð í skipin og allir eigi að halda kjafti og sætta sig við það sem boðið er uppá. Það verður lögð höfuðáhersla á að breyta þessu í næstu kjarasamningum. Þó ekki væri nema að fiskverð á uppsjávarfiski væri hjá Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Algert lágmark að mínu mati. Það gengur ekki slag í slag að bjóða uppá þessi bítti.
Bloggar | 2.10.2012 | 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Sighvatur er undir hjá Vinnsló með 600 tonn af síld. Júppi var undir í gær með 550 tonn hjá Fes. Suðurey var í fyrradag með 90 tonn. Bergey einnig með 75 tonn. Vestmannaey og Dala Rafn í gær með 70 tonn hvor. Bergur í gær með 80 tonn. Brimnesið kom hér við í fyrrakvöld til að ná í umbúðir. Og Frár er farinn á sjó, maður lifandi.
Í gær var farið út með nýja skítarörið og því komið fyrir á botninum fyrir utan Eiði. Lagt var í hann kl. 06:00 og leiðslan var komin á botninn um hádagi þrátt fyrir kalsaveður af norð-vestri. Dráttarbáturinn Ölver úr Þorlákshöfn aðstoðaði okkur við þetta verkefni, ásamt tveimur tuðrum og Friðriki Jessyni bát rannsóknarsetursins. Rörið er 250 metra langt. Gröfupramminn Reynir gróf skurð fyrir rörið á botninum og náðum við að hitta ofaní skurðinn. Aðeins þarf að draga útendann til um nokkra metra til vesturs. Fræðimennirnir héldu því fram að það tæki rörið nokkra klukkutíma að sökkva en það tók innan við klukkutíma að fara á botninn eftir að lokarnir voru opnaðir. Höfðu sumir á orði að aldrei væri neitt að marka tæknifræðinga.
Nú þarf nýtt mið fyrir trillukarlana sem fiska við skítarörið. Kannski verður sett bauja á útendann meðan menn eru að venja sig við hin nýju mið!!!
Bloggar | 21.9.2012 | 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Það er að frétta að Vídlín kom inn á laugardag eftir tvo daga með 110 tonn karfi og ufsi. Gullberg er að renna inn með skammtinn 80 tonn. Drangavík og Krissan eru að landa slöttum af humri. Heymaey er undir í FES með 500 tonn af síld. Sighvatur fór á laugardag efir 600 tonna löndun.
Áhöfnin á Huginn keypti bindasafn Palla sjónvarpsstjóra á uppboði í landssöfnuninni á föstudaginn á kr 555.555. Gott hjá þeim. Þeir verða fallegir á sjómannadaginn næsta. Eyjaskipin voru drjúg í söfnuninni og er það vel.
MK ætlar að selja SVN kvótann sinn, ef enginn hefur frétt af því.
Bloggar | 17.9.2012 | 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Moren.
Jæja góðir hálsar nú er nýtt kvótaár gengið í garð með miklum væntingum. En við vorum eiginlega slegnir utanundir með blautum sjóvettling, tvíþumla, þegar MK ákvað að selja Berg-Huginn úr bænum án nokkurra útskýringa. Mér finnst vanta útskýringar frá MK um þessa sölu, hvers vegna hann velur þann kost að selja dótið úr bænum. Ekki finnst mér mikill mannsbragur á þessum gerningi.
Gullberg landaði í morgun tæpum 70 tonnum. Vídalín í gær með fullfermi 110 tonn ufsi og karfi. Suðurey líka í gær með 70 tonn. Kap er undir með 500 tonn af síld og Álsey með eitthvað svipað. Heimaey er á leiðinni að austan með 500 tonn. Huginn landar á morgun á Eskifirði 500 tonnum. Gandí er kominn úr sínum síðasta túr með 500 tonn af makríl. Portlandið er byrjað á voðinni en gæftir eru slæmar.
Það var snarbrjálað norðan bál hjá okkur í gær og nú er verið að hreinsa bæinn. Allir gluggar útbíaðir af seltu og sandi. Margir standa með garðslönguna og hreinsa hús og bíla.
Bloggar | 11.9.2012 | 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar