Föstudagur, snjór, ófærð og löndun.

Moren.

Jæja nú er orðið slarkfært í bænum er mikið verk framundan að hreinsa bæinn.

Smáey landaði góðum 40 tonnum, Bergey með 60 tonn, Jón Vídó með tæp 50 tonn mest karfi eftir tvo daga á veiðum, hann er að fara í vorrall fyrir Hafró. Drangavík með 35 tonn síðan á Þriðjudag. Dala Rafn landaði í gær 50 tonnum og Bergur með eitthvað svipað. Bylgja er farin norður á rækju. Gandí er á netum eins og Brynjólfur og er ágætis fiskirí hjá þeim. Nýi togarinn hjá Vinnsló heitir Gandí og Gandí gamli fær nafnið Kristbjörg, þannig að nú er það Maggi á Krissunni.

Loðnuveiðar ganga treglega vegna brælu í gær en vonandi finna kapparnir eitthvað í dag í blíðunni.


Allt á kafi í Verstöðinni.

Moren.

Jæja nú er allt á kafi í snjó í Eyjum. Komst á minni Toyotu með konuna í vinnuna fór svo bryggjurúnt en aðvitað var ekki búið að moka þar og sat þar fastur þangað til Pétur hákarl kippti í mig. Það landar enginn fyrr en búið er að skafa bryggjuna. Brottför gámaskipsins frestast því eitthvað. Herjólfur fer ekki fyrri ferð því bærinn er kolófær nema helstu götur. Minnir á Sigló í gamla daga, vantar bara gönguskíðin, þá kæmist maður allra sinna ferða fljótt og vel.


Hjólin snúast í Verstöðinni

Moren.

Vestmannaey er að landa 60 tonnum af blönduðum afla. Gullberg er með eitthvað svipað og Suðurey er með 30 tonn + en þeir tíndu trollinu um helgina á Kötlugrunninu en náðu því aftur í gærkvöld.

Sighvatur er undir í Gúanóinu og er að klára að landa 1000 tonnum. Álsey er með 1100 tonn. Kláruðum Guðmund í gærkvöld og hann er farinn til veiða aftur.

Vek athygli á nýjum bloggara á Eyjunni, Finnboga Vikar en hann er með nýjar tillögur í kvótamálunum. Góður umræðugrundvöllur þar á ferð. Er ekki LÍÚ alltaf að kvarta yfir að það vanti tillögur til breytinga? Hér eru þær komnar.


Norðan nepja í Verstöðinni.

Daginn.

Nú er kalt í Verstöðinni, fimm stiga frost og norðan 12 m/s þá er kalt. Guðmundur er að landa 1000 tonnum til kreistingar og 850 tonnum af frystu. Júpiter var að klára 900 tonn og Álsey var með 800 tonn í gær. Hrognavinnslan komin á fullt hjá Ísfélaginu. Kapin er að landa hjá Vinnsló og gamla Kapin er nýfarin og á að sitja fyrir loðnunni úti í kanti, hún er veiðarfæralaus og má segja að hún sé fljótandi ASDIC fyrir flotann.

Lýst vel á tillögur Finnboga Vikars í Silfrinu í gær. Sjómannasamtökin komu fram með svipaða hugmynd í haust, nema að veiðiskyldan verði 100%.Það verður að höggva á hnútinn sem er orðinn hálfgerður rembihnútur. Til mikils er að vinna að slá fyrningu útaf borðinu. Það veit enginn hvar sú della endar.


Sól og sæla í Verstöðinni.

Moren.

Sólin skín og það brakar í blíðunni hér í Eyjum. Margir lönduðu í gær en þá var ég staddur í höfuðstaðnum á norðureyjunni, þannig að ekki eru aflatölur áræðanlegar. Flestir voru með fínan afla og eru farnir á sjó aftur að draga björg í bú. Kem með tölur á mánudaginn.

Tek ofan minn hatt fyrir bæjarstjórninni sem ályktar á móti afnámi sjómanaafsláttar. Sjómönnum í Vestmannaeyjum munar um rúmar 90 milljónir árlega. Eins og kemur fram í ályktuninni þá eru nágrannalönd okkar, sem við erum alltaf að miða okkur við, langt á undan okkur þegar kemur að umbun fyrir sjómennsku. Sjómenn eru fjarri fjölskyldum sínum mikinn hluta ársins og taka því mun minni þátt í samneyslunni en aðrir og eiga að njóta þess.

Ef ekki verður horfið frá afnáminu verða sjómannasamtökin að bretta upp ermarnar og endurskoða kjarasamning okkar og útgerðarinnar með það að markmiði að taka út allar aukasporslur s.s. fatapeninga, fæðispeninga, fastakaup og fl. og búa til dagpeningakerfi að hætti ríkisstarfsmanna, þar sem allir þessir liðir og afslátturinn verða dregnir saman i eina tölu og heita þá dagpeningar. Það er algerlega óferjandi að taka af okkur umsamin kjör án nokkurra bóta, það talaði enginn um kjaraskerðingu hjá sjómönnum þegar gengið var sem sterkast og ekki vorum við að væla neitt yfir því. Við vinnum eftir hlutaskiptakerfi og þegar kaupið er gott hjá okkur, gengur vel hjá útgerðinni og svo öfugt. Hagsmunir okkar fara saman að því leiti, þó alltaf sé ágreiningur um kaup og kjör eins og gengur.


Aukning í loðnunni

Daginn.

20 þúsund tonn koma sér vel þó vonin hafi verið um 50 þúsund tonn. En það munar um allt. Gerum sem mest úr þessum kvóta til handa volaðri þjóð sem hefur rifist í rúmt ár um Iceslave. Nú er að verða þrautreynt og ef ekki semst í þessari lotu verðum við að hætta að rífast og snúa okkur að uppbyggingu þjóðfélagsins.

Sakna að sjá ekki bölsýnismennina sem eru á móti loðnuveiðum, á blogginu núna, en ég held að allir sjái að það er sjávarútvegurinn sem sker okkur úr snörunni og það þarf að ríkja sátt um hann.

Ég sakna LÍÚ við sáttaborðið, þar er leiðin til að sætta mismunandi sjónarmið.


Góðar fréttir af loðnunni.

Moren.

Loðna um allan sjó segja skipstjórarnir og Sveinn Sveinbjörns loðnuforingi hjá Hafró er sammála því. Gott mál og nóg fyrir veiði og æti fyrir bolfiskinn. Svo ekki sé nú talað um blessaðan hvalinn! Nú er loðnuflotinn að tínast út og nú verður fjör í Verstöðinni þegar öll hjól fara að snúast á fullu.

Gullberg landaði í gær fullfermi eða 90 tonnum af blönduðum afla og Vídalín var í morgun.


Langur dagur.

Moren.

Ekkert blogg í gær. Var í löndun úr Guðmundi. Hann var með 840 tonn af frosinni loðnu, mest á Rússland. Byrjuðum kl. 6 í gærmorgun og kláruðum kl 4 í nótt, það lágu semsagt 22 tímar. Handleggirnir á peyjunum voru orðnir nokkuð langir í restina. Þeir stóðu sig vel. Guðmundur fór út í nótt að löndun lokinni.

Nokkuð hefur verið um að norsk skip komi með kolmunna í FESið, held að sá fimmti hafi komið í nótt. Suðurey kom í gær með fullfermi, um 80 tonn. Einhver loðna mun vera komin vestur fyrir Ingólfshöfða en veit ekki hve mikið, spæja í dag.


Verstöðin á föstudegi.

Moren.

Rigningarsuddi í morgun en annars bara blíða. Smáey með 53 tonn mest ýsa, Bergey 60 tonn einnig ýsa. Stígandi kom í morgun en hann er sjaldséður hérna með rúm 20 tonn að vestan. Bergur landaði í gærkvöld rúmum 60 tonnum. Vídalín var með rúm 90 tonn mest karfi í gær.

Netabátarnir Gandí og Brynjólfur lönduðu í gær, Gandí með 17 tonn mest þorsk og Brynjólfur með tæp 20 tonn mest ufsi í einni lögn.

Samfylkingin var með fund hérna í gærkveld. Komst ekki því miður, en um 30  manns mættu. Hef ekki frétt mikið af fundinum en þingmennirnir virðast við sama heygarðshornið, vilja bara fyrningu aflaheimilda og ekkert annað.

Minni á útfærslu sjómannasamtakanna um 100% veiðiskyldu og framsal verði bannað nema í jöfnum skiptum. Veiðireynsla síðustu þriggja ára verði lögð til grundvallar og fengju útgerðir úthlutað á þeim grunni til 10-15 ára og endurskoðun árlega miðað við veiði hvers og eins. Það sem útaf stæði yrði leigt eða endurúthlutað til X ára með sömu endurskoðun árlega.

Það er nefnilega frjálsa framsalið sem fólki svíður. Sumir ,,fyrrverandí'' útgerðarmenn hafa gert sig seka um að rústa kerfinu innanfrá með því að selja frá sér sínar heimildir og gefa skít í sína heimabyggð og afkomu fólksins sem  tók þátt í að skapa þessi verðmæti. Fólkið skilið eftir með fasteignir sem eru óseljanlegar og enga atvinnu. Hagræðing segja sumir, en þá eru menn búnir að hagræða sig út í horn og þurfa nú að verjast innikróaðir með allt og alla á móti sér. Lífið er nefnilega annað og meira en seðlar í hendi fárra útvaldra meðan hinn almenni borgari lepur dauðann úr skel.

Ég er sannfærður um að frjálsa framsalið eyðileggur miklu meira fyrir útgerðinni í landinu heldur en ekki. Enda finnst mér alltaf jafn fáránlegt að hægt sé að höndla með óveiddan fisk. Það er verið að tala um að opna spilavíti á Íslandi, spilavíti hefur verið í sjávarútveginum í 16 ár.


Blússandi líf í Verstöðinni.

Moren.

Fjör í höfninni í morgun. Frár með 50 tonn mest spikfeit ýsa úr Lónsbugtinni. Vestmannaey með 60 tonn, ýsa og þorskur, Drangavík einnig með 60 tonn og Dala-Rafn var með 38 tonn mest ýsa. Vídalín landaði líka í morgun, er ekki með aflatölur um hann. Þorsteinn er væntanlegur eftir hádegið með tæp 90 tonn. Þannig að nú er allt að gerast og næg vinna í stöðvunum. Þess má geta að hluti afla Þorsteins og Suðureyjar fer til vinnslu á Þórshöfn í frystihúsinu þar.

Loðnukallar eru enn á bremsunni og eru hættir að sofa fyrir spenningi, það verða einhver lætin þegar þeir byrja.

Tíðin er alltaf jafn góð og vonandi verður svo áfram.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband