Moren.
Haukur hummari ræsti mig eldsnemma í morgun í löndun. Vantaði einhvern leðurhaus í Vestmannaey. Sem við svo lönduðum úr 67 tonnum af blönduðum afla þó mest ýsu. Suðurey var líka undir með 70 tonn ýsu og þorsk. Svo kom Drangavík til löndunar með fullfermi eða um 70 tonn. Netabátarnir voru í helgarfríi og eru að fara að leggja. Sé Brynjólf á vesturleið fyrir Eiðinu. Flotinn hefur verið útaf Grindavík í góðri ýsuveiði en veðrið er ekkert sérstakt, búin að vera ruddabræla alla helgina og spáir stormi.
Fór með fríðu föruneyti á herrakvöld ÍBV á laugardaginn. Frábært kvöld hjá handboltahausunum eins og Stjáni á Emmunni kallar þá. Palli FES stjóri var veislustjóri og það fuku nokkrir klúrir. Svo var bingó og spurningakeppni að hætti þeirra bræðra, Sigga og Magga Braga. Halli Hannesar var bingóstjóri og fórst honum það starf einstaklega vel úr hendi. Þó hef ég aldrei verið viðstaddur bingó þar sem mönnum var hótað brottrekstri úr húsi fyrir minnstu yfirsjónir. Og ef menn gripu frammí fyrir bingóstjóra voru þeir dusilmenni með lesblindu og heyrnarskertir.
Flott hjá Man Utd í gær, segi ekki meira. Frétti að margir púllarar hafi meldað sig veika í morgun, þora ekki að feisa daginn og andstæðingana. Og svo gýs í nágrenninu svei mér þá.
Bloggar | 22.3.2010 | 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Nú eru hrossabjúgun komin í pottinn. Við lögðum í púkk ég og Haukur, ég átti einn langa og Haukur annan. Peyjaskrattinn fær að kroppa með í sperlana, en Frár fer á sjó í dag. Haukur þessi er kallaður hummarinn af vinum sínum vegna þess að hann er alltaf hummandi lagstúf fyrir munni sér. Einnig er hann svolítið utan við sig og getur sofnað hvar sem hann tyllir sér niður.
Bergey landaðí seinnipartinn í gær 45 tonnum og Smáey 30 tonnum. Nú eru Stígandi og Gullberg að landa. Stígandi með held ég 55 tonn og Gullberg með eitthvað svipað.
Bloggar | 19.3.2010 | 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Einu sinni voru Magni Jó og Helgi Ágústsson saman á Frigg Ve 41. Magni var skipstjóri og Helgi stýrimaður. Báðir tóku mikið í nefið, sátu oft saman í brúnni og buðu hvor öðrum í nefið með tilheyrandi soghljóðum og hreppstjórasnýtum. Eins og oft vill verða þá dreifðist tóbakið víða og var eiginlega salli yfir öllu í kringum stólana tvo í brúnni. Eitt sinn þegar við vorum búnir að vera fimm eða sex daga á sjó, þá voru Helgi og Magni orðnir tóbakslausir. Töldu það ekki mikið mál, bara þreyja þorrann fram að löndun næsta dag. Eins og þeir sjómenn sem brúka tóbak vita, þá geta síðustu klukkutímarnir í land verið helvíti lengi að líða ef allt er orðið tóbakslaust. Þannig var það með þá félaga. Þeir voru eins og ljón í búri og voru að spá í að fá sígarettur hjá okkur hinum til að tyggja eða troða jafnvel í nefið á sér. En við þvertókum fyrir að gefa þeim eina örðu af tóbaki vegna fyrri yfirlýsinga þeirra. Seint um kvöldið átti einn áhafnarmeðlimur leið uppí brú og kom þar að þeim félögum að sjúga úr stólunum í brúnni, það sem hafði farið til spillis hjá þeim í túrnum endaði samt í nefinu á þeim og við þurftum ekkert að ryksuga aldrei þessu vant. Tek líka fram að báðir ráku mikið við.
En annars er það að frétta að Dala Rafn landaði 63 tonnum af blönduðum afla, austan að. Drangavík með 70 tonn. Vestmannaey landaði seinni partinn í gær 65 tonnum.
Bloggar | 18.3.2010 | 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Moren.
Hvað er að frétta? Með þessum orðum heilsaði Logi heitinn á Smáey yfirleitt. Skipti þá engu hvort hann var nývaknaður úti í sjó eða ef maður hitti hann á götu. Alltaf tilbúinn í fréttir.
Það sem er að frétta núna er að Bergur og Frár eru að landa. Voru við Eldeyna og eru með fínan afla. Frár með rúm 50 tonn og Bergur með 70 tonn. Svo er Guðrún Guðleifsdóttir Ís að landa en hún er á netum. Eigandi er Björn Jóakimsson í Reykjavík en hann átti m.a Smáey sem BH á núna.
Nokkur umræða hefur verið um aukningu á þorskkvóta. Það er forgangsatriði að þeir sem hafa stundað sjóinn og er þeirra aðalatvinna fái að njóta ef af verður. Leigubrask hjá ríkinu kemur ekki til greina. Ástandið núna er þannig að margir eru komnir í vandræði með þorskinn og mikið er landað í ,,hafró''. Svo þegar menn eru búnir að fylla þann kvóta, hvað þá? Flestir hafa verið að forðast þann gula allt kvótaárið, en allstaðar er hann. Það er því engin goðgá að bæta við eins og 40.000 tonnum svo hægt sé að gera út af einhverju viti.
Bloggar | 17.3.2010 | 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Rigning og hálfgerð bræla en engar aftökur. Gullberg með rótarafla og Þorsteinn líka, milli 80 og 90 tonn hvor.
Annars er rólegt og allir ætla að verða ríkir á flatbökusölu, en stefnt er á opnun fjórðu flatbökusölunnar á Strandveginum í Varðahúsi og þar á að vera pöbb líka. Verður líklega hverfispöbbinn minn sökum þess hve stutt er í hann. Svo er Geiri á Topp pizzum búinn að kaupa gömlu skóbúðina og er að standsetja hana fyrir flatbökusölu. Þannig að við þurfum ekki að örvænta um flatbökuskort í Eyjunum.
Er ekki einhver sem vill starta fiskbúð í stærstu Verstöð landsins? Þar fengist humar og gellur á flatbökurnar!
Bloggar | 16.3.2010 | 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Daginn.
Meiri fiskifréttir. Smáey og Bergey í löndun. Báðir með um 55 tonn. Smáey vestan við Reykjanes og Bergey í Breiðamerkurdýpi. Svo er Herjólfur kominn!
Bloggar | 15.3.2010 | 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Já mánudagurinn er magnaður dagur. Fyrsti vinnudagur vikunnar. Þjóðtrúin segir að aldrei megi byrja úthald á mánudegi, og aldrei taka stórar ákvarðanir. Það eru ennþá sumir sem taka þetta hátíðlega og ef farið er á sjó á sunnudegi í nýtt úthald, þá er allt kapp lagt á að komast út fyrir miðnótt. Ef maður sleppur milli garða fyrir þann tíma þá fer allt vel. Best þykir að byrja á laugardegi. Fara margir og taka eitt hal, leggja eina trossu eða einn bala, bara svo hægt sé að segja að byrjað hafi verið á laugardegi.
Einhverjar áhafnir voru að slútta loðnuvertíðinni um helgina, komu flestir vel undan þeirri skemmtan að ég held enda loðnuúthaldið stutt og menn ekki alvarlega tarnaðir. En alltaf eru þó einhverjar sakir sem þarf að gera upp.
Annars er allt rólegt, Suðurey kom í morgun með 65 tonn ýsu og þorsk. Svo eru netabátarnir að moka honum upp. Huginn er farinn á kolmunna, fór rétt fyrir miðnótt í gærkveld.Drangavík landaði í gær 70 tonnum.
Bloggar | 15.3.2010 | 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Daginn.
Föstudagur með sól og blíðu. Frár og Stígandi lönduðu í morgun. Frár með 45 tonn af Ingólfshöfðanum og Stígandi með eitthvað svipað af Eldeynni og þar í kring. Þrír netabátar lönduðu í gærkvöld. Brynjólfur og Kristbjörg með þorsk, eitthvað um 35 tonn hver og Hafursey með 40 tonn af ufsa, sem fæst í handónýt net svo eitthvað er af honum. Svo er síðasta loðnan á leið í kreistingu hjá Ísfélaginu, Júpíter er undir með 600 tonn og Álsey á eftir 600 tonn. Þannig að enn eru vaktir hjá Ísfélagsskvísunum. Sighvatur á að ná í smá skammt af síld í Breiðafjörðinn eftir helgi og tékka á sýkingunni.
Annars óska ég öllum góðrar helgar og miljandi fiskirí þið sem eruð á sjó.
Bloggar | 12.3.2010 | 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Daginn.
Ja hvað haldið þið, sól og átta stiga hiti. Það liggur við að maður rífi sig úr að ofan.
Tveir í löndun í morgun. Vestmannaey með 65 tonn og ég held að Dala Rafn hafi verið með 50 tonn..
Allur loðnuflotinn að þrífa og skrúbba, stuttri vertíð lokið en flestir brosa samt hringinn því veruleg verðmæti urðu til á þessum stutta tíma eða um 11 milljarða útflutningstekjur fyrir okkar örfoka hagkerfi. Það verður ekki hirt uppúr götunni sí svona.
Nú fer hin hefðbundna vertíð að láta finna fyrir sér með meira fiskiríi. Nema helvítis þorskurinn vaði ekki yfir allt og eyðileggi fyrir mönnum. Hefði maður sagt þetta fyrir svo sem 30 árum hefði maður líklega fengið ófá kjaftshöggin. Þá voru trossur um allan sjó, lagt eins og í bílastæðið í Kringlunni (Hringlunni). Það var engin hætta að detta í sjóinn, það var alltaf hægt að teygja sig í bauju! Og svo allir togararnir.
Núna eru gerðir út fjórir, já fjórir netabátar frá Eyjum. Gömlu netajaxlarnir búnir að snúa sér marga hringi í gröfinni. Þrátt fyrir alla friðun og aftur friðun þá minnkar alltaf veiðistofninn ( að sögn Hafró). Þvílík endaleysa.
Krafa dagsins er: Taka mark á fólkinu í slorinu. Bæta við eins og skot, háu herrar.
Bloggar | 11.3.2010 | 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Daginn.
Jamm, Nokkrir að landa í morgun. Gullberg með 54 tonn. Drangavík landaði 67 tonnum, Smáey 55 tonn og Bergey með 65 tonn. Suðurey kom með 75 tonn.
Misræmið milli verðs á ufsa á fiskmörkuðunum og í viðskiptum milli skyldra aðila er orðið óásættanlegt og ekki í fyrsta skipti. Nú er meðalverð á mörkuðunum um 200 kall en vinnslurnar borga sínum sjómönnum milli 90 og 100 kall. sem sagt 100% munur sem er algerlega út úr korti. Sjómennirnir eru orðnir nokkuð langþreyttir á þessum grófa mismun og óréttlæti, alveg sama þó skýringin sé alltaf sú, að þeir megi veiða eins og þeir vilja. Ég hvet útgerðir sem kaupa beint af sínum mönnum að markaðstengja ufsaverðið að lágmarki um 50% þá náum við einhverri sátt um málið.
Svo má líka nefna hvað bræðslurnar borga fyrir hratið í loðnunni, þar er misræmið of mikið, allt uppí 20-25% milli verksmiðja. Alltaf sama sagan, okkur vantar einhver tæki til leiðréttinga á þessu óréttlæti sem viðgengist hefur alltof lengi. Þetta vita sumir og hlæja uppí opið geðið á okkur.
Eða væri kannski best að aðskilja veiðar og vinnslu og bjóða allan fisk upp á markaði? Það virðist vera lag nú þegar umbylta á öllu fiskveiðistjórnarkerfinu.
Bloggar | 10.3.2010 | 14:31 (breytt kl. 14:34) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Bloggvinir
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar