Auðlindagjald og fleira skemmtilegt.

Góðan daginn.

Auðlindagjald var sett á sjávarútveginn fyrir nokkrum árum og kallast nú veiðigjald. Nokkuð flókinn útreikningur liggur að baki veiðigjaldinu en það er ákveðið fyrir hvert fiskveiðiár fyrir sig. Núna, fiskveiðiárið 2009/2010, greiða íslenskir útgerðarmenn kr. 3,47 á hvert þorskígildi sem þeir fá úthlutað. Vestmannaeyjar einar og sér skila því til ríkissjóðs í formi veiðigjalds um 150 milljónum króna á þessu fiskveiðiári. Ekki tekið uppúr götunni.

Svo verður tekið veiðigjald af makrílnum sem á að skila ríkissjóði um 1300 milljónum, samkvæmt greinargerð ráðherra með frumvarpinu. Sem þíðir að sjómenn og útgerðarmenn verða af þessum 1,3 milljörðum. Var einhver að tala um fyrningu og leigu í kjölfarið?

Gott viðtal við Palla Guðmunds hjá Huginn, um makrílinn á www.eyjafrettir.is og svo hvet ég menn að lesa viðtalið við Sigurjón á Þórunni í páskablaði Fiskifrétta. Sæúlfurinn Sigurjón hefur nokkuð mikið til síns máls þegar hann hafnar því að vera kallaður sægreifi, en við sem þekkjum kappann vitum að þar er enginn sægreifi á ferð, heldur útgerðarmaður af lífi og sál sem hefur tekið áhættu í sínum rekstri til að byggja upp útgerðina og Þórunn er topppláss sem sóst er eftir. Nú skal því fórnað á altari öfundar og hagsmunapots misviturra pólitíkusa. Nýtt skip útgerðarinnar kemur heim í haust ef allt gengur upp en ef hrærigrautur fyrningarleiðar verður að veruleika þá veit maður ekki hvort af því verður.


Eftir páska spjall.

Moren.

Jæja nú eru páskarnir liðnir með mat, drykk og kirkjusókn. Skal nú tekin upp fyrri iðja. Fáir á sjó héðan yfir hátíðina. Bara Vídalín held ég, hann landaði í gær en veit ekki hve miklu. Drangavík fór á sjó á miðnætti á páskadag og kom aftur seinnipartinn í gær með 35 tonn mest þorsk. Annars er flotinn enn í landi vegna hávaðaroks af norðri. Álsey slitnaði upp í morgun en hún liggur austan við Skipalyftuna og tekur vel á sig. En strákarnir á Lóðsinn héldu við hana meðan Sibbi Óskars splæsti nýja spotta og batt betur.

Hef verið að lesa blogg á netinu um makrílúthlutun Nonna vinar vor. Allir í 101 eru saltvondir og vilja gera þetta sjálfir, eiga veiðistangir á háaloftinu. Svo ætlar allt vitlaust að verða ef eitt einasta kíló færi í bræðslu. Ég hef bara tvær spurningar: Hvað ef meira fengist fyrir mjöl og lýsi en frosinn makríl? Og hvað ef kvikindið sýnir sig ekki í okkar lögsögu?

Ólína vestfjarðafreyja, fór hamförum í bloggi sínu um daginn um makrílinn. Vísar til Ingólfs sögu Arnarsonar,  ,,Til ills höfum vér riðið um góð héruð, ef vér eigum nú að byggja útnes þetta''. Það má nú snúa þessu uppá Ólínu og hennar pótintáta og þarf ekki mikinn vilja til. En frúin sú er vond yfir að Nonni Bjarna vildi ekki auka í vitleysuna og hrós til Nonna, þó hann hafi ekki fengið mörg hrós frá mér undanfarið, batnandi manni er .........  Svo er opið á tilraunaveiðar og opnun á fleiri útgerðir en nú þegar hafa lagt sig eftir makrílnum. En spurningunni um meðaflann er ósvarað.

Hvernig ætlar Ólína að veiða makríl kvikindin nema með þeim skipum sem hafa gert það undanfarin ár? Á að offjárfesta meira í greininni en orðið er og búa til meiri kostnað með því að leigja út kvótann? Sem sjómennirnir borga svo á endanum. Nei takk Ólína mín, ég tek ekki þátt í svoleiðis dansi, hef gert það áður og þekki afleiðingarnar. Það sem þarf að tryggja er að útgerðin geti ekki látið kvótann ganga kaupum og sölum sín í milli, heldur á að vera 100% veiðiskylda og ef einhver nær ekki sinni úthlutun þá gera það aðrir, betur til þess fallnir. Án þess að borga formúu fyrir það. Nægur er kostnaðurinn orðinn nú þegar, sem, nota bene, sjómennirnir borga fyrir með t.d. þátttöku sinni í olíukostnaði útgerðarinnar. Ekki taka þingmenn þátt í pappírskostnaðinum eða?

Kannski vestfjarðafreyja hjálpi okkur að leiðrétta kostnaðarhlutdeildina? Eða setja sjómannaafsláttinn aftur á? Eða á þetta allt að verða óbreytt ef og þegar fyrningarleið er komin á koppinn? Það eru ekkert nema spurningar sem vakna og meðan þeim er ekki svarað á fullnægjandi hátt, skal heima setið og ekki farið af stað í ferð án fyrirheits og skýrra markmiða. Ekki bara slægjast eftir atkvæðum ,,hæstvirtir'' stjórnmálamenn.


Gleðilega páska.

Moren kæru vinir.

Páskahátíðin er gengin í garð með blíðuveðri hér í höfuðborginni. Erum búin að vera að dúlla með barnabarnið og hitta fjölskyldu og vini. Nenni ekki að elta ólar við Ólínu í dag en tek snerru á henni eftir helgi. Þá á ég við Ólínu Þorvarðar, sem vill að einhverjir aðrir fái makrílkvótann en Nonni úthlutaði eftir veiðireynslu og það þolir Ólína ekki.

Verum í páskaskapi og hugsum vel til allra, líka Ólínu.


Jæja nú er ýsan komin!

Kvöldið.

Flykkjast inn skipin með ýsuna. Mok á Péturseyjar bleyðunni. Þar liggur ýsan í loðnu og hefur það gott. Bergey kom fyrst í dag með fullfermi 70 tonn. Svo kom Dala Rafn með sama og Vestmannaey kom undir kvöld einnig full. Svo landaði Vídalín í morgun 260 körum eða 85 tonnum. Vídalín verður á sjó um páskana og landar á þriðjudagsmorgun og kemur vinnslunni í gang hjá Vinnsló eftir páskafrí hjá landfólkinu. Líklega verða flestir aðrir í landi í fyrramálið, eða þegar þeir eru búnir að fylla. Svo er langþráð páskafrí, afslappelsi eða skemmtanir, eftir lyst hvers og eins. Annars er sá guli að gera mönnum lífið leitt fyrir öllu suðurlandi og menn alltaf keyrandi út og suður að forðast dýrasta fisk okkar Íslendinga. Má ekki veiða helvítis kvikindið þó allt sé vaðandi. 

Þetta gengur ekki lengur og reikna nú rétt Hafró, því enginn tekur mark á sjómönnunum. Þó er smá séns. Jóka forsætis lýsti yfir að lag væri að auka kvótann til að auka tekjur sárþjáðrar þjóðar sem veitir ekki af hverri krónu sem hægt er að nurla saman. Skuldir dólga erum við víst dæmd til að borga, því engin einasta króna fyrirfinnst í vösum ofurmennanna sem þó voru í hópi ríkustu manna heims fyrir aðeins tveimur árum síðan. Allir allt í einu orðnir staurblankir.

Ja sveiattan. Ansvítans delarnir, hefði amma gamla sagt, þó hún hallmælti ekki nokkrum manni og bölvaði aldrei.

Hitti mann í morgun sem kom heim með nýtt línuskip árið 2001. Hafði loforð þáverandi ráðherra og LÍÚ uppá vasann að langa, keila og skötuselur yrðu ekki kvótasettar. Um leið og skipið kom heim voru þessi loforð svikin og skipið nýja var selt úr landi enda enginn rekstrargrundvöllur fyrir hendi lengur. Vestmannaeyingar allir sem einn, og þá á ég við bæjarstjórn og öll hagsmunasamtök sjómanna og útgerðarmanna  mótmæltu kvótasetningu fyrrgreindra tegunda og vildu að sett yrði prósenta á þessar tegundir sem meðafla.

Held að hefði verið hlustað á okkur í den, væri Jón Bjarnason ekki kallaður Nonni Skötuselur í dag.


Að lokinni göngu.

Moren.

Fórum í frábæra göngu í morgun með nokkrum starfsmönnum sjúkrahússins. Fórum hringinn um Eldfellið og enduðum á Café Volcano í kaffi og vöfflum. Hressandi og gott fyrir kroppinn og sálina í blíðunni.

Það á vel við á laugardegi að grilla skötusel og það ætla ég að gera í kvöld. Vafinn í parmaskinku og fylltur með gráðosti. Tær snilld  og vonandi fáum við Eyjamenn eitthvað af skötuselskvóta Hólabiskups, sem væntanlega verður boðinn til kaups innan tíðar. Aldrei að vita nema maður bjóði í. Eða, nei. Fyrst verð ég að kaupa mér bát, netaúthald, ráða mannskap og stofna fyrirtæki. Ætli það borgi sig ef maður fær ekki nema fimm tonn? Held ekki, en þetta er það sem allir vilja, að komast inn í greinina. Þessi aðferð gengur aldrei upp. Svo verður verðmiðinn 120 kr á hvert kíló frá ríkisstjórninni. Hver á að borga? Sjómennirnir eða útgerðin. Það er lykilspurning sem verður að spyrja, og svara.


Meiri fiskur

Moren.

Ekki amalegt veðrið, nánast logn og hitinn að nálgast tveggja stafa tölu. Stígandi og Suðurey að landa báðir með um 60 tonn. Svo var einn landliðsbátur í línuflotanum hér í morgun, Daðey Gk.

Svo Gutti Jónsson 69 ára í dag, en um hann voru Guttavísur ortar á sínum tíma. Til hamingju með daginn Gutti minn. Gutti Jónsson er að heiman, nánar tiltekið á Laugarvatni í bústað hjá vinafólki.

Smá föstudagssaga. Útgerðarmaður einn hér í bæ og skipstjóri var eitt sinn í talstöðinni á spjalli við annan skipstjóra. Vélstjórinn var einnig staddur í brúnni. Skipstjórinn á hinum bátnum spurði hvernig vélin, (Callesen) hefði reynst hjá honum. Svarar okkar maður að hún hafi reynst frábærlega. Vélstjórinn gerði athugasemd um að hann, (skipstjórinn) vissi ekkert um vélina, ekki einu sinni hvernig hún væri á litinn. En skipstjóri hélt sínu striki og fullvissaði hinn skipstjórann um ágæti vélarinnar. Hún hlyti að vera góð, hann væri búinn að misbjóða henni í mörg ár auk þess að vera með lélegan vélstjóra allan tímann, hún hlýtur að vera góð, sagði skipstjórinn og glotti. 

Spurning dagsins er, hverjir eru þetta?

 


Fiskur og aftur fiskur.

Daginn.

Fiskur er frábær fæða. Hvort sem er úr sjó eða vatni. Fékk bleikju vafða í þorskflak í hádeginu og þvílíkt hnossgæti. Sá í mogga að það stendur til að fiskmarkaðirnir bjóði fólki að kaupa einn og einn fisk innan tíðar. Gott mál. Ef þú nennir að flaka og snyrta hann sjálfur.

Var að koma með flugi úr borg óttans og sá að Smáey og Vestmannaey eru að landa. Drangavík var í morgun og Vídalín í fyrradag. Svo gleymdi ég Dala Rafni en hann landaði fullfermi á þriðjudagskvöld 70 tonn.

Nú er skötuselsrykið að setjast og menn farnir að róast í umræðunni. Sáttanefndin situr áfram og ætlar að klára sín mál að sögn formanns hennar. Þó svo að nokkra aðila vanti að borðinu. Ég brýni þá aðila að koma aftur að borðinu og leita sátta í máli sem skiptir okkur öll miklu. Ef svo fer ekki þá verður óhjákvæmilegt að málið fer í enn pólitískari farveg en nú er og það boðar ekki gott.


Miðvikudagur til mikils.

Daginn.

Sólin skín og veðrið leikur við okkur eyjaskeggja. 9 stiga hiti í dag. Bergey kom um hádegi með tæp 70 tonn, var mest í Háfó að fótreipast. Glófaxi og Hafursey eru að landa. Huginn er að landa frosnum kolmunna, um 300 tonnum. Líklega verður slútt hjá þeim. Þeir eru meistarar í slúttum og einhver sagði mér að umsókn lægi fyrir hjá Guinnes um að staðfesta að Huginsmenn eigi heimsmet í slútti.


Bræluskítur í Verstöðinni.

Moren.

Nokkur skoðanaskipti voru við færslu minni í gær um skötuselsfrumvarp landbúnaðarráðherra. Gaman af því og skoðanir voru skiptar, eins og ég reyndar vissi fyrirfram. Það virðist engin leið að ná nokkurri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfi til frambúðar. En áfram með smjörið, orð eru til alls fyrst.

Annars er bölvuð bræla núna. Smáey og Frár komu í morgun. Frár með tæp 50 tonn og Smáey 55 tonn og Óttar. Þeir voru að veiðum útaf Grindavík en þar í bæ búa Grindjánar. Stórskrítinn ættbálkur. En ýsan fyrir utan hjá þeim er í góðu lagi og reyndar þorskurinn líka. Helst til mikið af honum, nema að Nonni vinur vor spýti í lófana og auki þorskinn um svona 40 þúsund tonn og ufsann um 15 þúsund tonn. Þá verður hægt að veiða þessi kvikindi skammlaust. Og fer þá að vænkast hagur strympu, ( les, ríkissjóðs og allra yfirleitt). Svo var Gullberg líka að landa, mest þorski held ég.


Nonni Skötuselur.

Nú hefur skötuselsfrumvarp hæstvirts Nonna hólabiskups verið samþykkt á hinu háa Alþingi. Grétar Mar er að græja sig á selinn og Beddi á Glófaxa harmar hlutinn sinn. Hvílík endemis háæruverðug vitleysa. Og Nilli vinur vor að vestan hleypur hæð sína afturábak og áfram á nærklæðum einum fata.

Hvað gerir Nonni næst? Erfir hann Ólínu að embættinu? Minnkar hann þorskkvótann? Kannski hann kaupi sér bara trillu og fari á makríl og beiti loðnu. Eða á línu að veiða rækju. Hver veit?


mbl.is Skötuselsfrumvarp að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband