Alveg sprunginn.

Daginn öll.

Eitthvað er maður tuskulegur í dag. Eins og allur vindur sé úr manni. Held að gosið dragi úr manni allan mátt. Ekki kom mikið öskufall hér í Eyjum, aðeins í morgun en varla neitt. Sjónin sem blasti við í gærkvöld þegar jökullinn ruddi sig var hreint út sagt frábær. Fyrst var mökkurinn hvítur og svo varð allt kolsvart og hrikalegt. Hvílíkir kraftar á ferðinni og er þetta þó smágos miðað við Kötlu gömlu. Flugfélögin eru farin heim í fýlu og skal engan undra.

Nú tíðkast mjög frítaka á hinu háa Alþingi. Væri nú ekki ráð að segja af sér. Það sjá allir sökina nema gerendurnir. Það vantar auðmýkt hjá öllu þessu fólki, ef hún væri til staðar þá ætti liðið kannski viðreisnar von. Koma fram fyrir alþjóð, viðurkenna mistök, og meina það, biðjast auðmjúklega afsökunar og leggja við heiður sinn að hjálpa til við endurreisnina og sjá að sér.

Með auðmýkt og hrolli fyrir náttúruöflunum. ( Frjálshyggja er ekki náttúruafl ).


Föstudagur í Verstöðinni.

Moren.

Þokkalegt líf við höfnina í morgun. Drangavík og Vestmannaey að landa fullfermi eða um 70 tonnum. Gullberg og Suðurey líka með nánast fullfermi eða 80 tonn. Svo er Huginn að landa kolmunna, 500 tonn fryst og 1000 tonn í bræðslu. Guðmundur er væntanlegur á morgun með fullfermi af kolmunna, 850 tonn fryst og 1800 tonn í bræðslu. Mjöl og lýsisverð er hátt núna og þess vegna setja menn kolmunnann í bræðslu. Ljótt með flugið þetta setur allt úr skorðum. T.d. fiskflutninga, um 350 tonn af fiskafurðum fara í flug í viku hverri frá Íslandi. Töf á flugi í marga daga hefur því mikil áhrif á fyrirtækin sem eru í flugfiskinum og starfsfólk þeirra.

Góður vinur minn Þorkell Kristjánsson sem býr í Lammhult ( rétt hjá Kattholti ), í Svíaríki, er fimmtugur í dag og óska ég honum til hamingju með daginn. Honum til hughreystingar, þá minni ég hann á að antik húsgögn eru verðmætari en IKEA dótið og eftir því sem whisky verður eldra, því betra verður það og þannig er það með vin minn Kela, verður bara betri með aldrinum. 

Bankadelarnir forherðast bara meira eftir útkomu SKÝRSLUNNAR og finnst framferði sitt vera til fyrirmyndar. Lána sjálfum sér fyrir öllu. Ég held að þessir skúrkar hafi aldrei tekið upp veskið og greitt með raunverulegum seðlum. Bara tekið út á krít. Allavega eru verðmætin sem þeir þóttust vera að skapa týnd og tröllum gefin, eða falin fyrir okkur og svo er verið að afskrifa alla skuldasúpuna í skilanefndunum. Ja svei.


Öskureiður, eða þannig.

Daginn.

Jökullinn er öskureiður og stoppar allt flug um gervalla norður Evrópu. Bændur austan gossins sjá ekki handa skil og þreyfa sig í fjárhúsin. Og ekkert flug til Eyja. En vatnsleiðslan og rafstrengurinn sluppu, sem betur fer. Vonandi lætur Katla ekki á sér kræla í bráð, þá fyrst myndi nú kárna gamanið.

Lítið um að vera við höfnina nema dýpkunarskipið Perla hefur nóg að gera og þeir fara með sandinn í fyrirhugað hafnarstæði útaf Eiðinu. Dala Rafn landaði í morgun um 60 tonnum. Stígandi og Frár eru stopp vegna fæðingarorlofs þorskfiska og reyndar Bergur líka.


Ekki frýs í helvíti nú, frekar en endranær.

Daginn.

Fyrr frýs í helvíti, er vinsæll frasi um staðfestu og margir sökudólga hrunsins gætu sagt þessi orð: Fyrr skal í helvíti frjósa áður en ég viðurkenni afglöp eða hvað þá forheimsku. Jæja það er bara svona lífið og lítið við því að gera. Og nú Gýs Eyjafjallajökull. Það er eins og hann væri að bíða eftir SKÝRSLUNNI og nú lætur hann vita. Reiðin gýs úr honum eins og í samfélaginu öllu. Eða er sá svarti sjálfur að nudda saman höndunum og gleðjast yfir fylgismönnum sínum á jörðinni?

Vatnsleiðslan okkar er í lagi og maður þorir varla að hugsa þá hugsun til enda ef hún færi eða vatnið spilltist. Þá yrðu vandræði í Eyjum.

Skrapp í löndun úr Bergey í morgun, þeir voru með tæp 80 tonn peyjarnir. Þorsteinn og Vídalín voru með sitthvor 100 tonnin. Smáey landaði tæpum 60 tonnum.


Hrunadansinn dunar.

Daginn.

Nú dansa menn hrunadans á Fróni. Hver um annan þveran keppast þeir við að kenna öðrum um. Ekki benda á mig, í gær var ég að æfa lygakórinn. Svei.

En fari þetta lið þangað sem það á heima.

Lítið að frétta af bryggjunni í morgun. Brynjólfur og Glófaxi eru að græja sig á humarinn. Krissan er búin með einn túr á krabbann en ekki var mikill krabbi hérna heimavið, meiri fiskur, en nú ar allt slaglokað á heimaslóð og Maggi fór austur í dýpi að krabbast. Vestmannaey kom í land í gær með fótreipið í henglum, sleit aftanúr en náði megninu aftur í ræmum. Slæmt vegna þess að þetta var fyrsti túrinn hjá Héðni Karli sem skipstjóri. Aflinn hjá Héðni og félögum var 45 tonn. En vesenið er bara til að læra af og herðir mann bara, og fall er fararheill.

Sexmenningar nokkrir hér í bæ festu kaup, nýlega, á 12 manna harðbotna tuðru. Glæsilegur bátur. Ætla þeir að tuðrast með túrista úr Bakkafjöru umhverfis Eyjarnar. Þegar öll leyfi og haffæri eru komin byrjar ballið. Allir eru þrælvanir tuðrukallar og eru núna á 30 tonna námskeiði hjá Visku undir skeleggri stjórn Friðriks frá Löndum, óska ég sexmenningum til hamingju með fyrirtækið og að allt gangi vel.

Veðrið leikur við okkur núna og er kominn 11 stiga hiti núna eftir hádegið. Maður fer að rífa sig úr að ofan bara, smá gæsahúð er fín.


Fæðingarorlof þorskfiska.

Daginn.

Fæðingarorlof þorskanna er hafið. Ekki hafa þeir mikinn rétt greyin, miðað við mannfólkið. Þó má segja að ákveðin hagræðing sé af því að allir þorskarnir taka orlof á næstum því sama tíma. Mikill sparnaður.

Nokkrir að landa í morgun Brynjólfur með 54 tonn í þremur lögnum. Gullberg með 70 tonn og Suðurey með eitthvað svipað. Frár kom í gærkvöld með 30 tonn eftir einn og hálfan sólarhring á veiðum. Svo voru Glófaxi, Dala Rafn og Stígandi að landa líka en veit ekki hve miklu.

Nú er sakamálasaga allra tíma komin út og þar fá margir á baukinn og þurfa klárlega að axla sín skinn en benda ekki hvor á annan. ,,Þú varst verri en ég og þess vegna má ég allt''. Svo voru sumir ráðherrar bara stikkfrí og ekkert við þá talað, þó þeir bæru ábyrgð samkvæmt stjórnskipan lýðveldisins. ,,Ekkert að láta þennan vita, hann er svo leiðinlegur''. Flottræfilshátturinn er yfirþyrmandi, ekki var nóg að mala gull heldur varð að éta það líka. Ungir spjátrungar héldu utanum gífurlega umfangsmikil viðskipti og hlýddu öllu í blindni sem eigendur bankanna sögðu þeim að gera. Uppskafningar, myndi ákveðinn kokkur í flotanum kalla þá.

 


Skýrslan margfræga.

Moren.

Aumt er ástandið á Fróni. Svona gætu annálaritarar skrifað um líðandi stund.

Ísland 11, apríl 2010.

Davíð flúinn land, og sumir segja að hann sé farinn í útlegð eins og tíðkaðist til forna og komi ekki aftur fyrr en að níu vetrum liðnum. Það var refsingin við fjörbaugssök, ef ég man rétt. Ögmundur hamast eins og gelli á stjórninni, er einskonar ríki í ríkinu eða ný fastastjarna í sólkerfinu. Bjarni Ben vill huga að framtíð landsins en ekki fortíð, þó færa megi nokkuð sterk rök fyrir því að í fortíðinni liggi ástæða erfiðleika okkar nú. Jón Ásgeir varar Steingrím við að vera með sleggjudóma um sig og sína, ella hafa verra af. Steingrímur kannast ekki við fátækt á Íslandi, Sigmundur Davíð vill ekki borga. Heilög Jóhanna slær ,,Skjaldborg'' um heimilin, Jón bóndi segist ráða öllu. Birgitta hermaur er orðin framleiðandi stríðsmynda og Borgin spilar golf í boði skattborgara. Svona gæti maður haldið áfram að skrifa djöfulinn ráðalausan um þá sem við kusum til að hafa vit fyrir okkur hinum og leiða okkur úr öngstrætinu í birtu hinna grænu valla þar sem smjör drýpur af hverju strái, svo maður gerist nú skáldlegur.

Ritgerðin margfræga kemur út á morgun og þingmenn fá hana í hendur í kvöld, held ég og kvarta sumir yfir því að vaka í nótt við lestur. Peyjarnir á sjónum eru ekkert að væla þegar bjarga þarf verðmætum, standa meðan báðir fætur eru jafnlangir og njóta svo ávaxtanna þegar streðinu lýkur. Vona að það sama eigi við um okkar hæstvirtu þingmenn. Smá vökur herða mann bara.


Latur laugardagur.

Moren.

Við hjónin ætluðum í göngu í morgun en það er ausandi rigning svo við sitjum hvort á móti öðru í tölvunni. Ég að blogga og hún á facebook. Davíð tengdasonur okkar er 27 ára í dag, vá hvað tíminn flýgur. Út um gluggann sé ég slökkviliðið á æfingu, tengja slöngur og taka rúnt á bílunum. Svo er kaffispjall á eftir. Annars er allt gott að frétta og allir á sjó að draga björg í bú.

Grein í fréttablaðinu http://visir.is/article/20100410/SKODANIR03/330567562/-1 , eftir Helga Áss, þar sem hann ber saman fiskveiðistefnu ESB og Íslands. Ágætis grein en er aðeins skúffaður yfir trú Helga á frjálsa framsalið. Held samt að hann hafi rétt fyrir sé með ESB að þeirra kerfi sé algerlega ótækt. Samt vantar finnst mér alvöru umræðu um kosti og galla ESB í sjávarútvegsmálum.


Meiri Ýsa

Moren

SA bræla í Verstöðinni. Bátarnir streyma inn, Frár með góð 50 tonn, Bergey með 70 tonn, Dala Rafn 55 tonn, Stígandi 50 tonn, Drangavík og Smáey eru að landa síðan í gær, með sitt hvorn gáminn. Vídalín er með 80 tonn mest karfa og ufsa, annars er ýsan allsráðandi en nokkuð ber þó á þorski. Bankinn er sneisafullur af þorski og virðist ufsinn vera þar með honum svo menn þora ekki að beita sér mikið þar. En fæðingarorlof þorskins hefst á miðnætti á sunnudag svo menn drífa sig á sjó strax til að ná í nokkrar ýsupíkur fyrir lokun.


Ýsumok vestan við Surt.

Moren.

Ýsan er mætt á svæðið. Smáey var að landa 55 tonnum mest ýsu og lýsu. Drangavík með 60 tonn, Gullberg landaði 50 tonnum og Suðurey öðru eins. Stöðvarnar farnar að snúast og gjaldeyririnn streymir í þjóðarbúið. Gandí er að græja sig á humarinn og Brynjólfur er á netum ennþá og landaði 25 tonnum af þorski í gærkvöld í fimm trossur. Glófaxi er einnig á netum og landaði 32 tonnum í gær. Aðein lýsa með ýsunni en það er bara fínt, utankvóta fiskur og kemur í rabbat.

Eyjamenn fá stóran skerf af makrílkvótanum, enda höfum við lagt mest undir á þessum veiðum. Gott mál.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband