Það er norðan þræsingur núna en ekki þannig að til vandræða horfi. Enhver fiskikör fuku í morgun við höfnina. En af fiskikörum er nóg í Eyjum.
Umræðan um gagnaver í Reykjanesbæ, sýnir vel tvískinnung stjórnvalda. Hrunvaldur einn, sem hagnaðist að sögn af því að brugga bjór ofaní fallna kommúnista austur í Garðaríki, skal fá tíundar afslátt. Hrunvaldur þessi keypti banka af Ríkinu uppá krít í öðrum banka. Baðst svo undan að borga vegna auraleysis. Kemur svo skeiðandi á hvítum hesti með fullar hendur fjár, eins og frelsarinn sjálfur.
Nýbúinn að mergsjúga saklausa Tjalla og Flæmingja, einungis til að geta haldið sukkinu áfram. Og enginn getur svarað hvar auðævin eru falin. Barbabrella.
Á meðan hrunvaldur leikur lausum hala og fær afslætti hægri vinstri, leggur Ríkið til afnám skattaafsláttar sjómanna. Enda eru þeir engir hrunverjar og moka ekki aurum á ,,rétta'' staði
Bloggar | 20.12.2009 | 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þorsteinn landaði í morgun um 40 tonnum og er hættur fyrir jól. Vídalín og Brynjólfur eru líka stopp en Brynjólfur var með um 30 tonn.
Það er margt skrýtið í kýrhausnum, stendur einhversstaðar skrifað. Línuívilnun er nú 20% ef notuð er landbeitt lína við veiðarnar. Þetta þýðir að þeir sem hafa sérhæft sig í línuveiðum með vélum, með ómældum kostnaði og fyrirhöfn, verða að henda þessari tækni frá borði til að fá 20% meiri kvóta. Vinnan varð léttari og ódýrara að gera út með beitningavél. Ekkert tillit er tekið til þess í þessu nýja kerfi. Tek undir með Pétri Hafsteini Pálssyni framkv.st. Vísis um þessi mál í Fiskifréttum í dag.
Sjómannaafslátturinn sívinsæli er enn til umræðu. Upplýst er að fiskifræðingar og aðrir fræðingar sem á sjó fara, eru á sérstakti fjarvistarþóknun plús aðrar sporslur. Gott mál og sannar okkar málflutning.
Ríkið fer með fleiprur þegar það segir aðstöðuna hafa breyst svo til batnaðar að hinn venjulegi sjómaður hafi ekkert með skattaafslátt að gera. Borgar sjálft beint annari stétt í beinhörðum peningum fyrir að vera að heiman frá fjölskyldu og vinum.Ekki vil ég fjargviðrast út í fiskifræðingana og þeirra kaup heldur stend með þeim í þeirra baráttu. Þetta er réttlætismál og þar hafið þið það svart á hvítu.
Sumir segja nú eflaust að einmitt hafi ríkisstarfsmennirnir samið um þetta við sína vinnuveitendur og það er rétt. En það er líka rétt að við sömdum um sjómannaafsláttinn á sínum tíma við ríkið. Einhliða niðurfelling er ósanngjörn og þar stendur hnífurinn í kúnni.
Bloggar | 18.12.2009 | 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alveg merkilegt með þessa blíðu. Einhvern tíma var sagt að við fengjum svona góðviðriskafla á vetri borgaðan með arfabrælu. Vonandi verður það ekki.
Í gær voru margir að landa. Bergur landaði góðum, Dala Rafn var með 23 tonn mest þorsk. Vídalín landaði tæpum 50 tonnum mest þorski. Gullberg líka. Bergey með 56 tonn, ufsi og karfi. Vestmannaey og Smáey lönduðu í fyrradag um 50 tonnum hvor, ufsi og karfi. Suðurey var með fullfermi í vikunni og eru hættir fyrir jól eins og Dala Rafn. Þorsteinn landaði á sunnudag fullfermi af ufsa.
Meira seinna í dag.
Bloggar | 18.12.2009 | 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren.
Það er bara vorveður í Verstöðinni. 6-9 stiga hiti dag eftir dag og blíða til sjávar og sveita. Gullberg landaði í gær fullfermi af ufsa og þorski. Landað síldarflökum úr Guðmundi í gær og í dag um 850 tonn. Sæmilegur slatti það. Það eru allir á sjó nema Gandí sem er hættur fram í janúar, er að fara í slipp. Glófaxi er að draga upp á selnum, verið lélegt undanfarið.
Hoffell kom í morgun í Gúanóið með 550 tonn af kreppukóði en eitthvað er þetta lélegt á gulldeplunni ennþá. En hún kom af meiri krafti eftir áramót í fyrra, þ.e. í jan. á þessu ári. Mjög lítið kom í land af deplu í desember í fyrra.
Nonni ráðherra heyktist á því að gefa út meiri síldarkvóta og botnfiskkvóta. Alltaf sama sagan, það vantar bein í nef Nonna til að standa uppí hárinu á Hafró. Það er enginn séns tekinn með því að auka bæði síldarkvótann og bolfiskkvótann. Síldina um 70.000 tonn, þorskinn um 30.000 tonn og sama kvóta á ufsann og í fyrra. Allir eru sammála um að nóg sé af ufsanum og jafnvel meira en í fyrra en þá var mjög auðvelt að ná honum
Enn er barist í sjómannaafslættinum og ekki er útséð með hvort það ber árangur. En við höldum áfram að berjast í því, sem og öðru sem að okkur snýr.
Bloggar | 15.12.2009 | 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Moren.
Helvítis bræla í Verstöðinni í dag. Smáey, Vestmannaey, Bergey, Bylgja, Bergur og einhverjir fleiri lönduðu í morgun. Flestir með um 30-45 tonn af blandi. Bylgja þó með rúm 30 tonn af þorski sem fór í Nöf á 370 kall kílóið. Fínasta verð sem Daði og félagar eru að borga fyrir þorskinn. Svona gengur þetta ef boðið er gott í fiskinn hér heima þá fer hann ekki í gám. Útflutningur er ekki alltaf bestur, heldur er þetta sambland af möguleikum til fisksölu. Hámarka virðið fyrir fiskinn. Bæði hérlendis og erlendis. Þetta frelsi má ekki skerða því það rírir tekjumöguleika sjómanna.
Best væri að Tjallarnir og Germanirnir kæmu og byðu í fiskinn hérna heima og það væri svo þeirra mál að koma honum út. Eða kannski létu þeir vinna hann hérna til að spara flutningskostnað?
Má kannski fara að breyta gámafiskinum í flök í gáma? Geymslutæknin er orðin það góð að ekkert mál er að flytja flök út með gámaskipunum. Þetta myndi skapa atvinnu og minnka flutningskostnaðinn.
Slá þannig tvær flugur í sama högginu, ef fólk fengist til að vinna við þetta. Það er spurning vegna þess að ekki hefur gengið andskotalaust að fá fólk til vinnu í fiskvinnslu þó launamöguleikarnir séu ágætir.
Eru menn tilbúnir að opna á þessa umræðu?
Tek ofan fyrir VSV og Ísfélaginu fyrir að borga starfsfólki sínu jólabónus. Minni líka á að sjómenn eru líka starfsfólk.
Svo er Biggi eitthvað að svindla á inniverunni. Það er BANNAÐ.
Bloggar | 11.12.2009 | 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Moren.
Það er búinn að haugasjór hérna í nokkra daga, uppí 4,5 m á Bakkafjöruduflinu. Það er semsagt ófært í Bakkafjöru segir Leifur í Gerði.
Suðurey landaði í morgun um 70 tonnum af blönduðu, var fyrir vestan. Fiskurinn af Suðurey og Þorsteini er bæði unnin hér og á Þórshöfn en þangað er honum ekið héðan, auðvitað fyrst með Herjólfi.
Vídalín landaði í fyrradag 45 tonnum, mest þorski.Gullberg landaði í gær um 50 tonn held ég og frekar dauft var hjá Gandí þessa vikuna. Frár var með rúm 30 tonn, helmingur ufsi. Voru í Breyðamerkurdýpi að reipast. Dala-Rafn landaði 25 tonnum. Drangavík er í slipp og kemur með nýja skrúfu bráðlega (held að hin hafi verið ,,laus''). Guðmundur kemur annað kvöld úr síðasta síldartúrnum í norsku og er með fullfermi. 850 tonn af flökum og eitthvað af hrati, siglingin heim er um 1000 sjómílur, nægur tími til að þrífa hjá strákunum.
Annars er nú bara allt í góðu nema Nonni ráðherra sem setti 5% álag á gámafiskinn af því hann sá að fyrirhugaðar breytingar á vigtuninni gengu ekki upp. Það er svolítið skrítið að ráðherra segir að samkvæmt íslenskum lögum sé það í góðu lagi að setja þetta 5% álag. Hann sem sagt segir að íslensk lög gangi framar reglum EES og ESB og hunsar það álti LÍÚ að þetta sé brot á EES samningnum og reglum ESB, sem nota bene, báðir aðilar eru á móti.
Já, það er margt skrítið í kýrhausnum.
Má til að láta einn frá Óla á Álsey flakka: Gömlu hjónin voru að gera sig klár í háttinn og sátu sitt hvoru megin á rúminu. Sá gamli tók út úr sér tennurnar og fór svo að fikta í eyranu á sér og dró út eitthvað sem líktist endaþarmsstíl, konan glennti upp augun og spurði hvað þetta væri eiginlega. ,,Nú veit ég hvað ég gerði við heyrnartækin'' sagði sá gamli.
Kv. Valmundur
Bloggar | 10.12.2009 | 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Moren. Enn ein ,,gleðifréttin'' af málefnum sjómanna kom fram um helgina. Það stendur nefnilega til að fækka þyrlum LHG um eina, úr þremur í tvær. Einnig verður bara ein áhöfn tiltæk þriðjung úr ári
Það ríður ekki við einteyming hve brotsjóirnir dynja á sjómönnum. Fyrst sjómannaafslátturinn og núna björgunarmál til sjós og lands. Við skulum taka uppdiktað dæmi sem þó hefur oft komið upp.
Togari að veiðum á Reykjaneshrygg, um 150-180 sjómílur frá landi, fer fram á að þyrla með lækni sæki illa slasaðan mann hjá sér. Auðvitað er strax sett á fulla ferð til lands. Þá er hringt frá Gæslunni og skipstjóra skýrt frá að ekki sé hægt að senda þyrlu, þar sem einungis ein áhöfn sé á vakt og ekki megi senda eina þyrlu svona langa vegalengd. Skipið verður að sigla að 30 mílna vegalengd til Reykjavíkur þá komi þyrlan. við erum að tala um 120-150 mílna langa siglingu, svona 12-15 klukkutíma í góðu leiði. Og hvernig er heilsa sjúklingsins eftir þennan tíma? Er hann lífs eða liðinn? Ég veit að þetta eru harðneskjulegar spurningar, en þetta er hinn ískaldi raunveruleiki. Og ef þyrlunar væru tvær og færu á móti fyrrnefndum togara, þá væri engin þyrla til að sinna útkalli t.d. ef einhver þyrfti aðstoð á landi.
Dæmi af landi. Sjúkrabíll er kallaður út í Dverghamar, en einungis ein áhöfn er á vakt og einn bíll má ekki fara lengra en vestur að Illugagötu og sá sem kallaði eftir sjúkrabíl þarf að koma hinum sjúka austur á Illugagötu. Yfirleitt í svona tilfellum skiptir tíminn öllu máli. Ég veit að þetta er ýkt dæmi en svona getur raunveruleikinn á sjónum orðið ef skorið verður meira niður hjá LHG.
Hve lengi ætlum við að láta ganga yfir okkur á skítugum skónum og mér liggur við að segja sparka í okkur liggjandi? Eigum við ekki að grípa til varna? Og það má færa rök að því að þetta sé nauðvörn. Líf og limir liggja við. Ég legg til að flotinn sigli til Reykjavíkur og leggist fyrir föstu á Sundunum og loki þar með höfninni í nokkra daga og minni þar með ærlega á mikilvægi fiskveiða við Íslandsstrendur.
Bloggar | 8.12.2009 | 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í greinargerð fjármálaráðuneytis með hinu nýja frumvarpi um sjómannaafsláttinn, segir:
,,Sjómannaafsláttur hefur lengi verið umdeildur og gagnrýni á hann hefur aukist á undanförnum árum af ýmsum ástæðum''.
Ég mótmæli þessu harðlega og held því reyndar fram að þessi ,,gagnrýni'' komi úr einni átt og frá mjög fámennum hópi. Þessi hópur heldur til í 101 hverfinu í Reykjavík og þar í kring. Þetta er yfirleitt menntafólk, prófessorar, fólk með doktorsnafnbætur og frjálshyggjupostular af vettvangi stjórnmálanna.
Hvað sjómenn hafa gert þessu fólki er mér óskiljanlegt. Ef þú býrð úti á landi þá heyrir þú ekki þessa gagnrýni. Þar veit fólk að sjómennirnir eru þeir sem vinna hættulegasta starfið og eru langdvölum að heiman við að afla fjölskyldunni og þjóðfélaginu tekna. Bara það að vera langdvölum fjarri fjölskyldu og vinum, réttlætir afslátt á skatti sjómanna. Almannaþjónusta við sjómenn er snöggtum minni en við aðra þjóðfélagsþegna og eru þetta næg rök að mínu mati fyrir afslættinum.
Öll umræða um að sjómenn ættu bara að finna sér aðra vinnu ef þeir eru ósáttir með afnám afsláttarins, er húmbúkk og lýsir best rökleysu og vanþekkingu þeirra sem frá segja.
Í nágrannalöndum okkar er starf sjómannsins metið að verðleikum. Í Noregi var sjámannaafsláttur hækkaður með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010. Hann er nú 150.000 nkr. Þ.e. sjómenn í Noregi borga ekki skatt af fyrstu 150.000 nkr. sem eru 3,2 milljónir íslenskra króna.
Í Danmörku er afslátturinn 190 dkr (4560 íkr) fyrir hvern dag og að hámarki 41.800 dkr á ári.(1.1 milljón ís kr)
Færeyskir fiskimenn mega hafa 75.000 dkr (1.8 millj. ískr) skattfrjálsar.
Svíar láta sínum fiskimönnum í té 640.000 ís.kr á ári í skattafslátt.
Af þessari upptalningu sést að íslenskir sjómenn eru langt á eftir nágrönnum okkar í þessum málum og hafi stjórnvöld skömm fyrir. Allt tal um að þetta samrýmist ekki stjórnarskránni og reglum EES er kjaftæði þeirra sem sjá íslenska sjómenn sem einhverja forréttindastétt.
Hvað með dagpeninga, staðaruppbót, bifreiðastyrk, ferðakostnað og fleira sem sumir fá ofaná laun sín og allt skattfrjálst. Eigum við ekki að byrja á því, þar er kostnaðurinn líklega 23 milljarðar árið 2008 bara hjá ríkinu.
Bloggar | 5.12.2009 | 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í gær var greint frá á vef fiskistofu, útflutningi á óunnum afla á síðasta fiskveiðiári (2008/2009).
Þessi samantekt og töflur um útflutning síðustu ára, styður málstað okkar sem viljum leggja rækt við þessa markaði sem og aðra sem eru okkur mikilvægir. Fjölbreytnin er góð við sölu á fiski. Einnig styður þetta sjónarmið okkar að mótmæla fyrirhugaðri reglugerðar breytingu á vigtun sjávarafla, sem við teljum setta til að þóknast fámennum hópi fiskkaupenda.
Hér er greinin.
Verðmætaaukning á útflutningi á óunnum afla
1.12.2009
Á síðasta fiskveiðiári ( 2008/2009 2008/2009 ) var fluttur út óunninn afli á erlenda fiskmarkaði með veiðiskipum og gámum að verðmæti 17,8 milljarðar króna. Verðmæti útflutts óunnins afla jókst því um 45,5% á milli fiskveiðiára. Útflutt magn jókst úr 56.548 tonnum í 59.349 tonn eða 5%. Vert er að minnast á að sé litið til heildarverðmæta frá fiskveiðiárinu 2006/2007 2006/2007 þá hefur verðmæti óunnins útflutts afla aukist um 75% á meðan útflutt magn hefur aukist um tæp 19%. Ætla má að staða íslensku krónunnar hafi veruleg áhrif í þessum efnum.
Af einstökum tegundum er flutt mest út af óunninni ýsu eins og undanfarin fiskveiðiár. Útfluttur ýsuafli fiskveiðiárið 2007/08 var 23.755 tonn að verðmæti 4,7 milljarðar króna en 22.347 tonn fiskveiðiárið 2008/09 að verðmæti 6,4 milljarðar króna. Þrátt fyrir 5,9% samdrátt í útflutningi á ýsu jókst verðmæti um 37,8%.
Útflutningur á óunnum þorski jókst milli síðustu tveggja fiskveiðiára. Útfluttur þorskafli fiskveiðiárið 2007/08 var 5.843 tonn að verðmæti 1,96 milljarðar króna en 8.827 tonn fiskveiðiárið 2008/09 að verðmæti 3,3 milljarðar króna. Þetta er aukning um 51,1% í magni og 68,6% aukning í verðmæti. Af öðrum tegundum ber helst að nefna að útflutningur á óunnum karfa minnkar jafnt og þétt síðustu þrjú fiskveiðiár.
Mikil aukning er í útflutningi og verðmætum á óunninni grálúðu á milli 2007/08 og 2008/09. Jafnframt má nefna að útflutningur á blálöngu, skarkola og þykkvalúru eykst jafnt þétt yfir tímabilið sem litið er til. Hér má sjá töflu með nánari útlistun í magni og verðmætum á óunnum útfluttum afla síðustu 3 fiskveiðiár eftir fisktegundum.
Af þessu má að við höfum nokkuð til okkar máls. Það væri argasta þvæla að fórna þessum mörkuðum vegna áróðurs nokkurra hagsmunaaðila sem vilja ódýrara hráefni. Endilega skoðið meðfylgjandi töflu með tölum þriggja síðustu fiskveiðiára.
Ýsan er nokkuð sér á parti og sýnir það mikilvægi þessara markaða að líklega fengist helmingi lægra verð fyrir hana á Íslandi með tilheyrandi launaskerðingu fyrir íslenska sjómenn.
En þessi mál þarf að skoða vel og er komin vinna í gang við að skoða hver virðisaukinn er af útflutningi óunnins afla, versus vinnslu á sama afla innanlands.
Bloggar | 2.12.2009 | 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góðan daginn góðir landsmenn.
Völlur á manni að halda að landsmenn allir fylgist með blogginu. Jæja hvað með það.
Helgin fór að mestu leiti í þvarg um afnám sjómannaafsláttarins svokallaða. Ákaflega leiðinlegt orð og óþjált. Köllum þetta bara skattafslátt.
Það óðu margir fram á ritvöllinn um helgina og tjáðu sig af miklu innsæi um sjómennsku. Sumir gerðust meira að segja svo djarfir að kalla sjómennskuna lúxusstarf. Sjómenn hafi bæði sjónvarp og internet og ættu ekki að vera með derring.
Minnir um margt á manninn fyrir norðan, einn af máttarstólpum bæjarfélagsins, sem spurði skipstjóra á skuttogara, sem var að koma nýr til bæjarins. ,,Hvað gerið þið svo á kvöldin og um helgar''
Bloggar | 30.11.2009 | 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 19
- Frá upphafi: 36279
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar