Jæja þá er það byrjað.

Moren.

Bjartsýnin var við völd í síðustu færslu. Nú er öskufall byrjað fyrir alvöru í Eyjum. Í gær byrjuðu ósköpin um hálf þrjú og féll aska til klukkan fimm. Þá þustu allir út að skola rykið af bílum, þökum og görðum. Skammgóður vermir því ógeðið byrjaði aftur í nótt. Núna kl hálf ellefu er eins og skammdegið sé komið aftur, það þarf að lesa við ljós. Öll náttúran er kolbikasvört og grá. Og engin rigning eins og í gær og askan ríkur um allt. Þvílíkt ógeð.


Ekkert öskufall í Eyjum.

Moren.

Ekki hefur fallið aska á okkur hér nema nokkur korn annað slagið. Höfum verið ótrúlega heppin með vindáttir. Það væri ekki gott ef norðaustan væri viðvarandi. En hugur okkar er hjá bændum og búaliði undir Eyjafjöllunum og þar í kring. Innfæddir Eyjamenn sem muna gosið '73 segja að fnykurinn og hávaðinn hafi verið verstur til lengdar. Menn heyrðu jörðina bókstaflega anda.  Auðvitað er askan slæm en það er hægt að hreinsa hana þegar hamförunum slotar.

Nokkrir lönduðu í gærdag og í morgun. Smáey og Bergey með sín hvor 50 tonnin. Drangavík í morgun með fullfermi 70 tonn. Krissan með 20 kör af heilum humri og slatta af fiski. Og Bergur í gær með 65 tonn. Bylgjan var líka í gær merð fullfermi um 75 tonn mest ufsi. Þannig að hér er nóg að gera og unnir 10-12 tímar í húsunum.

Strákarnir í Goodhaab í Nöf eru að byggja við húsnæði sitt. Þar verða nýjar frystivélar og skápar. Hráefniskælir og vélar fyrir uppsjávarfisk, makríl, síld og gulllax. Gott framtak og engin uppgjöf þar á bæ heldur reyna þeir að laga sig að aðstæðum hverju sinni. Glæsilegt.


Öngþveiti hjá LHG

Moren.

Gæsluna vantar aura vegna niðurskurðar vinstri stjórnarinnar sem svo aftur FLokkurinn orsakaði. Það er ljótt mál að skera niður hjá LHG og minnka þannig öryggi sjómanna til muna. Og kannski hefðu Jón bóndi og AKG átt að huga að öryggi allra þeirra sem flykkjast á strandveiðar á allskonar kollum í misgóðu ástandi, þegar þeir himinn höndum tóku og fundu upp strandveiðar. Væri ekki nær að með frumvarpinu um strandveiðar hefði fylgt fjárveiting til LHG frá Skallagrími fjárgæslumanni vorum, svo almennilegt eftirlit sé framkvæmanlegt. Það er ansi mikil aukning að fá allt í einu rúmlega 400 báta inn í eftirlitskerfi LHG til viðbótar öllum flotanum.


Hafró afli og fleira skemmtilegt.

Moren.

Nokkrir að landa í morgun. Vídalín með 90 tonn, karfi mest. Suðurey, 75 tonn bland en þó nokkuð af ýsu. Þorsteinn með fullfermi af úthafskarfa held 120 tonn sem fengust í fimm hölum. Dala Rafn með 55 tonn mest ýsa sem fékkst við Ingólfshöfðann og Frár með 40 tonn bland en þó nokkuð af þorski.

Nú er þannig komið að margir eru orðnir tæpir í þorskinum. Þó hafa flestir landað þorski sem "Hafróafla" eins og þeir mega. Útgerðin fær 20% af verðmæti þessa afla þegar búið er að draga frá uppboðskostnað og svo koma þessi 20% til skipta. Það má segja að sjómennirnir séu að gefa vinnu sína við þennan "hafrókvóta" sem er orðinn gífurlega mikill á þessu ári. Hvernig fer svo með úthlutun næsta árs? Verður kvóti næsta árs skorinn niður um harfóaflann á þessu ári?

Það verður að vinda ofan af þessu bulli. Menn hafa talað um innbyggðan hvata til brottkasts í kerfinu. Með þessu batnar ástandið ekki. Það er ekki ásættanlegt að áhöfn fái 20% af umsömdu kaupi sínu þrátt fyrir að vinnan minnki ekki, heldur þvert á móti eykst vinnan við aflann og ávinningurinn nánast enginn.

Það er anskotans nægur þorskur í hafinu núna og við eigum að veiða hann ekki láta hann svamla á önnur mið eða eitthvað þaðan af verra.


Bjarnarey hverfur!!!

Moren.

Ja hérna, enn hrinur úr Bjarnarey og segja gárungarnir (les, Ellireyingar ) að hún Bjarnarey sé að hverfa og hvetja alla Bjarnareyinga að gera sér ferð austur á hraun og berja hana augum áður en hún hverfur alveg.

Þannig er nú það, en Gullberg kom að landi í morgun með 70 tonn af karfa, ýsu og þorski. Annars er lítið að frétta af fiskiríi menn, flengjast um allan sjó í leit að ýsu og flýja þorsk. Jamm og ríkisstjórnin ber hausnum við steininn og heykist enn á að bæta við kvótann. Almennur aulagangur bara. Bylgja er komin af rækjunni og er farin á fiskitroll.


mbl.is Mikið hrun úr Bjarnarey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10 maí, merkilegur dagur í sögunni.

Moren.

Í dag fyrir sjötíu árum gekk breskur her á land á Íslandi og hertók okkur formlega. Flestir Íslendingar höfðu aldrei séð hermann í þennan tíma. Á Siglufirði komu tjallar og byggðu sér nokkra skála en gistu fyrst í tjöldum við illan kost. Amma gamla sagði mér að hún hefði vorkennt þessum óhörnuðu unglingum og heyrði stundum í þeim gráta sig í svefn. Sendir norður undir heimskautsbaug til að gæta fólks sem þeim kom ekkert við. Bretatúnið var heimavöllur þeirra en það er túnið sem barnaheimilið stendur á og þar norðuraf. Gantast var nokkuð með tjallana. Þeir tóku eftir að siglfirðingar keyptu mikið af skyri í kaupfélaginu og vildu prófa sjálfir. Keyptu þeir ósköp af skyri en vissu ekki hvernig matreiða átti þessa mjólkurafurð. Komið var að kokknum þar sem hann var að búa til bollur úr skyrinu og steikti svo á pönnu. Svo má minnast þess að í dag eru 49 ár frá fæðingu minni. Merkilegt nokk.

Drangavík landaði í morgun fullfermi eða 75 tonnum. Brynjólfur kom í gærkvöld með 112 kör af heilum humri og eitthvað af fiski.


Gandí og fyrningarleið.

Moren.

Gandí er kominn til heimahafnar fánum prýddur. Myndarlegasta skip og alltaf gott að fá nýtt skip í Eyjaflotann. Fer og skoða í dag. Gullberg landaði í morgun 85 tonnum mest karfi og Suðurey var líka í löndun. Þeir voru með 35 tonn, karfi.  Vestmannaey með 65 tonn blandað. Og Kristbjörg landaði einnig, humri.

Góð umfjöllun á www.wyjafrettir.isum fyrningarleiðina og fleira. Það er vélstjóri í Vestmannaeyjum, Elliði Aðalsteinsson, sem leggur nokkrar spurningar fyrir Ólínu vestfjarðagoða. Hún svararf um hæl en frekar er nú þunnur þrettándinn hjá henni. Endilega kíkið á þetta og kommentið.


Fimmtudagur í Verstöðinni.

Daginn.

Smáey og Bergey lönduðu í gærkvöld um 55 tonnum hver ýsa og þorskur. Mikið af þorski vesturfrá og allir að flýja svæðið. Brynjólfur landaði í gær 70 körum af heilum humri og 25 tonnum af fiski. Var mest á Skerbleyðunni og sunnan við Surt. Drangavík landaði í morgun fullfermi eða 75 tonnum, ekki mikið laust en smá samt!! "Nýji" Gandí kemur í kvöld.

Fundur um samgöngumálin og Landeyjahöfn var í Höllinni í gær og fóru vegagerðin, siglingastofnun og Eimskip yfir stöðuna og hvernig rekstri Herjólfs verður háttað þegar siglingar hefjast á Bakka. Ágætis fundur og svaraði mörgum spurningum. Síðasti frummælandi var Friðrik Pálsson hótelstjóri hótel Rangár. Hann fór vítt og breytt yfir möguleikana við að selja túristum afþreyingu, sem skapast með Landeyjahöfn. Þar er á ferð markaðsmaður mikill og hafði hann mikla trú á Vestmannaeyjum í þessu sambandi. Með því fororði að aðilar í greininni ættu að vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum sínum og miða við þjónustu allt árið. Ekki bara fleyta rjómann. Jamm segi ég nú bara.

Sjómannadagurinn nálgast óðum og undirbúningur er í fullum gangi, hef ég heyrt. Allir saman nú og mæta á bryggjuna og á viðburði tengda Sjómannadeginum. Sjómenn í Vestmannaeyjum hafa allan veg og vanda að deginum nú sem áður og ber að hrósa þeim fyrir það. Það er ekki sjálfgefið að henda upp einum Sjómannadegi, sumstaðar hefur hann lagst alveg af eða aðrir en sjómennirnir sjálfir sjá um hann. Verum stolt af okkar sjómönnum og heiðrum þá á þeirra degi með þáttöku í hátíðarhöldunum.


Löndun í dag.

Moren.

Lítið að frétta en Þorsteinn er að landa tæpum 100 tonnum af blönduðum afla. Nokkuð af afla Þorsteins og Suðureyjar fer ávallt norður á Þórshöfn og er unnið þar. Stígandi með rúm 55 tonn. Var útaf Sandgerði, eitthvað farið að minnka mokið og meiri þorskur, nema hvað. Bergur og Frár eru líka að landa en þeir komu á sunnudag í land. Spara kvótann. Svo er hér mjölskip að lesta mjöl bæði hjá Ísfélagi og VSV. Og olíuskip hjá Eiríki olíukóngi.

Vikurinn í höfninni er að aukast aftur og verða Svenni Valgeirs og félagar að munda síldarháfinn góða aftur til að hreinsa viðbjóðinn upp. Þetta ógeð er martröð vélstjóranna, stíflar allar síur og allt kælivatn fer að sjóða. Trillukarlarnir sigldu fram á stóran flekk í gær austan við Bjarnarey og hefur vikurinn sést víða á floti.

Þorsteinn fer næsta túr í úthafskarfann og peyjarnir eru að græja sig í það. Verða ekki lengi að því, þurfa ekki einu sinni að taka botntrollin í land og ekki hlerana ef þeir vilja. Nóg er plássið á þessum dassa.

Gandí kemur í fyrsta skipti til heimahafnar annað kvöld og verður bæjarbúum boðið að skoða gripinn á föstudaginn. Stefnt er að því að allur VSV flotinn verði í landi til heiðurs þeim "nýja".


Þoka og sól.

Moren.

Ímorgun var svarta þoka í Verstöðinni. En uppúr ellefu hafði sólin betur og skín nú skært með 12 stiga hita.

Vídalín kom í morgun en ekki er byrjað að landa úr honum vegna þess að Huginn er undir og landar frosnum kolmunna og í bræðslu. 500 tonn frosið og veit ekki hve miklu í bræðslu. Þeir eiga einn túr eftir strákarnir á Huginn.

Sá á netinu að Jón bóndi er að banna snurvoðina víða þar sem veitt er uppí kálgörðum. Gott mál og hann mætti líka hugsa til okkar hér fyrir suðurlandinu með snuddaralokanir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband