Blessuð blíðan ber að ...................

Moren.

Það er loksins komin sól í Verstöðina. En í gær kom grábölvuð askan með norðaustan áttinni. Smýgur um allt og leiðinleg. Nú er hálfgerð áttleysa og heiður himinn.

Gullberg landaði í morgun 45 tonnum og landaði einnig á Grundó á mánudag 80 tonnum. Þeir voru á Flákanum og þar er mikið af þorski og menn sprengja hægri vinstri. Svo kemur ýsuskot annað slagið og allir voma yfir þessu í von um nokkrar ýsupíkur.


Verstöðin á fullu gasi.

Moren.

Allt á fullu hér í Verstöðinni. Makrílvinnsla á fullu gasi hjá Ísfélaginu. Godthaab að verða klárir í makrílfrystingu af Dala Rafni og Bergey/Vestmannaey. Þeir fara til makrílveiða í næstu viku. Drangavík og Krissan lönduðu humri í morgun og er veiðin eitthvað að glæðast. Bergey landaði einnig í morgun 45 tonnum og Jón Vídó sömuleiðis en hann var með um 70 tonn.


Makríl og síldarverð.

Moren allir til sjávar og sveita.

Það er rigning hér í Verstöðinni en annars aðgerðarlítið veður. Makrílflotinn leitar nú austur á bóginn því lítið hefur fundist hér heimavið. Enn borga stöðvarnar í Eyjum lægsta bræðsluverðið. Nú eru borgaðar kr. 28 í bræðslu. Austfirðingarnir borga frá kr. 33 til 37 fyrir bræðslufiskinn. Þetta er of mikill munur að mínu mati og ég trúi því ekki að óreyndu að Eyjamenn séu stoltir af því að vera lægstir. Líklega verðum við að vísa verðinu hér til Verðlagsstofu skiptaverðs til að fá leiðréttingu í þessum málum. Vonandi þurfum við þess þó ekki og náum saman með útgerðinni.

Annars er lítið að frétta. Togbátaflotinn er að eltast við ýsu víða um hafið og hörfa undan þeim gula. Dala Rafn er að fara á makríl um helgina og verður spennandi að fylgjast með hjá þeim. Einnig ætla Vestmannaey og Bergey að tvílembast á makríl bráðlega og það er líka spennandi dæmi.


Skítabræla.

Moren.

Helvítis skítabræla í Verstöðinni. Austan 30 metrar á Höfðanum í morgun. Höfnin troðin af skipum. Suðurey með 40 tonn. Vídalín líka í löndun. Það lægir í nótt og þá fer flotinn að hreyfa sig. Makrílarnir að finna makríl og togbátaflotinn fer í ýsuleit og flótta undan þorski. Flóttamannaflotinn er hann kallaður íslenski togskipa flotinn. Heyrst hefur að LÍÚ sé að setja fram kröfu um að  sjómennirnir taki meiri þátt í olíukostnaðinum þegar menn hrekjast undan þorski. Jamm þannig er nú það. En gosloka helgin nálgast og ég minni menn á að ganga hægt um dyrina á gleðinni.


Bræla í Verstöðinni.

Sæli nú.

Nú er bræla í Verstöðinni, austan stormur og haustlegt í glugganum á Heiðarveginum. Makrílarnir eru að landa. Þorsteinn, Júpiter og Álsey hjá Ísfélaginu. Með um 250 tonn hver. Kap og Sighvatur koma í nótt með 450 tonn til VSV. Peyjarnir hans Snorra voru að klára 850 tonn úr Guðmundi af frosnum Makríl og Huginn landaði 550 tonnum í gær og dag. Það er makríll um allan sjó og gengur þokkalega að veiða kvikindið.

Bátaflotinn er að kroppa. Vestmannaey landaði í gær 60 tonnum og er í slipp í Rvík. Bergey með 65 tonn í dag. Frár 35 tonn og Dala-Rafn með 50 tonn. Drangavík er að græja sig á humar við  mikla hrifningu áhafnarmeðlima, þeir brosa hringinn og gleðin lekur af þeim.

Nú byrjar hinn árlegi slagur um verðið á uppsjávarfiskinum. Útgerðirnar borga mjög misjafnlega fyrir makrílinn og síldina. Ljós í myrkrinu er að nú er kominn alvöru maður hjá Verðlagsstofu skiptaverðs, sem kann að reikna og safna upplýsingum. Ef illa gengur að semja um alvöru verð getum við vísað ágreiningnum til Verðlagsstofu og fengið úrskurð um verð. Auðvitað vonum  við að til þess komi ekki. Ég trúi ekki að útgerðin í Eyjum vilji eiga þann vafasama heiður að borga lægsta verðið ásamt Hornfirðingunum.


Makríllinn að koma til.

Moren.

Sighvatur og Kap komu í morgun með rúm 600 tonn af makríl sem fékkst djúpt útaf Reykjanesi. Fínasti fiskur segja peyjarnir og helmingur fer í vinnslu og hitt í bræðslu. Makríll um allan sjó segja menn. Þorsteinn er undir hjá FES. Var með 250 tonn, allt í vinnslu. Álsey er að verða klár til veiða eftir mikla skveringu. Allir tankar sandblásnir og veltitankur settur á bakkann. Vonandi komast þeir á sjó í dag.

Bátaflotinn skrapar upp fiskinum og mikið fer í Godthaab. Allir að drukkna í fiski og nóg að gera. Shellmót á fullu og Eiríkur í olíunni hélt ræðu í gær við setningu mótsins.


Verstöðin á fullu gasi.

Moren.

Jæja ekki gengur að ekkiblogga lengur. Fiskiríið er almennt gott hjá togbátunum. Þeir fara víða í leitinni endalausu að ýsu. Vestur og austur en ýsan vill ekki gefa sig nema mjög stutt í einu. Eins og ég spáði er Jón bóndi hættur við fyrningarleið og er það vel. En eitthvað kemur í staðinn og ég spái veiðiskylduleið sem breið samstaða virðist vera um. Eitt er víst að allir verða að gefa eftir og 90-100% veiðiskylda með afnotarétti til t.d. 20 ára er leið sem er mjög vel fær og ætti að slá á óánægjuraddirnar í samfélaginu. Þó seint verði allir sáttir, en það er nú eins og það er.

Vonbrigði með niðurstöðu Hafró. Sjómenn eru sammála um að þeir séu alltaf tveimur til þremur árum á eftir í ráðgjöfinni. Svo er ekki mönnum bjóðandi að strandveiðikvótinn og byggðakvótinn komi til niðurskurðar hjá atvinnusjómönnum. Það verður að finna leið framhjá því. Helst að hætta þessu bulli öllu um sérstakar ívilnanir og draumóra stjórnmálamannanna. Nóg um það.

Makrílveiðarnar ganga sæmilega og eru menn að reyna að vinna sem mest. Nú fer makrílinn fitnandi mjög og þá er erfitt að vinna skepnuna. Þá er bara að setja kvikindið í bræðslu því verð á mjöli og lýsi er í hæstu hæðum núna.

Nú er Shellmót í Eyjum og gestir af fastalandinu í kringum 3000 talsins. Góð innspýting í bæjarfélagið. Veðrið er sæmilegt logn og hiti þó sólina vanti. Menn þurfa að hlaupa um til að ná andanum.


Flensa á sumri.

Moren.

Ekkert blogg lengi. Ástæðan er að ég hef legið í flensu síðan á mánudag. Eins og fokking skítaklessa, með allt að 40 stiga hita. Hvílík heilsa maður lifandi. Veit ekkert um landanir nema að makrílskipin eru að koma með þetta 100-150 tonn annan hvern dag og vaktir í húsunum. Svo er Frár að landa.

Vonandi kemst heilsan í lag svo maður komist á bryggjuna á morgun.


Fyrsta löndun.

Kvöldið.

Brynjólfur kom í morgun með 20 ker af krabbadýrum til að starta vinnslunni hjá VSV. Drangavík landaði held ég 60 tonnum. Svo kom Bergey undir kvöld með tæp 40 tonn. Þannig að nú er allt farið að snúast eftir hikst síðustu helgar. Öll þynnka gleymd og menn bretta upp ermar og draga björg í bú. Og ég líka.


Og lífið gengur sinn vanagang.

Moren.

Takk fyrir helgina vestmannaeyingar. Sjómannadagurinn tókst vel til. Sjómannadagsráð borðaði hjá Adda Johnsen í Höfðabóli, skötu og saltfisk á sunnudagsmorgun og svo drifu allir sig í kirkju í sjómannamessu. Sonur Sindra Ólafs og Hildar Sólveigar var vatni ausinn og skírður Aron. Alltaf hátíðlegt þegar skírt er á Sjómannadegi. Aron litli mótmælti kröftuglega þessari óvæntu truflun á lífi sínu og höfðu menn á orði að hann yrði líklega skipstjóri eins og afinn. Eftir messu flutti Snorri Óskarsson minningarorð við minnisvarðann. Svo kom sjómannadagsráð við hjá Bjössa vélstjóra hinu megin við götuna. Bjössi spilar á nikkuna og gítarinn, Leó tekur lagið og Addi Johnsen endar tónleikana með Göllavísum. Þetta höfum við gert í nokkur ár og er orðinn órjúfanlegur hluti af helginni. Stakkó hefðbundið, heiðranir og verðlaunaafhendingar. Hátíðarræðuna flutti Jórunn Einarsdóttir bæjarfulltrúi.

Svo endaði helgin hjá mörgum á veitingastöðum bæjarins með góðum mat og gleði. Fáir komu á tónleika Óp-hópsins í Akóges en að sögn þeirra sem mættu voru þeir stórgóðir.

Nú eru flestir farnir á sjó og lífið gengur sinn vanagang, hér í Verstöðinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband