Fimmtudagur í Verstöðinni.

Moren.

Lítið um að vera á bryggjunni. Þó kom Suðurey með góð 30 tonn mest ufsi og karfi. Bergey landaði 25 tonnum eftir stuttan túr og krabbabátarnir Drangavík og Kristbjörg lönduðu einnig. Eitthvað að glæðast humarveiðin. Dala Rafn að gera klárt.

Bærinn hefur verið undirlagður af kvikmyndafólki undanfarnar tvær vikur. Baltasar hefur verið að taka kvikmyndina Djúpið sem gerist að miklu leiti í Eyjum og út á sjó. Veit ekki betur en allt hafi gengið hnökralaust þó einhverjir hafi orðið fyrir ónæði um nætur vegna þess að liðið vill vinna á nóttunni. Held að um 60 manns komi að þessu verki fyrir utan alla aukaleikarana héðan úr Eyjum.


Landeyjahöfn o.fl.

Moren.

Hef áður lýst hugmyndum mínum um siglingar annarra en Herjólfs í Landeyjahöfn. Forgangur Herjólfs er sjálfsagður. En þegar hann er ekki í höfninni þá á auðvitað að nota hana. Hálftíma eftir brottför frá Bakka á að leyfa siglingar annarra, og þangað til Herjólfur leggur af stað frá Eyjum aftur. Og enn og aftur ítreka ég að fyllsta öryggis verður að gæta og mér sýnist að það sé gert með reglugerðinni um ölduhæðina og bátastærðina. Hverjum dytti í hug að takmarka siglingar skemmtibáta og farþegabáta í t.d. sænska skerjagarðinum? Ég hef siglt þar og ef menn telja þröngt í Landeyjahöfn, þá eru þeir sömu á villigötum. Fyrir næsta sumar verður að liggja fyrir hvernig þessum málum verður háttað.

Svo er eitt sem gleymst hefur í umræðunni um hina nýju siglingaleið Herjólfs. Mörgu starfsfólki Herjólfs var sagt upp störfum. Álagið á þá sem eftir eru hefur aukist til mikilla muna og reyndar óhóflega á stundum. Maður hefði haldið að með aukinni siglingatíðni og miklu fleiri farþega þyrfti fleira starfsfólk, eða?

Annars er það að frétta að Gullberg landaði 60 tonnum í gær sem og Smáey sem var með 55 tonn mest ufsi. Svo er Vestmannaey að koma til löndunar með rúm 60 tonn.


Gangur lífsins.

Moren.

Hjól atvinnulífsins eru farin að snúast aftur eftir þjóðhátíðina. Stöðvarnar komnar í gang og bræðslurnar. Vídalín landaði í morgun rúmum 90 tonnum, mest ufsa. Bergey var með fullfermi, rúm 60 tonn einnig ufsi. Svo er Þorsteinn búinn að landa 1600 tonnum af síld og makríl í bræðslu í FESið og Kap með 1300 tonn í Gúanóið.

Hitti nokkra góða spjallara í morgun og hafði einn þeirra á orði að ekki þyrfti heilt knattspyrnuhús til að ÍBV væri á toppnum. Vildi hann meina að vinna við húsið lægi niðri og ef ÍBV landaði titlinum yrði húsið tekið niður og notað til að byggja yfir Skipalyftuna.


Sumarfríið búið!!!

Moren.

Jæja góðir hálsar, þá er fríinu lokið. Ég hafði einsett mér að blogga ekki í fríinu en gat ekki setið á mér eftir dvölina á Sigló. Þaðan fórum við í Munaðarnes með afaskottið og dvöldum þar í góðu yfirlæti og fengum marga góða gesti. Þaðan fórum við í bústað Ísfólksins við Sogið í boði vina og alltaf sama blíðan.

Bergey og Vestmannaey lönduðu í vikunni nánast fullfermi hvor og Smáey landaði í gær fullfermi. Suðurey var einnig í gær með um 45 tonn. Lítið um að vera á krabbanum enda stærsti straumur ársins um þessar mundir.

Lenti í svolitlu ævintýri í gær. Fór með ,, Storm Breka '' vestur að Þrídröngum með leikara og tökuliðið sem er að taka kvikmyndina Djúpið. Vorum sjö tíma á sjó og tekin voru nokkur atriði. Meðal annars var tekið hal með ónýtu fótreipistrolli og meira að segja fráleyst. Tókum með okkur fisk sem settur var í pokann eftir halið, honum vippað útfyrir og hífður aftur inn og losað úr honum. Svo fóru leikarnir í aðgerð. Maður lifandi, handbragðið var ekki uppá marga fiska. En þetta var fyrsti túr hjá þeim flestum nema Þresti Leó sem er þrælvanur að vestan. Nokkuð bar á sjóveiki í liði bíómanna þó brakandi blíða væri. Skemmtileg reynsla og gaman að fá innsýn í þennan heim. Þessir klukkutímar einkenndust fyrst og fremst af því að bíða og bíða og bíða................. En allir í bíóliðinu virtust vera vanir allri þessari bið og voru hinir hressustu þrátt fyrir allt.


Sumarfrí.

Moren.
Vorum á Sigló á síldarævintýri um helgina. Siglfirðingar eiga heiður skilinn fyrir hvernig þeir hafa byggt upp bæinn sinn. Gömul hús sem að hruni voru komin fyrir nokkrum hafa gengið í endurnýjun lífdaga og eru nú bæjarprýði. Rauðkutorgið og Hannes Boy eru rósin í hnappagatið.
Með tilkomu Héðinsfjarðarganga mun Siglufjörður fá langþráðar samgöngubætur og siglfirðingar eru fullir bjartsýni á framtíðina.
Tónleikar Hlöðvers, Þorsteins og Þórunnar í kirkjunni á laugardaginn voru hreint út sagt frábærir og loksins fengum við að heyra í þeim öllum saman.
Um kvöldið fórum við í bátahúsið og hlýddum á frívaktina og Ómar Ragnarsson. Frábær skemmtan og siglfirðingar eru ekki á flæðiskeri staddir með tónlistarfólk. Dagskráin alla helgina var þétt og til fyrirmyndar. Varla sá vín á nokkrum manni enda mest af heldra fólki og prúðum unglingum með fjölskyldum sínum.
Takk fyrir frábæra helgi siglfirðingar og ekki skemmdi veðrið fyrir. Siglufjörður skartaði sínu fegursta, þoka á morgnana en sólin sópaði henni til hliðar um hádegi og þá minntist maður gömlu góðu daganna. Ég mundi rétt, lognið er eiginlega yfirgengilegt.

Siglingar í Landeyjahöfn.

Moren.

Siglingar í Landeyjahöfn eru bannaðar öllum skipum nema Herjólfi. Þetta er ákvörðun Siglingastofnunar. Að þeirra sögn meðan reynsla er að komast á siglingar Herjólfs þangað. Mér finnst þessi ákvörðun stofnunarinnar arfavitlaus. Virðist þjóna þeim tilgangi einum að Eimskip fái ekki samkeppni um fólksflutninga til og frá Eyjum. Minnir um margt á Loftleiðir á sínum tíma. Aðstöðuleysi í Landeyjahöfn fyrir smábáta er bagalegt en úr því er hægt að bæta með litlum tilkostnaði. Til er flotbryggja sem hentar vel þar og ekki mikill tilkostnaður að koma henni fyrir. Ef Siglingastofnun treystir sér ekki til að gera það getum við Eyjamenn gert það sjálfir. Nú eru þrjú skip í Eyjum með leyfi til farþegaflutninga. Herjólfur, Viking og ofurtuðra þeirra í Ribsafari. Viking og Ribsafari eru ofurseldir ægivaldi Siglingastofnunar sem í raun stendur starfsemi þeirra fyrir þrifum. Einungis Herjólfur má sigla í Bakkafjöru.

Það getur ekki gengið til lengdar að loka einni höfn landsins fyrir umferð og er í raun alveg stórfurðulegt. Ef Siglingastofnun og Eimskip eru hræddir við að tuðrur og önnur skip flækist fyrir Herjólfi í Bakkafjöru má setja reglur um að siglingar séu bannaðar hálftíma fyrir og eftir að Herjólfur kemur og fer úr Bakkafjöru. Í annan tíma má sigla eftir nánari reglum. Ég ítreka að fyllsta öryggis verður alltaf að gæta. Þegar flotbryggjan er komin og stígur uppá plan er ekkert því til fyrirstöðu að leyfa siglingar annara skipa en Herjólfs í Landeyjahöfn.

Flotbryggjan er til og menn tilbúnir að koma henni fyrir og ekki trúi ég því uppá Siglingastofnun að þeir komi ekki að því að gera aðstöðuna sómasamlega úr garði. Reyndar ákalla ég sveitunga minn og samgönguráðherra að höggva nú á hnútinn og klára málið.


Þjóðhátíðardeyfð.

Moren.

Leggst nú hin árvissa þjóðhátíðardeyfð yfir Verstöðina. Síðasti löndunardagur hjá Ísfélaginu er á morgun og á mánudaginn hjá VSV.

Vídalín landaði í morgun og einnig Krissan og Drangavík á krabbanum. Gullbergið var í gær sem og Smáey. Bergur var líka í morgun og Vestmannaey og Bergey verða seinna í dag með fisk. Vídalín er að fara í tveggja vikna slipp, bilaður stýrisstamminn.

Þorsteinn landaði 300 tonnum af makríl til vinnslu í gær og Júpiter landaði í morgun 130 tonnum til vinnslu. Tobbi eitthvað að klikka á því. Álsey er á landleið til Þórshafnar með 300 tonn af spriklandi stórum makríl sem fer til vinnslu. Sighvatur og Kap eru fyrir austan í síldarleit og Ísleifur fylgir í kjölfarið sem flutningaskip.


Makríll og fleira góðgæti.

Moren.

Hitasvækja skekur nú Verstöðina og menn svitna eins og í sauna.

Það er að frétta að Bergey/Vestmannaey eru hættir á makríl og farnir á fiskitroll. Makríllinn kom ágætlega út hjá þeim og greinilega hægt að veiða kvikindið með skipum af þessari stærð. Verðið er þó varla nógu hátt en það gæti breyst með tíð og tíma þegar menn hafa náð tökum á þessum veiðum og vinnslu og ekki síst sölunni á afurðunum. Gandí landaði rúmum 500 tonnum af frosnum makríl um helgina. Sighvatur og Kap lönduðu í dag 2400 tonnum í bræðslu. Geta verður þess sem vel er gert: Náðst hefur samkomulag um verð til bræðslu í síld og makríl milli VSV og sjómanna og eru menn þokkalega sáttir. Fleiri samningar eru í burðarliðnum og vonandi ganga þeir vel.

Frár er hættur fram að kvótááramótum en þeir lönduðu þrisvar í síðustu viku. Siggi Bessa SF var hér í morgun að landa makríl sem hann veiddi á handfæri en þeir eru vel útbúnir til þessara veiða. Var með 12 kör af kældum makríl sem fór til vinnslu í Godthaab. Fóru þeir á Sigga Bessa víða um við suðurlandið og enduðu við Bjarnareyjarhornið í snörpum fiski. Já hann er allstaðar makríllinn. Nú verðum við að finna fleiri markaði fyrir kvikindið því hann virðist vera kominn til að vera og auðvitað verðum við að nýta það sem svamlar hér um höfin innan okkar lögsögu. Humarveiðar ganga ágætlega á Eldeyjarsvæðinu en eithvað brennur líklega inni af kvótanum vegna tregfiskirís í júní. Svo er stóra spurningin hver fær það sem inni brennur á næsta kvótaári. Nonni hólabiskup væri vís til að setja humarinn í strandveiðar miðað við æfingarnar á honum undanfarið.


Bara blíða.

Kvöldið.

Jæja nú eru pungarnir farnir til makrílveiða, þ.e. Bergey/Vestmannaey að tvílembast. Dala Rafn fór aleinn á makríl og spennand að fylgjast með hvernig gengur.

VSV skirrist við að hækka verðið í bræðsluna, eru komnir í 32 kr. en aðrir sem gera út á að bræða borga kr. 37-39 fyrir makrílinn.

Svo er kapítuli út af fyrir sig að taka kr. 5 af þeim sem veiða fyrir að flytja aflann í land með Ísleifi. Báðir aðilar hagnast og ekki síst útgerðin. Á ekki að líðast á 21. öld.

Ef þetta lagast ekki þá verður ,, verðinu '' sagt upp og við vísum til Verðlagsstofu skiptaverðs.

Ég trúi því ekki að óreyndu að enn einu sinni  verði borgað lægsta verð fyrir uppsjávarfisk í Verstöðinni.


Verstöðin á föstudegi.

Moren.

Brakar í blíðunni í Verstöðinni. Sjómennirnir eru berir að mitti niður við löndun og snatt á bryggjunni. Smáey landaði í gær 45 tonnum og Frár landaði í morgun 55 tonnum. Sá að Bergur fór út í morgun, kemur á óvart að þeir skuli róa um helgi!!  Þorsteinn er undir í Fesinu, veit ekki hve mikið af makríl þeir eru með en það er verið að frysta í Ísfélaginu. Júpiter er væntanlegur í kvöld. VSV skipin Sighvatur og Kap eru væntanleg á morgun, voru komnir með 1300 tonn í gær. Suðurey landaði líka í morgun 40 tonnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband