Ályktun Jötuns um söluna á BH.

 

Ályktun stjórnar Sjómannafélagsins Jötuns, vegna sölu Bergs-Hugins til Síldarvinnslunnar.

 

Með sölu Bergs-Hugins til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað lýkur 40 ára útgerðarsögu Bergs-Hugins. Margt hefur gengið á á þessu tímabili í útgerðarsögu Íslendinga. Skin og skúrir hafa skipst á þennan tíma og oft hafa útgerðirnar staðið tæpt. En þá börðu menn í brestina og héldu áfram. Sýndu samfélagslega ábyrgð og sýndu af sér mikið siðferðisþrek. Saga útgerðar og vinnslu í Vestmannaeyjum sýnir að þeir sem höfðu þrek, þor og dug stóðu uppi sem sigurvegarar. Þó illa gengi eitt árið eða kannski fleiri þá fylltust menn eldmóði til að gera betur næsta ár og bæta fyrir tapið.

 Að hafa mannaforráð er ábyrgðarstaða og þegar menn eru á þeim stað verður að sína samfélags- og siðferðislega ábyrgð og standa með sínu fólki og reyna með öllum ráðum að tryggja afkomu þess til framtíðar.

Stjórn Jötuns sjómannafélags harmar þá niðurstöðu meirihlutaeiganda Bergs-Hugins að selja fyrirtækið úr bænum. Með þessum gerningi er atvinnu um 40 sjómanna í Vestmannaeyjum stefnt í mikla óvissu.  

Stjórn Jötuns telur að aðaleigandi Bergs-Hugins hefði átt að bjóða heimamönnum fyrirtækið áður en annara leiða var leitað. Einnig lýsir stjórn Jötuns fullum stuðningi við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum vegna forkaupsréttarákvæðis laga um stjórn fiskveiða.

 

Vestmannaeyjum 4 september 2012.

 

F.h. stjórnar Jötuns sjómannafélags

____________________________

     Valmundur Valmundsson


Salan á BH

Moren.

Jæja nú er sumarfríið búið. Ekki er hægt að segja að fréttirnar um söluna á Berg-Huginn séu gleðitíðindi fyrir okkur Eyjamenn. Gleðitíðindi fyrir Norðfirðinga að sjálfsögðu. Svona virkar kvótakerfið stundum. Kannski ágætis áminnig um ófullkomið kerfi og hvernig það getur snúist upp í andhverfu sína. Orðið að skrýmsli sem við ráðum ekki við.

En niðurstaða Magnúsar Kristinssonar og Landsbankans að selja fyrirtækið úr bænum er forkastanleg ákvörðun. Vegna þess að hér í bæ eru fyrirtæki og fólk sem hefur fulla burði til að eiga og reka fyrirtæki eins og Berg-Huginn. Ekki var látið á það reyna hvort vilji væri til að heimamenn kæmu að kaupum á BH. Það er grafalvarlegt mál að 35-40 fjölskyldur missi atvinnuna. Menn hefðu átt að huga að því áður en ákvörðun um sölu var tekin. Hafi þeir ævarandi skömm fyrir.

Mér er andskotans sama um gamlar væringar milli stórfyrirtækjanna hér á árum áður og sameiningarbrölt þeirra á sínum tíma. Þá stríðsöxi á auðvitað að grafa þegar svona miklir hagsmunir bæjarbúa eru í húfi.

Eins og málið lítur út fyrir mér, átti auðvitað að bjóða heimamönnum fyrirtækið til kaups. Allt tal um að Landsbankinn hafi neytt eigendur BH til þess að gera þetta svona, vísa ég til föðurhúsanna. Enginn hér vissi um þennan gerning og heimamenn gátu þar af leiðandi ekki haft áhrif á hann. ( Bankaleynd?)

En niðurtaðan er þessi hvort sem okkur líkar betur eða verr og eitthvað segir mér að svona verði þetta, þrátt fyrir að við mótmælum hástöfum. Móðurfélag Síldarvinnslunnar, Samherji, hefur hingað til fengið það sem þeir vilja þegar kemur að því að kaupa aflaheimildir og fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi og annarsstaðar.

Bærinn hótar málssókn og er það vel, að láta reyna á forkaupsrétt sveitarfélagsins á BH. En hve lengi verður málið fyrir dómstólum ef það fer þá leiðina? Líklega um tvö ár ef ekki lengur. Á meðan fer BH hægt og sígandi frá okkur til annara sem Landsbankinn hefur velþóknun á.

Ísland best í heimi.!!!!


Korter í Þjóðhátíð!!

Moren.

Jæja nú er stutt í þjóðhátíðina. Hér með upplýsist að formaðurinn verður á Síldarævintýri á Siglufirði um helgina.

Nú eru flestir hættir fyrir þjóðhátíð. Guðmundur er kominn og landar 550 tonnum af makríl á morgun. Bergey landaði í gær og Vestmannaey í morgun. Um 60 tonnum hvor. Þórunn verður á morgun með fullfermi 110 tonn. Heimaey og Júpiter fiska fyrir Þórshöfn. Síðustu vaktir í Ísfélaginu á morgun. Held að Huginn verði á morgun eða fimmtudag.


Hvar er Valli?

Moren.

Til að svara spurningu í fyrirsögn þá er Valli í Alþýðuhúsinu.

Þórunn kom inn í morgun með 320 kör sem eru rúm 100 tonn. VSV skipin Kap, Sighvatur og Ísleifur eru hætt makrílveiðum og fara til síldveiða eftir þjóðhátíð. Bergey var í gær með 20 tonn, var að létta á sér og fór vestur. Brynjólfur er með bilaðan spilrafal en Drangavík og Krissan fiska humarinn á meðan og Glófaxi. Maggý er komin í Skipalyftuna til viðgerðar eftir brunann um daginn. Heimaey er undir í FES með 300 tonn+. Vaktir í Ísfélaginu en klárast hjá VSV á morgun.

Veðurblíðan er með ólíkindum þetta sumarið hjá okkur í Verstöðinni. Herjólfur er pakkaður í öllum ferðum og túrhestarnir setja svip á bæjarbraginn. Skemmtiferðaskipin koma hér í hrönnum, aðeins eitt hefur hætt við vegna veðurs.


Loksins fréttir!

Moren.

Jæja nú koma loksins fréttir úr Verstöðinni. Er búinn að vera laus við og ekki gefið mér tíma í bloggið.

Makrílveiðar ganga vel. Unnið á vöktum í öllum húsum. Nú er Sighvatur undir með 370 tonn og Álsey með 300 tonn. Þórunn landaði í gær 90 tonnum af blönduðum afla sem og Gullberg með 80 tonn. Humarbátarnir eru að reyta upp humarinn og fá ágætt af fiski með. Vídalín er í pásu þar til á nýju kvótaári. Gandí er að fara í Grænlenska lögsögu í leit að makríl, sem að sögn er þar líka. Svo segir ESB að minni makrílgengd sé hér norðurfrá, maður sprelllifandi. Hér sést vaðandi makríll út um allt

Frár, Dala-Rafn, og Bylgja eru stopp, enginn kvóti. Svo á að taka meiri kvóta af okkur sem pólitíkusarnir ætla að leika sér með á kosningaári. Það er spurning um hvort þessi skip byrji yfirleitt aftur!!


Verstöðin 4 júlí 2012

Moren.

Lífið gengur sinn vanagang í Verstöðinni. Alltaf sól og blíða, maður lifandi. Þokkaleg veiði í makrílnum. Heimaey er biluð, eitthvað tölvuvandamál við aðalvélina og þá er ekkert hægt að gera. Nú eru engir barkar fyrir olíuna og skurðinn, bara tölvur sem stjórna öllu. En sérfræðingar eru að skoða dæmið og vonandi komast peyjarnir á sjó fljótlega.

Júpiter byrjar á makríl í kvöld. Bergur, Bylgja og Bergey eru búnir með sinn makrílskammt og fara á fiskitrollið aftur. Nema Bylgja sem fer í langlegustæðið sitt aftur á Nausthamrinum. Bergur á eftir tvo túra. Frár fer í síðasta túr á sunnudag. Þeir voru með 60 tonn í gær. Búið að leggja Vídalín fram í ágúst. Sem og Dala-Rafni.


Vondar fréttir úr Verstöðinni.

Moren.

Slæmar fréttir bárust í morgun ú Vinnslustöðinni. 40 manns var sagt upp störfum, þar af 30 sjómönnum. Allri áhöfn Gandí VE. Ástæðan er minni kvóti og auðlindagjald á sjávarútveginn.

Við sem höfum mótmælt auðlinda- og kvótafrumvörpunum, höfum verið að kalla eftir úttekt á fyrirtækjunum og sjávarbyggðunum. Hvernig þessi frumvörp færu með fyrirtækin og sjávarbyggðirnar í raun. Nú er að koma í ljós hvernig þessar aðgerðir bíta í þá sem síst skildi.

Framlegðin af Gandí er viðunandi á þessu fiskveiðiári. Á því næsta er framlegðin komin í mínustölu vegna aðgerða stjórnvalda, fyrst og fremst.

Á næsta kvótaári hverfa úr hagkerfi Vestmannaeyja um 4.5 milljarðar í auðlindagjald. Það er nokkuð víst hvar menn byrja að spara fyrst. Það er í nærumhverfinu og ég er hræddur um að erfitt verði fyrir t.d. íþróttafélögin að halda sínum hlut í styrkjum frá útvegsfyrirtækjunum. Þetta ástand bitnar á okkur öllum og ekki buðum við upp í þennan dans með stjórnvöldum. Við höfum einmitt varað við því að svona gæti farið.

 Svei ykkur sem gerið okkur þennan óleik.


Verstöðin 27 júní.

Moren.

Jæja nú er allt að gerast hjá okkur. Makríllinn flæðir í gegn hjá VSV, Ísfélaginu og Goodhaab.

Vestmannaey var að klára sinn kvóta í þremur túrum og Bergey tekur við. Dala-Rafn er búinn með sitt og fer ekki á sjó fyrr en í september. Bergur er líka á makríl og landar í Þorlákshöfn. Þessir eiga um 110 tonna kvóta hver.

Vaktir í Ísfélaginu og í Vinnsló. Heimaey, Álsey og Júpiter sjá Ísfélaginu fyrir hráefni og Kap, Sighvatur og Ísleifur sjá Vinnsló fyrir hráefni. Eru að koma með 200-300 tonn eftir sólarhringinn. Vídalín er að græja sig á makríl.

Frár landar fullfermi á morgun og á tvo túra eftir á kvótaárinu. Bergey er að landa ísfisk er með fullt skip.

Humarpungarnir eru að gera það sæmilegt.


Verstöðin 17 júní 2012

Moren.
Gleðilega þjóðhátíð.

Hér í Verstöðinni gengur allt sinn vanagang. Fínasta fiskirí hjá öllum. Makríllinn byrjaður að rúlla. Huginn er mættur með fullfermi af makríl sem og Gandí. Kap og Sighvatur partrolla með Ísleif sem hlera og hafa landað tvisvar sinnum um 250 tonnum í hvert skipti. Glófaxi, Drangavík og Brynjólfur eru á humri og Maggý hans Viðars Ella. Sæmileg veiði hjá þeim en ekki eins góð og í fyrra.

Trollararnir eru að gera það gott. Lönduðu allir fullfermi í vikunni. Bergey, Vestmannaey, Frár, Bergur, Gullberg, og Suðurey. Vídalín kom fullur á þriðjudag.

Ísfélagsskipin Guðmundur, Heimaey, Álsey, Þorsteinn og Júpiter fara á makríl í næstu viku.

Túrista veiðarnar ganga fínt. Fimm skemmtiferðaskip í vikunni. Nú kemur smá hlé í það en næsta skip er 30 júní. Bærinn er yfirleitt alltaf fullur af fólki þegar veðrið er gott eins og undanfarið.

Nú er allt í rugli á hinu háa Alþingi. Samkomulag um auðlindafrumvarpið var eiginlega komið í hús en svo fóru menn að skella hurðum og allt fór í bál og brand. 12-15 milljarðar eru menn að tala um núna og líklega verður það niðurstaðan. Ásættanlegt eður ei? Mér heyrist á flestöllum að sæmileg sátt sé um 12-15 milljarða en menn ekki sáttir við hvernig það dreifist á útgerðirnar. Reiknireglurnar eru eitthvað óljósar eða vitlausar.


Fréttatilkynning frá Sjómannasambandinu.

Moren. Hér kemur fréttatilkynning frá SSÍ sem samþykkt var s.l. fimmtudag.

Undanfarna daga hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum um aðgerðir útvegsmanna gagnvart stjórnvöldum vegna frumvarpanna sem nú liggja fyrir Alþingi um veiðigjald og stjórn fiskveiða og þátt sjómanna í þeim aðgerðum.

Stjórn Sjómannasambands Íslands sendi Alþingi umsagnir um þessi frumvörp þar sem afstaða samtakanna til frumvarpanna kemur skýrt fram. SSÍ telur að með frumvarpinu um veiðigjöld á útgerðina gangi stjórnvöld of langt í tillögu sinni um skattheimtu á útgerðina og deilir því þessari skoðun með útvegsmönnum auk þess sem ýmislegt í frumvarpinu um stjórn fiskveiða
þarf að laga að mati Sjómannasambands Íslands til að breytingarnar skaði ekki hagsmuni sjómanna.

Þó Sjómannasamband Íslands hafi í mörgum atriðum svipaða sýn og útgerðin hvað þessi frumvörp varðar er það alveg ljóst að samtökin eru ekki aðilar að aðgerðum útgerðarinnar hvað þessi mál varðar.

Auk þess er rétt að fram komi að kjarasamningar sjómanna hafa verið lausir frá upphafi ársins 2011 og hefur ekki verið mikill vilji hjá útvegsmönnum til að ljúka samningagerð við samtök sjómanna. Nú nýlega vísuðu útvegsmenn kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Í kröfugerð LÍÚ á hendur sjómönnum kemur fram hörð krafa um verulega lækkun á launum sjómanna óháð því hvort frumvarpið um veiðigjöld verður að lögum eða ekki. Auk þess hafna útvegsmenn alfarið að bæta sjómönnum þá kjaraskerðingu sem sjómenn hafa þegar orðið fyrir vegna afnáms sjómannaafsláttarins. Jafnframt eru einstaka útgerðarmenn að þvinga fram fækkun í áhöfnum skipa til að lækka launakostnað og telja þeir að þær aðgerðir komi sjómönnum eða samtökum þeirra ekkert við. Fleira af þessum toga mætti nefna.

Í ljósi þess sem að framan er sagt, auk ýmissa annarra þátta, má ljós vera að Sjómannasamband Íslands er ekki aðili að aðgerðum útvegsmanna á sama tíma og barið er á rétti sjómanna í öðrum málum. Aðgerðir útvegsmanna gagnvart stjórnvöldum eru því alfarið á þeirra ábyrgð."

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband