Þingmannaheimsókn og aflabrögð.

Moren.

Suðurey kom í morgun með 75 tonn. Kap er að landa síld um 400 tonn held ég. Annars er rólegt á bryggjunni. Vídalín er mættur úr skveringu og fer á sjó í dag.

Ólína Þorvarðardóttir mætti hingað í gær til skrafs og ráðagerða. Byrjað var á að skoða Þórunni Sveins en hún kom inn til að skipta um hlera. Var búin að reyna við ufsa í flottrollið með misjöfnum árangri. Síðan heimsókn í  Goodhaab í Nöf. Farið yfir útgerðarsögu Sigurjóns Óskarsonar og tölulegar upplýsingar frá honum. Í máli Sigurjóns kom fram að af upphaflegri aflahlutdeild, þeirri prósentu sem hann fékk úthlutað í þorski, sem úthlutað var 1984 eru 34 tonn eftir. Af um 500 tonnum.

Mest allur kvóti sem er á skipinu í dag er keyptur og skuldir vegna þessa um 1,2 milljarðar. Þetta er vegna stjórnvaldsaðgerða sem yfir okkur afa dunið á undanförnum 25 árum. Og enn skal höggvið í sama knérunn.

Ólína var með eitt á tæru, það er að stefna stjórnvalda er að breyta kerfinu hvað sem tautar og raular. Farið var víða í heimsóknir, í Pétursey, Dala-Rafn, stéttarfélögin og til bæjarstjórnar. Útvegsbændur buðu í hádegismat. Heimsókn í VSV og sýn Binna á tilvonandi skattheimtu á útgerðina og breytingar á kerfinu. Í hans máli kom fram að útgerðin þolir ekki meiri skattlagningu. Fjárfestingagetan færi í nánast ekki neitt og flotinn eltist enn meira en nú er. Meðalaldur flotans er nú rúm 20 ár.

Í gærkvöld var svo opinn fundur með Ólínu og Róberti Marshall. Þar kom greinilega fram að það er stefnt að breytingum á kerfinu en sýn þingmannanna okkar var aðeins önnur en t.d. VG. Það segir manni bara eitt, að ekki sé búið að ná samkomulagi um hvernig frumvarpið eigi að líta út. Stefnt er að því að leggja það fram fyrstu daga nýs þings í október. Ólína vill frjálsar handfæraveiðar utan kvótakerfisins. Göfug hugsjón en kallar það ekki á málaferli þeirra sem vinna í kvótabundnu kerfi?

Auðlindin er takmörkuð, það eru allir sammála um. Það verður tekið af einhverjum til að rétta öðrum. Fyrir mér er verið að færa vandamálið til en ekki leysa það. Atvinnusjómenn bera minna úr bítum, frístundasjómenn græða, kjarasamningslausir í þokkabót.

Ef t.d. þorskkvótinn er aukinn þá á aukningin að fara til annara en núverandi handhafa kvótans. En hvað skeður ef kvótinn er skorinn niður? Á þá að taka meira af þeim sem aukninguna fengu eða jafnt af öllum? Fullt af ósvöruðum spurningum.

Eitt var ég mjög ánægður með. Báðir þingmennirnir tóku undir það sjónarmið að hækka aflaregluna heilögu sem Hafró agiterar fyrir eins og enginn sé morgundagurinn. Úr 20% í jafnvel 25%. Ef það hefði verið gert fyrir tveimur árum væri Ísland betur á vegi statt en í dag. Fundurinn var ágætur og málefnalegur og ég er ekki í vafa um að þingmennirnir fóru héðan nokkurs vísari en áður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband