Fiskiríið og frumvarpið.

Moren.

Ágætis gæftir hafa verið undanfarið. Þórunn landaði 110 tonnum í gær. Vestmannaey með 70 tonn. Humarbátarnir hjá VSV voru allir með góðan afla í vikunni. Álsey landaði makríl hjá Ísfélaginu og voru vaktir þar í tvo daga. Vaktir hjá VSV í makrílnum og þar vantar fólk í vinnu. Dala Rafn er á makríl og landar í Þorlákshöfn. Þórunn er að fara á makríl.

Frumvarpið hjá Jóni bónda og co fær slæma útreið hjá nánast öllum umsagnaraðilum, eins og komið hefur fram í fréttum. Sjómannasambandið hefur skilað sinni umsögn og er hún mjög í anda þess sem aðrir hafa sent inn. Með þessu frumvarpi er verið að færa atvinnu frá atvinnusjómönnum til hobbýkarla. Sem leiðir aftur til þess að okkar menn mæla göturnar í lengri tíma en nú þó er. Sem þýðir að fleiri sjómenn fara á atvinnuleysisbætur, sem leiðir til enn frekari halla á ríkissjóði og koll af kolli.

Rök Ólínu og fleiri af hennar sauðahúsi eru þau að það eigi fleiri að koma að veiðunum og byggðirnar út um land eigi að fá meiri kvóta. En hvernig er staðan í raun? Potturinn stækkar ekki þó fleiri fái að veiða úr honum, algengur misskilningur sem maður heyrir hvað eftir annað.

Rómantík kemur oft við sögu hjá þeim sem styðja frumvarpið. Er það mikil rómantík ef 6000 tonn af bolfiski hverfa úr byggðarlagi eins og Vestmannaeyjum? Engin trygging að við fáum nokkuð til baka. Rómantíkin felst þá kannski í því að 40 - 50 fjölskyldur þurfa að flytja búferlum, tilneyddar af ríkisvaldinu. Tekjur sveitarfélagsins minnka að miklum mun. Afleidd störf tapast líka, og svo koll af kolli.

Með þessu frumvarpi er verið að búa til meiri vanda heldur en fyrir hendi er. Því vissulega er vandi í fiskveiðistjórnunarkerfinu, en hann verður ekki leystur með þessu frumvarpi, sem nota bene, var fullt af stafsetningarvillum þegar við fengum það í hendur. Það eitt sýnir kannski fljótaskriftina sem hefur einkennt þetta mál allt saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband