Herjólfur.

 Nokkur orð frá Sjómannafélaginu Jötni í tilefni þess að þremur þernum Herjólfs var sagt upp þann 23. Janúar sl. Tvær þessara þerna eru félagsmenn í Jötni og mótmælir félagið því harðlega hvernig staðið var að uppsögn þeirra. Fyrir það fyrsta lofaði rekstrarstjóri Herjólfs í vitna viðurvist að í starfslýsingu þeirra yrði fellt út ákvæði um ræstingar í eldhúsi og í klefum ásamt fleiru sem stóð útaf borðinu. Þessi ákvæði voru inni í starfslýsingu sem Eimskip sendi varðandi þernurnar um sl. áramót. Eftir að hafa farið yfir málin með þernunum ráðlagði ég þeim að undirrita ekki nýja starfslýsingu um áramótin, þar sem þær voru ósáttar við lýsinguna. Þær fóru að þeim ráðum og fóru fram á nýja starfslýsingu þar sem ákvæðin um þrif í eldhúsi og á klefum og fleira yrði tekið út.  Á fundi sem rekstrarstjórinn var viðstaddur ásamt a.m.k. einum skipstjóra skipsins og nokkrum þernum lofaði rekstrarstjórinn að þessi ákvæði færu út. Sagði rekstrarstjórinn að aldrei hefði verið ætlunin að láta þernurnar þrífa klefana og eldhúsið. En viti menn, í nýrri starfslýsingu sem þernum var afhent til undirritunar föstudaginn 21 janúar voru þessi ákvæði ennþá inni. Rekstrarstjórinn segist hafa gefið þeim frest fram á laugardag en þær fóru fram á frest til mánudags til að bera þetta plagg undir sín stéttarfélög sem eru Jötunn og Drífandi. Steinar Magnússon skipstjóri Herjólfs hvatti þær síðan til að skrifa undir á sunnudeginum ella yrði þeim sagt upp. Þá heyrði ég fyrst af málinu og bauð þeim til fundar við mig um hádegi á mánudeginum 24. Jan til að fara yfir málið, vega og meta nýja starfslýsingu þeirra. Sem er eitt af hlutverkum mínum sem formaður stéttarfélags. Trúði sem sagt ekki að verið væri að kúga fólk til hlýðni með þessu móti.Þær fóru þá enn fram á að stéttarfélög þeirra skoðuðu starfslýsinguna áður en þær skrifuðu undir.   Þernurnar fóru fram á frest til að segja af eða á um nýja starfslýsingu fram á mánudag 24. Janúar. Aldrei sögðu þær hvort þær myndu skrifa undir eða ekki. Eftir að Herjólfur er lagstur að bryggju á sunnudagskvöldið kl 22:00 afhendir skipstjóri skipsins þremur þernum, sem ekki höfðu undirritað umrædda starfslýsingu, uppsagnarbréf. Skipstjóri þakkar þeim samstarfið og segist vera sendill og ekki megi skjóta hann. Uppsagnarbréf þetta er vægast sagt furðulegt. Dagsett 12. Janúar 2011. Uppsögnin tekur gildi 23. Janúar og í land með ykkur ekki seinna en núna og við borgum ykkur einn mánuð á uppsagnarfresti. Skítt og laggó með það Eimskip er það í sjálfsvald sett að ráða og reka stsrfsfólk. En siðlaus er þessi gerningur, í besta falli. Svo því sé til haga haldið er ekki rétt sem kemur fram í fréttatilkynningu Eimskips, að þernurnar hafi ekki sætt sig við nýja starfslýsingu, þær ætluðu fyrst að bera hana undir sín stéttarfélög áður en þær segðu af eða á. Þeim varð ekki að ósk sinni eins og nú er kunnugt.   Það er grafalvarlegt mál ef starfsfólki er meinaður aðgangur að sínu stéttarfélagi í svona málum og Sjómannafélagið Jötunn áskilur sér alan rétt á að leita réttar þernanna í þessu máli. Nokkur orð sem tekin eru af starfsmannasíðu Eimskips: Samheldni, jafnræði, gagnkvæmir hagsmunir, fagmennska, samstarfsvilji, tillitssemi, standa við orð sín, kurteisi o.sv. frv. Þessi orð ásamt fleirum mynda orðið ást á slóðinni:    http://eimskip.is/IS/UmEimskip/Starfsfolk/default.html Kveðja Valmundur Valmundsson Formaður Sjómannafélagsins Jötuns

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband