Moren.
Var á 27. þingi Sjómannasambandsins fimmtudag og föstudag s.l. Við Jötunsmenn mættum til leiks með okkar sex fulltrúa sem við fengum úthlutað. Starfsamt þing og góðar ályktanir. Jón ráðherra hélt okkur ræðu en sagði ekki mikið. Jóhannes eftirherma var eiginlega betri, náði ráðherranum betur en ráðherrann sjálfur. En 40 fulltrúar sjómanna mættu til þings. Fyrri daginn fórum við í ,,þjóðfund'' sjómanna. Skipt í fjóra hópa og svo róterað svo allir kæmu að hverju borði. Ég var einn hópstjóra og fór með öryggis- og tryggingamál sjómanna. Uppúr hópavinnunni voru gerð drög að ályktunum fyrir þingið sem það afgreiddi svo í nefnd á föstudagsmorgni. Miklu meira kom fram í vinnunni en segir í ályktunum sem þingið sendi frá sér. Það er vel geymt og kemur sér vel í vinnunni við samningagerðina sem framundan er. Drangavík kom biluð í gær með 25 tonn en kemst á sjó í kvöld. Vídalín er að landa góðum 80 tonnum mest ufsa og karfa. Svo er Guðmundur að landa síðasta túrnum úr norsku landhelginni og er með fullfermi. Jólafrí hjá þeim. Brynjólfur er að gera klárt á net. Þannig að þeir fara ekki á fiskitroll, bara humar og net. Já allt er breytingum háð í henni veröld.
En hér koma ályktanir 27. þings SSÍ
Ályktanir frá 27. þingi SSÍhaldið 2. og 3. desember 2010.
27. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega aðför stjórnvalda að sjómönnum með fyrirhuguðu afnámi sjómannaafsláttarins og skorar á stjórnvöld að hætta við þau áform eins og þau liggja nú fyrir. Samkvæmt núgildandi lögum á sjómannaafsláttur að skerðast í áföngum og falli alveg brott árið 2014. 27. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld ræði við samtök útgerðarmanna um fyrirkomulag sjómannaafsláttarins og kostnaðarskiptinguna milli ríkis og útgerðar. Þingið hafnar þeirri aðferðafræði stjórnvalda að afnema sjómannaafsláttinn einhliða og ætla þannig sjómönnum að sækja á útgerðirnar um bætur. Þingið lítur svo á að það sé á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að kjör sjómanna skerðist ekki þó sú ákvörðun sé tekin að kostaður af sjómannaafslættinum sé færður frá ríki til útgerðanna.
27. þing Sjómannasambands Íslands minnir stjórnvöld á skýrslu nefndarinnar sem sett var á fót til að ná meiri sátt um stjórnkerfi fiskveiðanna. Meiri hluti nefndarinnar lagði til ákveðnar breytingar á lögunum til að meiri sátt ríkti í þjóðfélaginu um kerfið. Ekki verður séð á athöfnum stjórnvalda að mark eigi að taka á ábendingum nefndarinnar. Þvert á móti virðist sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggja sig fram um að hunsa meirihlutaálit nefndarinnar. Þingið gagnrýnir einnig að ekkert samráð virðist eiga að hafa við samtök sjómanna um fiskveiðistjórnunarkerfi framtíðarinnar. Varla getur það flokkast undir víðtæka sátt ef þeir sem hafa atvinnu af fiskveiðum eru ekki spurðir um álit á hvernig málum atvinnugreinarinnar verður háttað í framtíðinni.
27. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að frjálst framsal aflamarks verði afnumið og samhliða verði sett lög um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu. Eins og staðan er í dag getur kaupandi og seljandi afla verið einn og sami aðilinn sem í krafti einokunaraðstöðu sinnar ákveður verðið. Slíkur viðskiptamáti hlýtur að brjóta í bága við lög um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Eðlilegt hlýtur að teljast að allir fiskkaupendur hafi sömu möguleika á að kaupa þann fisk sem leyfilegt er að veiða úr takmarkaðri auðlind. Fyrsta skrefið til að koma á eðlilegum viðskiptaháttum með fisk er að aðskilja veiðar og vinnslu fjárhagslega sem leiðir til þess að allur afli verði seldur á fiskmarkaði eða tengdur afurðarverði.
27. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir þeirri lítilsvirðingu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sýnir sjómönnum ítrekað með því að leita ekki eftir áliti samtaka þeirra þegar ráðuneytið fjallar um málefni sjávarútvegsins.
27. þing Sjómannasambands Íslands hafnar alfarið hugmyndum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að taka fyrirhugaða aukningu aflaheimilda í þorski, ýsu, gullkarfa, ufsa og síld af þeim sjómönnum sem starfa á skipum sem nú hafa aflahlutdeild í þessum tegundum og selja þær öðrum.
27. þing Sjómannasambands Íslands skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga til baka reglugerð nr. 678/2010 um bann við dragnótaveiðum.
27. þing Sjómannasambands Íslands er ósammála aðgerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka rækju úr kvóta og gefa veiðarnar frjálsar. Þingið telur að þessi aðgerð geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir rækjustofninn enda var ákvörðun ráðherra tekin í andstöðu við álit Hafrannsóknastofnunarinnar. Þingið bendir á að betra hefði verið að banna frjálst framsal rækjukvóta og krefja þá sem ekki nýttu kvóta sína um að skila þeim þannig að hægt yrði að endurúthluta kvótunum til þeirra sem veiðarnar stunda. Með því móti væru rækjuveiðar áfram stundaðar með ábyrgum og sjálfbærum hætti.
27. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Jafnframt hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að samþykkja að greiða gjald til Sjómenntar. Jafnframt verði sjómönnum gert kleyft að stunda fjarnám um borð í skipunum.
27. þing Sjómannasambands Íslands leggur áherslu á að inn í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins komi afdráttarlaust ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, þ.m.t. fiskistofnum í íslenskri lögsögu.
27. þing Sjómannasambands Íslands fagnar því að hvalveiðar skuli nú stundaðar hér við land.
27. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega niðurskurði á rekstrarfé til Landhelgisgæslu Íslands. Lífsspursmál er fyrir sjómenn og aðra landsmenn að þyrlur séu til staðar þegar slys eða veikindi bera að höndum eins og dæmin sanna.
27. þing Sjómannasambands Íslands beinir þeim tilmælum til Slysavarnarskóla sjómanna að taka upp samstarf við slysavarnardeildir og stéttarfélög um að koma upp endurmenntunarnámskeiðum í heimabyggð. Jafnframt þakkar þingið Slysavarnarskóla sjómanna fyrir frábært starf að slysavörnum sjómanna og hvetur jafnframt til áframhaldandi árvekni í þessum málaflokki.
27. þing Sjómannasambands Íslands hvetur skipstjórnarmenn, aðra sjómenn og útgerðir til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð í skipum sínum eins og lög og reglur mæla fyrir um.
27. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir þeirri tilhneigingu sumra útgerðarmanna að fækka í áhöfn á kostnað öryggis skipverja.
27. þing Sjómannasambands Íslands vekur athygli smábátasjómanna á að til er kjarasamningur fyrir sjómenn milli SSÍ og LÍÚ sem gildir sem lágmarkskjör fyrir alla sjómenn. Samningar milli smábátaeigenda og einstakra sjómanna á smábátum eru því ógildir séu þeir lakari en áðurnefndur kjarasamningur um lágmarkskjör.
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.