Sagan af rörinu dýra.

Moren.

Jæja nú er dælurörið af Perlunni komið á land í Landeyjahöfn. Á föstudaginn kl 1600 fórum við á Lóðsinn í Bakka með tuðru með okkur og reyndum að slæða og festa í rörið. Það gekk ekki eftir. Nú voru kafarar sendir niður, Smári súpermann og félagi hans frá Grindavík. Sett voru tvö ból og tóg á milli þeirra á botninum og þeir þræddu sig eftir því og leituðu. Ekkert skyggni er þarna niðri, sjórinn mjög gruggugur. Þannig var leitað með því að færa baujurnar til og frá en ekkert fannst. Um kl átta um kvöldið gáfumst við upp og héldum heim á leið. Perlan fékk það verkefni að dæla meira úr botninum þar sem rörið átti að vera og við ætluðum að mæta í bítið í gær og halda leit áfram.

Í gærmorgun var ekki vinnandi á tuðru við höfnina vegna sogs, en Perlan var búin að finna rörið og náði að dæla frá því og lyfti því meira að segja upp en missti það aftur niður. Um hádegi var komið fínasta veður og héldum við á Lóðsinum í Bakkafjöru. Og mikið lá við. Smári súpermann sagði við brottför frá Eyjum að hann skyldi hundur heita ef við næðum ekki rörinu í dag og skyldi hann því til vottunar ganga allber frá borði þegar við kæmum til baka. Þegar við komum að Landeyjahöfn var Perla akkúrat yfir staðnum þar sem hann missti rörið um morguninn og við létum ból falla og náðum í kafarann grindvíska á bryggjuna. Gerðum tuðruna klára, tókum kafarana um borð og héldum að bólinu. Þeir hentu sér útí og nokkrum mínútum seinna komu þeir upp og sögðu okkur að rörið væri fundið. Belgur var bundinn við það og þá fóru þeir niður með 16 mm keðju og settu utanum rörið og komu um borð í tuðruna. Síðan kom Lóðsinn og við fengum vírinn frá honum og tengdum í keðjuna, komum okkur frá og Lóðsinn hífði varlega og þegar´fór að taka vel í slitnaði 16 mm keðjan eins og spotti,

Jæja, nú fengum við 18 mm keðju og kafarnir fóru með hana niður og settu utanum rörið og svo tengdum aftur í Lóðsinn. Dýpið þarna er um 9 metrar. Svenni Valgeirs skipstjóri slakaði aðeins út og hífði svo Lóðsinn á niðurstöðu með samankúplað og allt sat fast. Aftur reynt að slaka og hífa til baka og þá kom endinn á rörinu uppúr og við sáum við að rörið var laust, það dinglaði aftan í okkur. Nú var gefið í og við héldum að allt væri laust, en því var nú ekki að heilsa. Þegar fór að taka í sat allt fast og gátum við okkur til að rörið væri brotið og hinn endinn sæti fastur í botninum. 16 mm keðja er eftir rörinu endilöngu og hún hélt greinilega. Var nú togað og teygt á dótinu en ekkert haggaðist. Sett á hálfa ferð og þá er togkrafturinn um 15 tonn. Þorðum ekki að nota meiri kraft útaf keðjunni sem tengdi bútana tvo. Togað í allar áttir en enginn árangur. Nú fengum við Perluna til að koma og dæla frá endanum eins og hún gat.  Þetta tók tímann sinn. Í annari tilraun Perlunnar að sjúga frá rörinu, og Lóðsinn alltaf undir átaki losnaði draslið. Þá var klukkan orðin sjö og Lóðsinn hafði hangið í dótinu í fimm tíma. Nú var rörið dregið inn að bryggju þar sem öflugur kranabíll beið og hífði það á land. Aðgerðum var nú lokið og allir héldu ánægðir heim og ekki síst Súpermann sjálfur. Hann gekk alklæddur frá borði þegar við komum heim. Lýkur nú sögu af rörinu dýra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband