Meiri fiskifréttir.

Moren.

Jæja nú eru þrjú loðnuskip frá Eyjum á sjó að reyna að ná í síðustu tonnin. Guðmundur, Júpiter og Álsey. Allt skip frá Ísfélaginu. Eitthvað gengur illa að finna loðnuna. Allir komnir með einhver 100 tonn hver. Þorsteinn er að græja á botntroll. Sigurður er lagstur í stæðið sitt á Skáanum. Kap og Sighvatur eru í slipp á stór Reykjavíkursvæðinu.

Dala-Rafn var í morgun með rúm 60 tonn mest ýsa. Smáey líka með eitthvað svipað af blandi. Drangavík með fullan bát, 70 tonn. Vídalín með góð 100 tonn af karfa. Og Frár er farinn á sjó!!


Fiskifréttir úr Verstöðinni.

Moren.

Jæja nú er loðnuvertíðin að syngjast upp. Allir á síðustu tonnunum og einhverjir byrjaðir að þrífa. Margir ætla að slútta á Bjögga Halldórs á morgun í Höllinni. Vonandi verða ekki þung kjaftshögg þó einhver uppgjör verði í gangi. Smá klapp á kjammann er í lagi....

Bergur landaði í morgun 65 tonnum. Smáey með tæp 60 tonn sem og Bergey. Vestmannaey er enn í gír biliríi. Stígandi var með 50 tonn í gær. Drangavík með 65 tonn í morgun, mest ýsu sem fékkst á sólarhring í Röstinni. Dala-Rafn í gær með 50 tonn.

Menn eru svolítið óhressir með loðnuverðið en febrúar lagði sig á 20 kall kílóið þrátt fyrir hrognin. Þetta er nokkuð mikil lækkun frá í fyrra og þótti mönnum lágt verð þá. Kallað verður eftir skýringum á þessu.

Enn bólar ekki á frumvarpi Steingríms um fiskinn í sjónum. Og ekkert hefur kvisast um hvað það snýst nema að pottþétt verður ákvæði um að allir sem róa til fiskjar verða að vera með gildan kjarasamning.

Þó það.............


Loðnufréttir og fleira.

Moren.

Senn lýkur loðnuvertíð 2012. Eyjaútgerðirnar VSV og Ísfélag eiga sirka tvo túra á skip eftir. Þeir ná því strákarnir trúi ég. Sá umræður á facebook í gær um tekjur sjómanna. Einn landkrabbi hélt því fram að sjómenn hefðu alltof miklar tekjur fyrir að vera á sjó helminginn af árinu. Á móti kom spurning til landkrabbans; vinnur þú frá níu til fimm? Já svarar landkrabbinn.

Þá ertu bara í 33% vinnu miðað við viðveru á vinnustað og eru þá helgarfríin ekki tekin inn í.

Margir komu inn í gær undan brælunni. Þórunn var með 95 tonn. Dala-Rafn, Stígandi, Bergey, Drangavík, Smáey, allir með þokkalegan afla 40-75 tonn. Vestmannaey er með bilaðan gír og er stopp í tvær vikur. Netabátarnir gera það gott þegar gefur, sá guli er mættur í kjölfarið á loðnunni. Og engir smá slápar, maður lifandi.


Hrognavinnsla byrjuð í Eyjum

Moren.

Í gær hófst hrognavinnsla í Ísfélaginu. Ekkert svo sem í frásögur færandi nema hrognunum er dælt 800 metra vegalengd í röri úr FESinu í frystihús félagsins í Friðarhöfn. Og allt gekk upp og gengur eins og í sögu.

Nokkrir voru að landa í morgun. Þórunn var með 75 tonn af allskonar. Dala-Rafn með 50 tonn af blandi. Smáey í gær með 50 tonn. Frár með 25 tonn af þorski í gær eftir tvo daga á Péturseynni. Allt fullt af þeim gula á eftir loðnunni. Og ýsan maður, menn farnir að flýja ýsu. Það er nýtt í stöðunni. Stígandi landaði einnig í morgun um 50 tonnum. Loðnan er komin að Garðskaganum og nú er farið að sjást í endann á vertíðinni, um 170 þúsund tonn eftir.

Í morgun kom hér fríður hópur frá Fiskistofu, Sjávarútvegsráðuneytinu og LÍÚ. Tilgangurinn er að fara yfir nýja vigtarreglugerð sem verið er smíða. Okkar aðaláherslur í þeim málum eru að koma í veg fyrir vigtarsvindl sem víða hefur borið á. Getum alveg verið sammála Fiskistofu og ráðuneytinu um það. Það eru nokkur skemmd epli innanum. Við afturá móti viljum ekki að vigtarreglugerðin verði svo íþyngjandi að ekki sé hægt að flytja út fisk í gámum á erlendan markað. Það virðist vera hin pólitíska stefna sem nú er uppi.

Átti fund með útvegsmönnum um löndunarmálin hér í Eyjum. Eins og kunnugt er landa sjómenn á togbátunum sjálfir, sem við teljum ekki vera lögmætt. Enda segir kjarasamningurinn okkar að svo sé. Gagnlegur fundur að flestu leiti og áfram verður unnið að lausn málsins. Og svo var farið yfir stöðuna vítt og breytt.


Fiskur og aftur fiskur.

Moren.

Jæja nú er höfnin nánast full af skipum. Flestir að landa og liggja af sér bræluna. Gott fiskirí hjá togbátunum. Þeir sækja flestir austur fyrir land í ýsuna. Netabátarnir eru hér heimavið og eru í ágætis kroppi. Loðnan flæðir og frysting er hafin á Japan í báðum húsum og reyndar í Goodthab líka. Þeir kaupa loðnu af þeim stóru. Byrjað verður að kreista eftir helgi segja spekingarnir. Gjaldeyririnn streymir í kassann hjá okkur og allir njóta góðs af. ( Líka latteliðið. )

Nú styttist óðum í frumvarp Steingríms og félaga um fiskveiðistjórnunina. Hann lofaði okkur því á fundi fyrir nokkru, að enginn yrði ánægður. Sem sagt, allir verða óánægðir. Til hvers var þá farið af stað með málið á þessum grundvelli, að gera alla óánægða? Spyr sá sem ekki veit.


Fiskifréttir.

Moren.

Hér er allt á fullum snúningi. Bergey kom í gær með tæp 85 tonn eftir fjóra daga á veiðum við Surtinn. Helmingurinn ufsi. Vestmannaey er að landa 65 tonnum. Dala-Rafn er einnig að landa sem og Þórunn Sveins sem er með um 70 tonn. Fínt hjá netabátunum Brynjólfi og Kristbjörgu. Þeir eru í Faxaflóanum og koma hingað heim eftir tvær lagnir. Þorsteinn er undir í FES og Sighvatur er að landa í frystingu hjá VSV. Ísleifur bíður eftir leyfi til að fara út og litla Kap bíður löndunar.


Loðnan flæðir um héruð.

Moren.

Nú er loðnan farin að flæða um héruð. Kap er að fara út eftir löndun í frystingu, var með um 800 tonn. Sighvatur er að landa í frost um 800 tonnum. Ísleifur og litla Kap bíða löndunar í bræðslu. Sigurður er undir í FES með 600 tonn og rifna nót. Eitthvað bölvað bax á Sigurjóni Ingvars.

Nú er flotinn að veiðum vestan við Ingólfshöfða í góðum kekki og eitthvað bætist örugglega í.  Fréttir herma að loðna sé allt frá Húnaflóa og austur um.

Smáey kom á mánudag með 65 tonn, mest ýsu úr Sláturhúsinu. Suðurey og Vídalín eru að landa fullfermi báðir, mest karfa og ufsa. Svo er lifna hjá netabátunum enda Glófaxi byrjaður. Fleytir bara rjómann af þessu hann Beddi!!

Heyrði góða sögu í gær. Litla Kap var sett af stað á loðnuna til að borga hafnargjöldin af henni og hver er betri til að svippa þeim inn en hafnarstjórinn sjálfur sem rukkar þau! En eins og kunnugt er er Sveinn Rúnar Valgeirsson með litlu Kapina. Svo kalla kallarnir á hinum skipum VSV litlu Kapina, kjaraskerðinguna, vegna þess ða hún tekur frá þeim!

Sel þetta ekki dýrara en ég keypti.


Hvert fer kvótinn.

Moren.

Sjávarútvegsráðherra var hér með fund í fyrradag ásamt Birni V. Gíslasyni, Björgvin G. Sigurðssyni og Tómasi Marshall. Fundurinn var vel sóttur, um 70 manns komu á fundinn. Umræður voru nokkuð líflegar. Þó ekki hafi nú hvesst mikið milli manna. En ástæða þess að ég spyr í fyrirsögn, hvert fer kvótinn, er það sem Steingrímur sagði á fundinum. Honum varð tíðrætt um hve vel við Eyjamenn stæðum að vígi með aflaheimildir. Satt og rétt hjá Steingrími. Svo kom hann að því verki sem hann og fleiri eru að vinna núna. Skipta kökunni upp á nýtt. Steingrímur gerir sér mjög vel grein fyrir því að kakan stækkar ekki þó henni sé skipt í fleiri sneiðar. En var hann kannski að boða að við værum aflögufærir? Það fannst mér allavega. Sjómenn og útgerðarmenn í Eyjum hafa lagt hart að sér við að viðhalda aflaheimildum hér heima. Þrátt fyrir skerðingar á skerðingar ofan. Bæði með serðingu á kvóta vegna aflasamdráttar og vegna aðgerða stjórnvalda sem slá sér á lær og dreifa aflaheimildum svipað og jólasveinar gotteríi á jólaballi. Eyjamenn hafa borið gæfu til þess að kaupa til sín aflaheimildir þegar harðnar á dalnum, einmitt vegna þess að hér kunnum við að gera út og verka fisk. Þessi barátta okkar að lifa af verður nú ennþá harðari með næsta kvótafrumvarpi. Boðaður er stökkbreyttur auðlindaskattur sem á sér engan líka. Ekki greiða bændur og ferðaþjónustan t.d. fyrir afnot af sameiginlegri auðlind okkar, landinu. Liðkar örugglega fyrir samingum sjómanna og útgerðarmanna, eða hvað? Ef lausnin felst í því að færa frá okkur með beinum hætti til að bjarga öðrum, er betur heima setið en af stað farið. Er ekki betra að við höldum okkar hlut og gerum þetta eins og við kunnum best? Þá borgum við meira til samfélagsins og auðvitað á að dreyfa því til þeirra sem minna mega sín. Eða eiga allir að hafa það jafn skítt? Svo minni ég á ágæta grein Sigurjóns Aðalsteinssonar í nýjustu Fréttum.

En að máli málanna. Gleymdi alveg Gandí síðast. Hann kom úr rúmlega mánaðar grálúðutúr á mánudaginn með 150 milljóna aflaverðmæti. Alveg sæmilegt, þeir lágu viku af túrnum á hótel Grænuhlíð. Vestmannaey landaði í gær á eftir að spæja hve miklu sem og Dala-Rafn sem landaði í morgun. Vídalín var í gær með fínan túr. Álsey með 1500 tonn í gær og Ísleifur í fyrradag með 1000 tonn. Guðmundur er að landa 250 tonnum af frosinni loðnu og er með um 1000 tonn í bræðslu held ég.


Fiskur og pólitík.

Moren.

Sighvatur og Kap eru í löndun með fullfermi af loðnu. Netabátarnir Brynjólfur og Kristbjörg lönduðu í gær eftir tvær lagnir í Faxaflóanum. Um 50 tonnum hvor. Drangavík er að landa rúmum 60 tonnum. Frár er að landa 25 tonnum síðan á sunnudag mest rígaþorski af Péturseynni. Þórunn er að skríða milli garða núna. Aðrir eru flestir fyrir austan að eltast við ýsuuna.

Í kvöld verður opinn fundur VG og Samfó í Alþýðuhúsinu. Þar verður ofurráðherrann Steingrímur í forsvari ásamt fleiri hákörlum. Hvet alla sjómenn sem vettlingi geta valdið til að mæta.


Fiskiríið.

Moren.

Á Föstudaginn landaði Frár um 50 tonnum mest þorski. Vestmannaey var með 60 tonn mest ýsu að austan. Gullberg er að landa. Annars er allt rólegt. Sighvatur og Kap lönduðu um helgina fullfermi báðir tveir og Hvati er á heimleið með 1100 tonn. Enginn undir í FESinu. Nú er loðnan að skríða upp á grunnin og menn farnir að kasta nótinni. Drangavík landaði á Eskifirði í gær 65 tonnum ýsu og þorski.

Nú líður að því að frumvarp ofurráðherrans SJS um fiskveiðistjórnunina, líti dagsins ljós. Enginn má neitt vita hvernig sú vinna fer fram. Ekkert samráð er haft við sjómenn og útgerð um frumvarpið. Það mun að öllum líkindum verða til þess að auðlindagjald á sjávarútveginn verður hækkað töluvert. Það þýðir aftur á móti að sjómenn lenda í ströggli í næstu kjarasamningum um hver á að greiða þessa hækkun á auðlindagjaldinu. Í núverandi kröfum LÍÚ er krafa um að sjómenn taki meiri þátt í olíukostnaði en nú er, þannig að allir sjá að erfitt verður að berja saman kjarasamning við þessar aðstæður. Ég ætla ekkert að vera með neitt væl en svona er staðan. Og hún er grafalvarleg ef stjórnvöld ætla enn einu sinni að leggja stein í götu sjómanna. Minni á sjómannaafsláttinn og hér forðum daga þegar sjómenn stóðu á sínu og fóru í verkfall. Þá voru lögmenn stjórnvalda fljótir til að útbúa lög sem bönnuðu sjómönnum að vera í verkfalli. Á sjó með ykkur allir sem einn og látið traðka meira á ykkur. Það hefur komið upp sú hugmynd að ef allt fer á versta veg hjá SJS og félögum, að sigla flotanum í land og binda í einhverja daga til að mótmæla. Mótmæla því að alltaf er verið að taka frá atvinnusjómönnum og færa einhverju tómstunda liði sem sér sjómennskuna í hillingum á sumrin. Það er komið nóg af skerðingum á okkur í Eyjum. Við sem stóðum í þeirri trú að þegar betur áraði fengjum við skerðinguna til baka. Nei aukningin fer í gæluverkefni stjórnmálamanna sem notuð verða til atkvæðaveiða. Samkvæmt síðasta útspili Jóns bónda átti sjávarútvegsráðherra að fá 32.000 tonn til að spila með. Og það sem meira er í frumvarpsdrögunum voru 30 reglugerðarheimildir til handa ráðherra. Það er æðislegt að vera ráðherra sjávarútvegsmála á kosningaári, finnst ykkur ekki?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband